“Nú dregur arnsúg ofar tindum”

“Nú dregur arnsúg ofar tindum”

Einn samstarfshópurinn á þinginu orðaði þetta svo: <em>“Hvert og eitt okkar kom hingað til þingsins með eigin forsendur, eigin menningararfleifð og trúarhefð, en vegna verkunar Andans Heilaga, hefur okkur gefist betur en áður að heyra það sem aðrir hafa til málanna að leggja.” </em>

Möguleikar lífsins og landsins ríku jarðar

"Nú dregur arnsúg ofar tindum. Guðs andi fer í sumarvindum um heiðageim, um fjöll og fjörð að frjóvga landsins ríku jörð."

Svona var sungið hér í upphafi messunnar í hvítasunnusálmi sr. Heimis heitins Steinssonar, sem við flest munum eftir sem presti og þjóðgarðsverði á Þingvöllum og síðar útvarpsstjóra. Ég get ekki að því gert, en mér finnst hvítasunnan, sem hátíð Heilags Anda, alltaf vera hátíð máttar og möguleika – þ.e. hátíð hinna fjölmörgu möguleika og ótrúlegu krafta, sem lífið og tilveran býr yfir. Þessa fjölmörgu og ótrúlegu möguleika lífsins og “landsins ríku jarðar” finnst mér ég svo jafnan sjá hvað skýrast í frásögn Postulasögunnar af hvítasunnu-undrinu, sem svo er kallað, því skyndilega verður sem gnýr af himni eins og óveður sé að skella á, og allt í einu taka eldtungur að kvíslast um allt og snerta þau sem saman eru komin, og sem fyllt af Heilögum Anda fara síðan að tala tungum. Þessi frásögn Postulasögunnar er sannarlega sérstök en um leið ákaflega myndræn og við eigum ekki í neinum vandræðum með að setja okkur fyrir sjónir hvernig þessi atburður yrði útfærður á hvíta-tjaldinu, ef meiningin væri að gera kvikmynd um hann. Þessi frásögn gerir það að verkum að manni finnst Andinn Heilagi ekki eins óáþreifanlegur, eins og nafn hans alla jafna gefur til kynna, heldur er eins og í iðrum hans búi geigvænlegur máttur og kraftur sem sé allt að því snertanlegur og þess umkomin að umbreyta nánast öllu í einu vetfangi. Það er líka ljóst af vitnisburði Biblíunnar, að Andinn Heilagi verður seint fangaður með mannshuganum eða skilgreindur með skynsemina eina að vopni. Til þess er hann bæði allt of máttugur og óræður, og það er ekki að ófyrirsynju að við tölum um Andann Heilaga sem eina af þremur persónum guðdómsins og þ.a.l. sem eitt af birtingarformum Guðs. Í Jóhannesarguðspjalli segir t.d. um Andan, að hann blási þar sem hann vilji, og við heyrum þyt hans, en samt vitum við ekki hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Andinn er m.ö.o. ofar hugsun okkar og skilningi, en þó við ekki skiljum hann þá eigum við þess kost að skynja hann.

Að skynja og reyna hið guðdómlega

Í vestrænni guðfræði hefur athyglin beinst æ meir að Andanum Heilaga á síðustu árum og menn hafa spurt sig hvort í þessari þriðju persónu guðdómsins sé ekki einmitt að finna nýja möguleika til nálgunar og framsetningar á þeirri vitund og þeim vilja, sem við kölluð Guð og sem við kristnir menn trúum að standi öllu til grundvallar. Bandaríski guðfræðingurinn Harvey Cox, sem í áratugi hefur verið prófessor við Harvard háskóla – og sem ég hef reyndar átt kost á að hlýða nokkrum sinnum á - er einn þeirra, sem vill meina að öld Andans Heilaga sé að renna upp í kristinni kirkju út um allan heim. Með því að segja þetta, þá er Harvey Cox vitaskuld ekki að láta að því liggja, sem Heilagur Andi hafi legið óbættur hjá garði í lífi og starfi kirkjunnar á undanförnum öldum heldur er hann að undirstrika að nú séu að skapast slíkar aðstæður í trúarlífi manna, að æ fleiri séu nú reiðubúnir til að hugsa allt upp á nýtt - og þá í ljósi hins óræða en um leið kraftmikla og umbreytandi Anda, sem sveif yfir vötnunum, þegar Guð skapaði himin og jörð. Því má svo bæta við í sambandi við þessar fullyrðingar Harvey Cox, að þær eru ekki bara sagðar út í loftið heldur eru þær byggðar á athugunum og rannsóknum á trúaráherslum fólks, en samkvæmt þeim má staðhæfa að fólk er farið að finna sig í æ minni mæli undir áhrifum frá tilteknum trúarjátningum eða einstökum kennisetningum en þráir þess í stað sjálft að fá að skynja og reyna hið guðdómlega. Þessa þrá í lífi fólks orðar Harvey Cox í nýjustu bók sinni, með því einfaldlega að segja: “Reynslan af hinu guðdómlega er farið að taka sæti trúarkenninganna um guðdóminn.”

Opnunarathöfn heimsþingsins í Canberra 1991

Þegar ég las þessa nýju bók hans núna fyrr á þessu ári – en hún ber heitið “The Future of Faith” eða “Um Framtíð Átrúnaðarins” - kom mér skemmtilega á óvart að sjá, að hann túlkaði Heimsþing Alkirkjuráðsins, sem haldið var árið 1991 í Canberra í Ástralíu, sem nokkurs konar vendipunkt í sambandi við áhersluna á Heilagan Anda innan kirkjunnar en yfirskrift þingsins í Ástralíu var einmitt “Kom Heilagur Andi og endurnýja sköpunina,” og þar var í fyrsta sinn á þingum Alkirkjuráðsins fjallað sérstaklega um Heilagan Anda og þýðingu hans fyrir kristindóminn í heiminum. Á þessu þingi sátu fulltrúar allra helstu kirkjudeilda heimsins, nema Rómversk-katólsku kirkjunnar, og sjálfur átti ég þess kost að sækja þetta þing sem starfsmaður þess og gat því fylgst vel með því sem fram fór. Harvey Cox lýsir í bók sinni opnunarathöfninni, sem er mér að sumu leyti í nokkuð fersku minni, en í einum hluta hennar kom fram á sviðið ung kona – Chung Hyun-Kyung að nafni frá Suður-Kóreu - og ávarpaði þingið. Með henni var flokkur dansara sem var stjórnað af áströlskum frumbyggjum. Og allir voru dansararnir allt að því berir; einungis í lendaskýlum, málaðir með einhverskonar líkams-málningu eða “body-paint” og fluttu tónlist með frumstæðum hljóðfærum að hætti frumbyggja. Og undir þessu öllu saman kallaði Chung Hyun Kyung fram anda landsins og krafta guða og gyðja. Allt sem fram fór á sviðinu var því fremur óhefðbundið og ekki alveg í anda þess sem fyrirfram hefði mátt vænta við upphaf svona alþjóðlegs og kristilegs þings enda lýsir Harvey Cox þessari opnunarathöfn þannig í bók sinni, að hún hafi skapað óróa á meðan þátttakanda og hafi auk þess verið alveg sérlega vel til þess fallin að gera öllum þeim hvítu, vestrænu og miðaldra karlmönnum, sem þarna voru í nokkrum meirihluta - og mættir sem fulltrúar sinna gömlu og sumpart afturhaldssömu kirkjudeilda – grein fyrir því, að heimurinn væri að taka stakkaskiptum. Þarna fengu þeir m.ö.o. að sjá að evrópsk-amerísk yfirráð í trúarefnum og kristilegu samhengi væru að líða undir lok. Ný menningaráhrif, nýir kynþættir og ný guðfræði væri þegar farin að ryðja sér til rúms og seilast til áhrifa. Þó ég hafi nú verið áhorfandi að þessari sömu opnunarathöfn og Harvey Cox þarna í Canberra árið 1991 þá minnist ég þess nú ekki að hafa dregið alveg sömu ályktanir og hann af þessu öllu saman; ég var greinilega ekki kominn til alveg sama menningarsögulega þroskans og hann. Mér fannst þessi framsetning hins vegar nokkuð spennandi og mér er það afar minnisstætt frá þessari opnunarathöfn, að Chung Hyun-Kyung frá Kóreu – sem einmitt hafði lagt stund á guðfræði Claremont í Kaliorníu, þar sem ég síðar átti eftir að dvelja við nám – vitnaði við þessa opnunarathöfn í 2. Mósebók þar sem Guð birtist Móse í logandi runna sem þó brann ekki (Ex 3) og segir við hann: “Móse, Móse,…drag skó þína af fótum þér því að staðurinn sem þú stendur á er heilög jörð.” Og í framhaldi þessara orða kallaði Chung Hyun-Kyung frá Kóreu eftir því við alla viðstadda, að þeir drægju skó af fótum sér og veifuðu þeim upp í loftið, því þeir stæðu á heilagri jörð. Og viti menn, nær allir í salnum tóku við sér og tóku ýmist af sér annan skóinn eða báða og lyftu hátt á loft. Ekki veit ég hvernig þið brygðust við hér í dag, ef ég bæði ykkur nú um að fara úr skónum og lyfta þeim hátt á loft því þið væruð stödd á heilagri jörð? Það var nú samt það, sem flestir ef ekki allir hvítu, vestrænu og miðaldra karlmennirnir á þinginu gerðu; stóðu á fætur fóru úr skónum og héldu þeim hátt yfir höfði sér – þeir voru m.ö.o. ekki afturhaldssamari en þetta og voru reiðubúnir til að taka þátt í þessum gjörningi.

Um einn sem ekki tók af sér skóna

Einn var þó þarna í salnum, sem ekki var alveg reiðubúinn til að taka þátt í þessu öllu saman. Kannski fannst honum þetta allt svolítið kjánalegt eða kannski nennti hann bara ekki úr nýlegum og vandlega uppreimuðum Reebok-íþróttaskónum sem hann var í, en hver sem ástæðan kann að hafa verið, þá átti sá þar í hlut sem hér stendur frammi fyrir ykkur í prédikunarstólnum. Ég er hins vegar ekki frá því, að mér hafi átt eftir að hefnast fyrir þetta háttalag, að koma mér undan því að taka af mér skóna, því ég var vissulega staddur á heilagri jörð frumbyggja Ástralíu. – Og það var það sem þessi gjörningur með dansarana snerist allur meira og minna um, að undirstrika að frumbyggjarnir áttu líka sitt sína heilögu jörð og sitt heilaga land, því allt land er hluti af Guðs góðu og heilögu sköpun. Það var því ekki lengur eingöngu landið fyrir botni Miðjarðarhafsins – Ísrael – sem var hið heilaga og fyrirheitna land samkvæmt því sem þarna var fram borið, heldur var áherslan á það, að allt landi væri heilagt og að öllu landi og allri menningu og öllum kynþáttum bæri virðing, viðurkenning og umhyggja. Þarna í máli Chung Hyun-Kyung frá Kóreu var því lagt upp með nýja sýn og nýjar áherslur, sem kannski hafði ekki verið gert svo mikið með áður í jafn stóru samhengi og heimsþing Alkirkjuráðsins alla jafna er. Og þó atburðurinn, sem hér fór fram hafi e.t.v. fyrst og fremst verið táknrænn þá var hér samt um mikilvægan atburð að ræða því hann fór fram undir yfirskrift heimsþingsins: “Kom Heilagur Andi og endurnýja sköpunina.” Ég sagði hins vegar áðan, að ég væri ekki frá því, að mér hefði hefnst fyrir það háttalag að taka ekki af mér skóna við opnunarathöfnina, en það gerðist með þeim hætti, að seinna þennan sama dag fór ég í sund þarna í miðborg Canberra. Og þegar ég kom til baka upp úr lauginni og ætlaði að fara að klæða mig kom í ljós að búið var að stela bæði frá mér Reebok-íþróttaskónum mínum og armbandsúrinu mínu. Það var því ekki um annað að ræða fyrir mig en að ganga berfættur á brennheitu malbikinu í steikjandi sólinni, og þannig var ég minntur á það í hverju skrefi, þangað til ég komst inn í skóverslun, að ég væri staddur á heilagri jörð og að mér bæri eins og öðrum að sýna því virðingu með því að taka af mér skóna.

Ný sýn, nýtt samhengi, nýir möguleikar.

Þetta sjöunda heimsþing Alkirkjuráðsins, þar sem áherslan var á Andann Heilaga, og ég hef hér gert að umtalsefni, hefur þótt nokkuð merkilegt eftir því sem frá hefur liðið og þá einkum vegna þess, að þar var skapað samhengi sem opnaði nýja sýn og nýja möguleika, og sem gefur ólíkum guðfræðihefðum og ólíkum menningarheimum tækifæri til að tjá sig og ná eyrum hvers annars án þess að eiga á hættu að vera lítilsvirtir eða jaðarsettir. Einn samstarfshópurinn á þinginu orðaði þetta svo: “Hvert og eitt okkar kom hingað til þingsins með eigin forsendur, eigin menningararfleifð og trúarhefð, en vegna verkunar Andans Heilaga, hefur okkur gefist betur en áður að heyra það sem aðrir hafa til málanna að leggja.” Þó þessi orð frá heimsþinginu árið 1991 láti kannski ekki mikið yfir sér, þá eru þau mikilvæg, því þau opna á nýja möguleika og gera aðrar leiðir færar en áður hafa verið farnar; leiðir sem gera það að verkum, að við förum að skynja betur en áður hvernig öllu landi, allri menningu, öllum kynþáttum – og síðast en ekki hvað síst – öllum trúarbrögðum ber virðing, viðurkenning og umhyggja. Og hvernig verður jarðvegurinn fyrir þessa virðingu, viðurkenningu og umhyggju best plægður? Jú, hann verður best plægður með því að hlusta á það með jákvæðni og skilningi, sem aðrir hafa fram að færa. Og þá förum við kannski að taka betur eftir því en áður þegar …dregur arnsúg ofar tindum. og Guðs andi fer í sumarvindum um heiðageim, um fjöll og fjörð að frjóvga landsins ríku jörð.

Amen.