Langlífi

Langlífi

Þessir dagar eru til heiðurs formæðrum okkar og forfeðrum, konum og körlum sem gengu og ganga fram fyrir skjöldu fyrr og síðar til að stuðla að aukningu grunngæða fyrir sem flesta, óháð kyni og öðru því sem kann að aðskilja. Þeir eru mikilvægir því hérna megin himinsins má ávallt gera betur.

Í liðinni viku fagnaði vinur minn eitthundrað ára afmælinu sínu í hópi fjölskyldu og vina. Hefðbundinni spurningu blaðamanns um hvort þakka mætti langlífið heilsusamlegu líferni vísaði hann á bug og sagðist hafa verið heldur heilsuveill fyrri part ævinnar. Annar heldri borgari, elsti núlifandi karlmaður á Íslandi, mun samkvæmt helgarblaðinu ekki endilega hafa borðað mikið grænfóður heldur bara svona hefðbundinn íslenskan mat. Þau ströngu lögmál um fæðu sem nú gilda voru enda ekki fundin upp þegar elsta kynslóð Íslendinga var að vaxa úr grasi. Samt erum við með elstu þjóðum í æviárum einstaklinga talið. Fábreytt mataræði fyrri tíma með fáum eða engum aukaefnum öðrum en salti og sykri til hátíðarbrigða gæti hafa myndað grunn góðrar heilsu síðar meir. Við vitum fátt um hvaða áhrif ýmis viðbætt efni í mataræðinu sem komin voru til sögunnar þegar mín kynslóð var að vaxa úr grasi hafa til lengri tíma litið.

Einfaldleikinn Kannski einfaldleiki á fleiri sviðum sé annar lykill að langlífi enda svaraði þessi hundrað ára vinur minn guðdóttur sinni, ungri konu, að honum hafi reynst best að breyta sem minnst og halda sama takti í lífinu. Fastur taktur vinnu og hvíldar, æðruleysis og rósemi í aðstæðum lífsins getur verið grundvöllur að góðu og löngu lífi. Og svo eru það auðvitað genin, erfðaefnin, en þá erum við komin inn á annað svið.

Hér er ekki ætlunin að leysa langlífisgátuna – og svo má auðvitað spyrja hvort okkur langi öll að lifa það að verða hundrað ára. En Biblían virðist hafa sitthvað til málanna að leggja. Í fyrri ritningarlestri dagsins heyrðum við boðorðin 10 sem Drottinn gaf Móse á fjallinu sem grundvöll sáttmála Guðs og manns (2Mós 20). Kjarni þess samnings er dreginn saman í tvöfalda kærleiksboðorðinu: Elskaðu Guð – og elskaðu náunga þinn (Lúk 10.27), ekki bara í orði heldur einnig í verki. Treystu – og vertu traustsins verð(ur). Traust og endurnæring Fyrstu þrjú boðorðin snúa að traustinu til Guðs. Guð hefur haft frumkvæði að því að rétta út hjálparhönd, tekið þig að sér (sbr. 5Mós 4.20) leitt “þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu”. Á þeim grunni hvílir traustið. Einfaldleikinn felst í því að reiða sig á þann grunn einvörðungu, hafa ekki aðra guði, setja ekki traust sitt á eitthvað annað en Guð sem kemur inn í hjálparleysi okkar eins og ferskur andblær. Misnotkun á því trausti, eins og að ætla sér að nota trúna í illum tilgangi, “hégóma”, getur svipt okkur lífinu, andlega talað.

Þriðja boðorðið snertir hvíldardaginn sem er reyndar bæði fyrir Guð, “helgaður Drottni Guði þínum” (2Mós 20.10), og manneskjuna, sbr: “Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins” (Mark 2.27). Þarna er að sjálfssögðu upprunalega átt við sabbatinn, daginn sem Guð hvíldist af verki sínu (1Mós 2.2-3), sjöunda dag sköpunarinnar sem t.d. sjöunda dags aðventistar hafa enn í heiðri. En til að marka sérstöðu kristins fólks gagnvart gyðinglegu umhverfi varð upprisudagurinn, sunnudagurinn, snemma að helgidegi kirkjunnar ungu. Að eiga sér vikulegan hvíldardag til andlegrar og líkamlegrar uppbyggingar er án efa eitt af því sem stuðlar að langlífi, taktfastur viðburður vikunnar til endurnæringar og endurnýjunar. Heilbrigð tengsl Og þá erum við komin að fjórða boðorðinu sem nefnir langlífi berum orðum, “hið fyrsta boðorð með fyrirheiti” eins og postulinn segir (Ef 6.2). Lykill að langlífi er samkvæmt þessum forna texta sem sprottinn er frá móti manns við skapara himins og jarðar – og hver ætti að vita betur hvað virkar til að efla lífið? – að heiðra föður sinn og móður. Fyrirheitið er “svo þú verðir langlífur og svo að þér vegni vel í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér” (5Mós 5.16).

Stundum er sagt að innifalið í þessu boðorði sé að foreldrar heiðri börn sín – og hlýtur það að vera grunnurinn að heilbrigðum tengslum og heilbrigðri sjálfsmynd sem eykur allavega lífsgæði og jafnvel lífsmagn ef svo ber undir. Heilbrigð tengsl lengja lífið.

Alþjóðlegir og þjóðlegir kvennadagar Í framhaldinu getum við spurt okkur sjálf hvaða land það sé sem Guð vill gefa okkur – og úr hvaða þrælahúsi Guð þarf að leiða okkur. Á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, sem er í dag, 8. mars, liggur beint við að túlka aðstæður kvenna inn í eyðimerkurgönguna frá Egyptalandi, “þrælahúsinu”, til fyrirheitna landsins, “lands sem flýtur í mjólk og hunangi” (3Mós 20.24), lands jafnvægis og grósku. Það var á 19. öld sem konur og framsýnir karlar á Vesturlöndum tóku að vakna upp til vitundar um það ójafnræði sem ríkti milli kynjanna í vestrænum þjóðfélögum, svo við tölum aðeins um okkar eigið menningarlega samhengi.

Alþjóðlegur bænadagur kvenna sem við héldum hátíðlegan á föstudaginn var, þann 6. mars, var – og er – hluti af þessari hreyfingu sem leggur áherslu á að allar manneskjur eiga skilið að lifa með virðingu og reisn. Öll erum við jöfn frammi fyrir Guði og því virðist það vera sjálfsagt að konur og karlar njóti sömu grundvallarréttinda, t.d. þegar kemur að því að kjósa í lýðræðisþjóðfélagi. Við höfum ýmsa alþjóðlega og þjóðlega daga, eins og konudaginn okkar séríslenska og líka 19. júní en þann dag í sumar höldum við upp á að 100 ár eru liðin frá því að mikilvægt skref var tekið í átt til kosningaréttar fyrir alla þegna landsins jafnt.

Það er sem sagt ekki lengra síðan en ein mannsævi - sé miðað við vin minn hundraðáringjann - síðan hluti kvenna (yfir fertugu til að byrja með) fékk rétt á borð við jafningja sína, karlmennina. Þessir dagar eru til heiðurs formæðrum okkar og forfeðrum, konum og körlum sem gengu og ganga fram fyrir skjöldu fyrr og síðar til að stuðla að aukningu grunngæða fyrir sem flesta, óháð kyni og öðru því sem kann að aðskilja. Þeir eru mikilvægir því hérna megin himinsins má ávallt gera betur.

Lífsgæði og lífsmagn Hér var rætt um langlífi, lífsmagn, en líka lífsgæði og þá ekki í merkingunni að geta leyft sér sem mest óhóf. Lífsgæði eru ekki síst fólgin í að geta lifað einföldu lífi, að leggja jafnvel metnað sinn “við að lifa kyrrlátu lífi og stunda hvert sitt starf og vinna með höndum ykkar” eins og postulinn bauð sínu fólki (1Þess 4.11). Það er verðugt markmið en örðugt ef ójafnræði og misskipting hindrar. Því biðjum við með konunum á Bahamaeyjum sem sendu út upplýsingar um kjör sín og bænarefni fyrir bænadag kvenna 2015, fyrir fátækum konum, flóttafólki, fólki með HIV eða alnæmi, mæðrum á unglingsaldri og einstæðum foreldrum, þolendum heimilisofbeldis og konum sem greinst hafa með brjóstakrabbamein.

Allt lýsir þetta aðstæðum fólks, kvenna og karla, sem búa við ójafnvægi, skort á lífsgæðum og hugsanlega lífsmagni. Við biðjum fyrir þeim og með þeim og sýnum - í samræmi við kjörorð bænadags kvenna Upplýst bæn, bæn í verki – bæn okkar í verki hvar sem því verður við komið með lífsreglurnar tíu að grundvelli. Í því kann hið sanna langlífi að vera fólgið, sama hvað æviárunum líður.

Vertu trú(r) allt til dauða og ég mun gefa þér kórónu lífsins (Op Jóh 2.10)
segir hann sem er Lífið sjálft (Jóh 14.6).

Varðveitum orð hans, höldum fast við orð lífsins (1Jóh 1.1). Þá verður erfiði okkar ekki til einskis (Fil 2.16) með því að við erum höndluð af lífinu og munum aldrei að eilífu deyja (Jóh 8.51). Það er nú langlífi í lagi!