En hann sagði þessa dæmisögu: Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki.Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að spilla jörðinni?En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár, þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp. Lk.13.6-9
Við kveðjum nú ár sem hefur verið okkur Íslendingum gott og hefur lagt sitt að mörkum til þess að við megum teljast farsælasta fólk á jarðarkringlunni. Aldrei hefur hróður okkar borist eins víða né fjárafli okkar staðið fleiri fótum. Við höfum margt frumlegt byggt en jafnframt borið gæfa til þess að hyggja að mörgu fornu og gert okkur not af því einnig.
Þau sem standa í eldlínunni eru mikið hæfileikafólk og býr að góðu vegarnesti; góðri menntun, áræði og sjálfstrausti, en hefur samt séð framan í nógu margar hættur til þess að vera aðgætið. Það sígur fast fram og geysist stundum og reyndar aldrei eins og nú síðustu árin. Árangur þess byggist á vissri samjálp en einnig innbyrðis metnaði. Mér virðist líka sem megi þakka að þrátt fyrir eindrægni er það tiltölulega heiðarlegt og heldur ástfóstri við land sitt og málefni þess.
Ábatinn af starfi þess er mikill en hefur enn sem komið er fyrst og fremst safnast á fárra hendur og því hefur orðið mikill launamunur í þjóðfélaginu. Það er líklega lítið við því að gera enda jafnan fylgifiskur frjáls markaðskerfis og ber því fremur að velta fyrir sér hvað fólkið gerir við fjármuni sína. Þar finnst manni helst brestur á. Það berst sumt á af bjánaskap. Kannski ekki fyrst og fremst hinir auðugustu heldur þau sem hafa það gott sem kallað er. Það er óvirðing og vanþakklæti að fara ekki vel með það sem maður hefur handa milli.
Á sviði vísinda og lista hafa einnig verið unnin mikil afrek sem hafa borið hróður landsins víða. Viðurkenningar á erlendri grund bera vitni um það, já og gjörvileika unga fólksins. Það hefur gefið erlendum listamönnum kjark og tilefni til að heimsækja okkur og þannig erum við komin í þjóðleið heimsmenningarinnar.
Ég vil þakka áræðið og framtakið góðum grunni uppeldis og menningar. Þar skiptir sjálfsmyndin miklu og sömuleiðis viðhorfið til náungans og tilverunnar. Hvert barn getur fundið að það er óskabarn og á tækifæri og fær hvatningu fyrir vel gerða hluti. Náunginn er öllu jafna ekki viðsjárverður og ógnir dyljast ekki margar í mannsafninu og hér er friður. Tilveran er ekki ýkja flókin í huga Íslendingsinsog flestir vita yfir sér vakað af góðviljuðum höfundi tilverunnar.
Nánari rýni í þetta mun leiða í ljós hvaða þætti menningarinnar okkur ber að leggja rækt við.
* * *
Ég átti þess kost að tala við endurskoðendur á jólafundi þeirra fyrr í mánuðinum. Einhverjir þeirra létu í ljós að það mundi verða erfitt verk að fjalla um atburði jólanna við atvinnu-efasemdarmenn. Jú, satt er orðið. Hlutverk endurskoðenda er að skoða allt það sem þeir vinna að með augum efasemdarmannsins, tortryggja allt sem þeir sjá í reikningum fyrirtækja og sannreyna hver innistæða er fyrir þeirri tölu sem birtist.
Ég gat þó bent því góða fólki á að Guð sést helst við endurskoðun. Það er þegar við lítum yfir farinn veg sem við sjáum verk Guðs, hvernig hann hefur verið okkur nærri í atvikum lífsins. Þegar þessum atvikum er raðað upp sjáum við að hverju Guð hefur verið að vinna með okkur. Hann eins og Olsen í dönsku grínmyndunum hefur ævinlega áætlun. “Jeg har en plan” sagði Ove Sprogöe fyrir þennan Olsen. Guð hefur líka markmið með lífi þínu en það sést fyrst og fremst af því hvað hann hefur gert með þig til þessa.
Það er þá plan! segir einhver sem ekki líst á það sem hefur yfir gengið og þá svarar Hann: Því að ég þekki þær fyrirætlanir, sem ég hefi í hyggju með yður segir Drottinn fyrirætlanir til heilla, en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. Jer 29:11 Postulinn hefur áttað sig á þessu þegar hann segir það þeim sem Guð elska samverki allt til góðs. Róm 8:28
Við flest höfum líklega komist að sömu niðurstöðu. Hvernig sem allt hefur nú farið þá er þetta greinilega svo að Guð stefnir okkur að marki, já, líklega fullkomnunarmarki eins og postulinn hugsar sér það. 2Kor 13:11 Enginn verður óbarinn biskup, segir máltækið íslenska. Per aspera ad astra segir latneska máltækið: Gegnum þrengingarnar liggur leiðin til stjarnanna.
Við horfum yfir farinn veg í kvöld. Árið sem er að líða í aldanna skaut hefur borið sitthvað með sér og ekki er auðvelt að sjá að það verði allt til blessunar, en svo má þó verða. Ef við horfum aftur til lengri tíma hópa þeir hlutir sig saman sem við höfum gengið í gegnum með sársauka og við eigum erfitt að sjá gæsku Guðs í þeim atvikum. Nei, satt er orðið, miskunn Guðs birtist ekki í hinum vondu atburðum. Í þeim birtist ekki annað en vonskan sjálf, hin hörðu kjör heimsins.
Það er ekki Guð sem ber ábyrgð á þeim öllum. Margt af því er afleiðing spillingar okkar mannanna. Annað eru takmörk mannlegs lífs og ekki er ávalt auðvelt að greina þar á milli. Við skulum því fara varlega í að ásaka Guð fyrir ófarirnar. Hvernig er aftur vísan spaklega eftir Pál Ólafsson:
Forlög koma ofan að örlög kringum sveima, álögin úr ýmsum stað En ólög fæðast heima.
Máttur og miskunn Guðs birtast helst í því hvernig hann hefur lagt okkur lið við það að snúa illu til góðs. Þetta þengist fornri íslenskri hugsun um það að enginn megi liggja óbættur. Við höfum blátt áfram þá skyldu að sjá til þess að missir eða harmur manns verði bættur, og það gerist best með því að skapa nýtt, endurbyggja. Hefndin forna hafði þann stóra galla að hún kallaði á meiri missi, en kristnin hefur kennt okkur að betra er að byggja eitthvað nýtt í stað þess sem tapaðist.
Þú skalt því læra af eigin lífi og endurskoða líf þitt með tilliti til þess ábata sem þú hefur haft af því. Það er eins í lífinu og bókhaldinu að það er sinn dálkurinn fyrir hvort ágóða og tap. Það er röng niðurstaða sem fæst þegar aðeins annað hvort er skoðað. Þú verður því að reikna saman hagnaðinn og tapið með sama hætti.
Þegar þú skoðar hamingjustundirnar og höppin sérð þú að það er ekki aðeins býsna margt sem þú getur fært í þann dálk heldur er þér í sumum tilfellum alls ómögulegt að setja á það nógu háa tölu. Þú vildir að minnsta kosti ekki vilja láta það við nokkru verði. Þegar saman er lagt kemur því út stjarnfræðileg tala. Og þú ferð aftur yfir dálk tapsins og veltir því fyrir þér með sama hætti hvað þú vildir borga til þess að verða laus við töpin og þá kemstu að raun um að þú vildir kannski ekki gefa mikið til þess að vera laus við þau sum, en svo rekst þú á missi sem þér er óbætanlegur og sérð að þessir reikningar verða ekki auðveldlega jafnaðir.
En athugunin leiðir engu að síður í ljós þá ákveðnu niðurstöðu að hingað til hefur Drottinn blessað I Sam 7:12 og horfir því fram til hins nýja árs með þeirri ályktun að sannarlega muni Drottinn blessa þig áfram. Hann hefur ekki tekið blessun sína frá þér og þú gengur inn í hið ókomna undir blessandi hönd hans. Þú felur Guði á sama hátt töpin og biður hann um að veita þér lið við að bæta þau eftir því sem framarst er mögulegt.
Hið gamla ár verður þannig ekki uppgjört að fullu, reiknoingar þess verða að standa opnir enn um sinn amk. Etv allt til efsta dags. Það hefur fært okkur heill og óheill og með því að þakka heillina og blessunina þá vitum við að það hefur allt um allt verið gjöf Guðs til þín og tækifæri til að láta gott af þér leiða. Göngum inn í hið nýja ár með því hugarfari. Blessum það með góðum verkum.