Í Fyrstu Mósebók er að finna söguna af Söru konu Abrahams sem var óbyrja og Hagar, egypsku ambáttinni en þar stendur að Saraí, kona Abrams, ól honum ekki börn. Hún átti egypska ambátt sem Hagar hét. „Saraí, kona Abrahams ól honum ekki börn... Þá tók Saraí, kona Abrams, Hagar hina egypsku, ambátt sína .... og gaf hana Abram manni sínum fyrir konu. Abram lagðist með Hagar og varð hún þunguð....“
Það er saga margra í gegnum aldirnar að þekkja þessa sterku þrá, löngunina eftir að eiga barn, afkomendur, en geta ekki átt börn rétt eins og Sara forðum. Á tímum þar sem tæknin hefur gert okkur mögulega hluti sem einfalda margt og leysa en flækja annað. Þá svarar það þó ekki siðferðilegum álitamálum samtíma okkar sem varða staðgöngumæðrun. Það er okkur ljóst að það var konan sem bar þessa skömm fyrst og fremst því barnleysið hélt henni frá því hlutverki sem var meginhlutverk konunnar – móðurhlutverkið. Börn voru og eru blessun og barnleysi á öldum áður þýddi niðurlægingu. Flestir þekkja þá gleði sem fylgir því að eignast barn og löngunin til að eignast barn er ein sú sterkasta sem maðurinn upplifir. Börn voru og eru blessun og barnleysi hér fyrrum þýddi að konan var ekki Guði þóknanleg. Við höfum þó í huga og sjáum að í orðum Krists er varað við því að lögð sé ofuráhersla á fjölskylduna og mikilvægi hennar „Jesús svaraði þeim er við hann mælti: „Hver er móðir mín og hverjir eru bræður mínir?“ Og hann rétti út höndina yfir lærisveina sína og sagði: „Hér er móðir mín og bræður mínir. Hver sem gerir vilja föður míns sem er á himnum, sá er bróðir minn, systir og móðir.“ (Matt.12:48-50) Leyfum þessum hugsunum að liggja í loftinu en snúum okkur að næsta hugsun er varðar „réttindi“
1.Réttindi Réttindi eru ofarlega í huga okkar þegar staðgöngumæðrun er rædd, réttindi til að geta og eignast barn sem geta umhverfst í brot á réttindum móður. Er réttur til að eignast börn sá sami og réttur á hjálp til að eignast börn. Annað sem hægt er að benda er á að barn er ekki réttur – barn hefur rétt. Benda má líka á að í ættleiðingarferli en ættleiðing sem hefur verið nefnd sem valkostur við staðgöngumæðrun, er frekar gengið út frá hagsmunum/réttindum barnsins en foreldranna. Munum að réttindum fylgja skyldur og réttindi eins verða oft skyldur annars. Því mætti huga að þegar talað er um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni (altruistik) þar sem oft er um að ræða ættingja eða vini.
Það er gjarnan talað um tvennskonar grunnréttindi í tengslum við siðferði. Rétt má skilgreina sem eitthvað sem einstaklingur eða hópur vill eða óskar og er nægjanlega mikilvægt til að leggja á aðra skyldur til að að framfylgja eða ná þessum réttindum. T.d. almenn réttindi barna til menntunar þau leggja skyldur á foreldrana eða samfélagið í einhverju formi – svo að börnin fái notið menntunar og fyrir þessum rétti eru nægjanleg siðferðileg rök. Við greinum líka á milli grundvallar réttinda og köllum þau annars vegar jákvæð réttindi en undir það flokkast hin hefðbundnu velferðarréttindi, lækning og meðferð og hinns vegar neikvæð réttindi sem varða rétt til frelsis eða gjörða án hindrunar – það er ekki staðið í veginum eða hindrað að viðkomandi nái að uppfylla óskir sínar. Þetta á við um stofnun hjónabands t.d. að fólk er ekki hindrað í að velja sér maka af ást og enginn annar þarf að leggja til maka fyrir viðkomandi. Svo er munur á grunnréttindum og afleiddum réttindum ef svo má segja. Grunnréttindi felast í því að börn njóti réttinda til mennta til að tryggja lífsgæði og möguleika barnanna í framtíðinni. Afleidd réttindi eru þegar annar en sá sem nýtur réttindanna sem ver þau –t.d. þegar konar þarf ekki að upplýsa hver er faðir væntanlegs barns. Það er ekki afstaða konunnarsem er grunnurinn að réttinum heldur t.d. það að maðurinn þurfi ekki að greiða meðlag eða hafi skyldur gagnvart ófeðruðu barni . Síðan er ekki alltaf samhljómur milli lagalegra réttinda og siðferðilegra. Við getum sagt að börn eigi rétt til að vera elskuð og njóta umhyggju foreldra sinna án þess að vísa í lagalegar reglur varðandi það. Eina sem við getum vísað í er skylda (siðferðileg) foreldra til að elska og annast börnin sín. Að gera reglur og lög varðandi slíkt er annar handleggur því við brot á lögum og reglum liggja viðurlög eða refsing Það er erfitt að búa til almenn viðurlög eða reglur við því að elska ekki. Það er erfitt að setja lög um siðferðilegar skyldur – hvort fólk sinnir tilfinningalegum skyldum sínum.
Réttur fólks til að eiga börn fellur vísast undir óskir og þarfir. Ef við lítum til þess sem grunnréttinda að eignast börn þá er það spurning um að þörfin sé svo sterk og réttur til góðs lífs að sá réttur verði ekki settur til hliðar af kröfum annarra. Heldur sé möguleiki á að leggja á aðra skyldur til að krafan nái fram að ganga. Þetta getur verið eins og bent verður á síðar að fólki finnst því ekki eiga „fullkomna“ fjölskyldu nema börn fæðist í hjónabandinu og ekki skal gert lítið úr þeirri sjálfsmynd fólks og hlutverki þess í samfélaginu. En líka má nefna að varðandi réttinn til fjölskyldu er líka hægt að vísa í mannréttindayfirlýsingu SÞ þar sem stendurí 16.grein: „ Fjölskyldan er í eðli sínu frumeining samfélagsins og ber samfélagi og ríki að vernda hana.“
Í ljósi þessa erum við að tala um neikvæðan rétt hjóna/para til að eignast fjölskyldu. Ekkert má standa í vegi.
2. Stutt yfirlit yfir stöðu staðgöngumæðrunar á Norðurlöndunum. En víkjum að öðru en það er staða mála hjá systurkirkjum á Norðurlöndum
Danmörk Í Danmörku hefur kirkjan enga slíka stjórn sem kirkjuráð eða slíka stjórnsýslu. Þar hefur nokkurskonar landssiðráð (Etisk råd) fjallað um og gefið út greinargerð varðandi staðgöngumæðrun kirkjan hefur ekki sameiginlegt ráð, nefnd eða stjórn sem fjallar um slík mál. Etisk råd er skipað af danska þinginu að hluta til og margir guðfræðingar/prestar sitja í því en það starfar þó óháð. Samkvæmt dönskum lögum er bannað að framkvæma tæknifrjóvgun ef fyrir liggur samkomulag milli konunnar sem sækist eftir frjóvguninni og annarar sem óskar eftir að konan fæði fyrir hana barn. Etisk råd leggst gegn staðgöngumæðrun en sérálit eins nefndarmanns má nefna í framhjáhlaupi. Það álit beinir sjónum okkar að menningarlegum mun sem vert er að veita athygli í tengslum við umræðu um staðgöngumæðrun. Naser Khader fulltrúi í Etisk råd bendir á í sínu sér áliti hversu mikilvægt það er ákveðnum hópi innflytjenda að börn fæðist í hjónabandi ef ekki þá er hjónabandið ekki fullkomnað. Noregur Í Noregi er staðgöngumæðrun bönnuð og jafnframt eggjöf en gjafasæði leyft. Þess í stað nýta Norðmenn sér heimsmarkaðinn ef svo má segja. Í umsögn norska kirkjuráðsins um tillögu faðernisnefndarinnar varðandi foreldrahlutverkið í barnalögunum leggur kirkjuráðið ríka áherslu á að varðaveita hinn hefðbundna skilning á foreldrahlutverkinu og vísar sér til fulltingis í Barnasáttmála SÞ. Það er hnykkt á því sem í norskum lögum stendur að konan sem fæðir barn er að lögum móðir barnsins. Þess má geta að 2010 fæddust tvíburar í Indlandi af innfæddri leigumóður. Samkvæmt norskum lögum er konan sem fæðir barnið móðir þess. Norska konan sem átti frumkvæðið að þunguninn ætlaði sér að ættleiða barnið og staðhæfði konan að hún hefði lagt til sínar kynfrumur en það reyndist ekki vera satt. Norsk yfirvöld segja að barnið sé indverskt en Indverjar segja barnið vera norskt. Konan er enn í Noregi (Samkv. fréttum frá 22. janúar 2011) og engin lausn í sjónmáli
Svíþjóð Í Svíþjóð er staðgöngumæðrun bönnuð Þess má geta að sænska kirkjuráðið (Kyrkostyrelsen) hefur tekið ákveðna afstöðu gegn staðgöngumæðrun en tekur ekki afstöðu gegn tæknifrjóvgun og styður rétt barns til að þekkja faðerni sitt ef um gjafasæði er að ræða. En fyrst og fremst að barnið eigi foreldra – tvo /tvær/tvö. Finnland Í Finnlandi var framan af tómarúm varðandi staðgöngumæðrun í lögum og hún því leyfð. Í dag, 2011, er leyfilegt að nota gjafaegg en þó ekki ef ástæða er til að ætla að barnið sem getið er verði gefið til ættleiðingar. Staðgöngumæðrun er því ekki heimil.
3. Niðurlag Hér hafa verið reifaðar nokkrar hugsanir varðandi staðgöngumæðrun sem siðferðilegt álitamál. Auk þessa sem litið hefur verið til nágrannalandanna varðandi stöðu mála þar. Einnig var velt upp spurningunni um siðferðileg réttindi. Réttindi barns eða foreldra. Við erum að feta okkur á hálum stigum. Vitanlega þekkjum við og virðum löngun fólks til að eiga börn, sjá afkomendur. Sú löngun er sterk og varin af því sem okkur finnst réttur til barneigna með öllum mögulegum ráðum en hér er réttast að stíga varlega til jarðar.
Erindi flutt á málþing á vegum Þjóðmálanefndar þjóðkirkjunnar um staðgöngumæðrun 14 febrúar sl.