En honum fylgdi mikill fjöldi fólks og kvenna, er hörmuðu hann og grétu. Jesús sneri sér að þeim og mælti: Jerúsalemsdætur, grátið ekki yfir mér, en grátið yfir sjálfum yður og börnum yðar. Því þeir dagar koma, er menn munu segja: Sælar eru óbyrjur og þau móðurlíf, er aldrei fæddu, og þau brjóst, sem engan nærðu. Þá munu menn segja við fjöllin:Hrynjið yfir oss!og við hálsana: Hyljið oss! Því að sé þetta gjört við hið græna tréð, hvað mun þá verða um hið visna? Lúk. 23.27-31
Hann staulast áfram, hrasar í hverju spori, stendur skjögrandi á fætur, fellur enn. Hann sem allt vald er gefið á himni og á jörðu liggur nú með andlitið í götunni. Hver mun eftir þetta geta fullyrt að þú stjórnir frá háum trón efst og yst í alheimsgeimi. Hvað sýnir betur að vald þitt er annars konar en það sem við alla jafna kölum vald en einmitt þetta? Eftir þetta getum við ekki sagt þegar á dynur: Guð er ekki hjá Mér! Guð hefur yfirgefið mig. Hann haggast ekki í hásæti sínu þótt ég hrópi, þótt ég kveini.
Og Jesús rís enn á fætur.
Konurnar gráta og kveðina þegar þær sjá þessi ósköp að hann sem huggaði, læknaði, reisti á fætur, hann bugast nú, hrasar, dettur.
Leiðin er svo löng og þjáningin svo takmarkalaus. Allt það ber hann og dettur einu sinni enn.
Mannfjöldinn þrengir sér að. Þó er hann einn. Þessa leið gengur hann einn. Og hann heldur áfram gegnum skuggalendur sorgarinnar, kvíða og þjáningar, gjörgæsludeildir, langlegudeildir, fangelsi og meðferðarstofnanir, hús og heimili götur og torg um dauðans nótt og dinmmar grafir alla leið - fyrir mig. Fyrir þig.
Ég veit nú að ýmislegt það sem á dynur, missir, einsemd, sársauki, sorg, það ber merki þess að EINN hefur gengið þá braut og þekkir allt og signir allt og í ljósi þess þá lýkst upp dulin merking þess alls, saman safnað, tár og hlátrar, yndi önn, inn í faðm Guðs, umvafið elsku hans.