Mitt í allri neyðinni

Mitt í allri neyðinni

Hvað ætli þeim sem ekki eiga fyrir mjólk á morgun og þurfa að standa í röð eftir mat hjá Hjálparstarfi kirkjunnar finnist um þessi orð? Svona mitt í allri neyðinni. Veit Jesús eitthvað hvað hann er að tala um? Ætli hann hafi staðið frammi fyrir því að eiga ekki fyrir bleyjum?
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
12. september 2010
Flokkar

Ég sé hann fyrir mér standa í grasinu á meðal lilja vallarins. Hann stendur þarna með vindinn í hárinu og fegurðin umhverfis er ólýsanleg. Það getur verið auðvelt að gleyma áhyggjunum úti í fagurri náttúrunni með hvítan angan blómanna fyrir vitunum.  

 „Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.“Segir hann þarna hjá blómunum.  

Falleg orð sem auðvelt er að taka til sín þegar allt leikur í lyndi. Ég velti því fyrir mér hvort þessi orð hefðu orðið til mikillar huggunar á borgarfundi um fátækt sem haldinn var í ráðhúsi Reykjavíkur síðastliðið miðvikudagskvöld.  

Á fundinn mættu um 200 manns og frummælendur voru talsmenn öryrkja, aldraðra, atvinnuleitenda, félagsbótaþegar og láglaunafólks en til svara sátu ýmsir fulltrúar stjórnvalda, sveitarfélaga, hagsmunasamtaka og félagssamtaka.  

Þarna kom ýmislegt átakanlegt fram. Hlutir sem við reyndar vitum flest um en ekki er haft mjög hátt um. Spurningarnar sem við verðum að spyrja okkur eftir þennan fund eru margar.  

Þykir okkur allt í lagi að um 40 000 heimili eigi í erfiðleikum með að láta enda ná saman?  

Finnst okkur ásættanlegt að um 700 fjölskyldur verði bornar út af heimilum sínum á næstunni?  

Viljum við ekki lifa í þjóðfélagi þar sem umhyggja er borin fyrir öllum?  

Finnst okkur eðlilegt að manneskja sem er algjörlega óvinnufær vegna meiðsla eða veikinda sé aðeins metin sem 75% öryrki? Að manneskja sem ekki getur unnið, verði að vinna í það minnsta 25%?   

Viljum við búa í samfélagi þar sem um 10 000 börn búa við fátækt?  

Viljum við ekki lifa í samfélagi þar sem sérstaklega er hlúið að börnum og velferð þeirra? Á fundinum kom fram að  tannlækningar barna yngri en 18 ára eru ókeypis á hinum Norðurlöndunum. Að nauðsynjavörur fyrir barnafjölskyldur  s.s. bleyjur bera fullan virðisaukaskatt hér á landi en engan á hinum  Norðurlöndunum. Að skólagjöld eru engin í menntaskóla og háskóla á hinum Norðurlöndunum. Að hér á landi þarf að greiða skólabækur og skólavörur fullu en eru ókeypis á hinum Norðurlöndunum. Að öryrkjar fá fullan stuðning á hinum Norðurlöndunum á meðan hér fá þeir aðeins stuðning að hluta. Hér þurfa fjölskyldur að greiða fyrir mat grunnskólanema á meðan hann er án endurgjalds í löndunum í kringum okkur. Það virðist vera nokkuð ljóst að miðað við hin Norðurlöndin er velferðarríkið Ísland ekki upp á marga fiska. Við vitum ekki einu sinn hver lágmarks framfærslan þarf að vera; hvar fátækramörkin eru. Á meðan margir tala um að hér sé bara lúxuskreppa, að við höfum ekki undan neinu að kvarta þar sem lífsstíll Íslendinga sé enn hár, fer sá hluti þjóðarinnar vaxandi sem ekki á fyrir brýnustu lífsnauðsynjum. Það skelfilega við þetta ástand er að þau sem verða undir nú eru þau sem einnig urðu undir í góðærinu svokallaða.

Þetta eru hóparnir sem eiga  að lifa af lágmarkslaunum, örorkubótum, félagsbótum og ellilífeyri. Þetta er ekki fólkið sem situr í allt of stórum húsum og keyrir um á bílum sem það getur ekki lengur greitt af. Þau gátu ekki leyft sér lúxus fyrir kreppu og þau geta það ekki nú. Íslenskt samfélag er samfélag hinna sterku. Aðeins þau sem hafa nægan styrk geta orðið eitthvað. Ef  þú, af einhverjum ástæðum, getur ekki komið ár þinni vel fyrir borð af eigin rammleik eða vegna góðra fjölskyldutengsla þá verður þú hreinlega undir. Við getum öll orðið fyrir því að missa heilsuna eða vinnuna. Við munum öll þekkja einhvern sem lendir í því að missa heilsu eða vinnu. Ég efast um að nokkurt okkar vilji að heilsuleysi leiði til fátæktar. Það velur sér enginn heilsuleysi og það er ekki aumingjaskapur. Staða öryrkja, atvinnuleitenda, stórs hóps aldraðra, félagsbótaþega og láglaunafólks var vond fyrir hrunið og hún er ekki betri nú þrátt fyrir að nú stjórni félagshyggjuöflin þjóðarskútunni. Skattarnir fara víst allir í að greiða skuldir. Í þessu harða samfélagi okkar þar sem bilið milli fátæra og ríkra eykst jafnt og þétt stendur Kristur niðri á Austurvelli og segir: „Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.“  

Hvað ætli þeim sem ekki eiga fyrir mjólk á morgun og þurfa að standa í röð eftir mat hjá Hjálparstarfi kirkjunnar finnist um þessi orð? Svona mitt í allri neyðinni.  

Veit Jesús eitthvað hvað hann er að tala um?  

Ætli hann hafi staðið frammi fyrir því að eiga ekki fyrir bleyjum?  

Það er svo merkilegt að um leið og samfélagið okkar er svo hart að við getum ekki hugsað sómasamlega um alla þegna þess þá erum við um leið svo góð við hvert annað.  

Þegar neyð fólks verður ljós þá aukast gjafir til hjálparstofnanna. Almennir borgarar, bæði börn og fullorðið fólk, stofnar hjálparsjóði fyrir skólabörn og aðra sem þurfa á hjálp að halda. Hér erum við öll tilbúin að gefa með okkur ef ljóst er að náungi okkar líður skort.En þrátt fyrir þennan augljósa velvilja og kærleika til náungans þá tekst okkur aldrei að koma upp þess konar kerfi hér að hjálparstofnanir verði óþarfar. Því það er gott að við séum tilbúin að hjálpa hvert öðru en betra væri þó ef hægt væri að nýta skattana okkar til þess að bæta líf fólks svo það þurfi ekki að lifa á góðmennsku og gjöfum frá þeim er hafa það betra.  

Þegar Jesús stóð þarna í blómahafinu og prédikaði þá átti hann ekki langt eftir ólifað og líf hans var oft erfitt. Andstæðingar hans leituðu hann uppi til þess að reyna að klekkja á honum í rökræðum. Þeir fylgdust með því hvort honum yrði á í messunni og hvort hann guðlastaði. Hann varð jafnvel fyrir gagnrýni vina sinna þegar þeim þótti hann hegða sér ósæmilega.  

Líklegt er að hann hafi á þessum tíma vitað eitthvað um örlög sín. Samt stendur hann þarna og hvetur okkur til þess að hafa ekki áhyggjur.  

Auðvitað vissi hann hvað hann var að tala um. Hann vissi og hann veit nákvæmlega hvernig það er að hafa áhyggjur af framtíðinni, áhyggjur af því að eiga ekki fyrir næsta leikskólagjaldi.  

Jesús Kristur veit hvernig það er að vera þú!  

Þrátt fyrir þetta, já, mitt í öllu saman hvetur hann okkur til þess að taka einn dag í einu. Hann hvetur okkur til þess að lifa í núinu því að á morgun kemur nýr dagur með sínar eigin áhyggjur.  

Jesús hvetur okkur ekki til barnalegs kæruleysis heldur vill hann að við, sama hver staða okkar sé, stöldrum við eitt augnablik og sjáum fegurðina í kringum okkur. Hún er til staðar mitt í allri neyðinni. Hún er til staðar hvort sem við erum rík eða fátæk, sorgmædd eða hamingjusöm.  

Jesús er ekki að hvetja okkur til aðgerðarleysis heldur vill hann einmitt að áhyggjurnar byrgi okkur ekki þannig sýn að við látum undan og hættum að berjast fyrir betri heimi.  

Hann vill hjálpa okkur til þess að lifa einn dag í einu, að lifa í núinu. Að láta áhyggjurnar ekki sliga okkur fyrirfram. Hann er tilbúinn að bera áhyggjurnar með okkur og hann vill að við berum þær fyrir hvet annað. Það gerum við með því að gera heiminn örlítið betri í dag en í gær svo öll fáum við lifað með reisn, hvort sem við erum sterk eða veik.  

Hann hefur rist þig í lófa sér. Amen. Hér er hægt að lesa pistil eftir sr. Þórhall Heimisson og hlýða á frásögn hans um borgarafundinn. Hér er hægt að horfa og hlýða á borgarafund um fátækt sem haldinn var í Ráðhúsi Reykjavíkur miðvikudaginn 8. ágúst síðastliðinn.