Það sem umræðir hér er spurningin um staðgöngumæðrun. Tilefnið er tillaga til Þingsályktunar á þingskjali 376 um staðgöngumæðrun 310 mál 139. Löggjafarþings. Málið gengur út á það að heilbrigðisráðherra skipi starfshóp sem undirbúi frumvarp til lkaga sem heimili staðgöngumæðrun og verði frumvarpið lagt fram ekki síðar en 31. mars 2011. Hugtakið staðgöngumæðrun felur í sér skv. greinargerð að tæknifrjóvgun er framkvæmd á konu sem hyggst ganga með barn fyrir aðra konu og að staðgöngumóðirin hafi fallist á það fyrir meðgönguna að láta barnið af hendi strax eftir fæðingu til væntanlegrar ættleiðingar og uppeldis hjá þeim foreldrum sem tækju við barninu.
Í þessu ferli þarf að vitaskuld að huga að mörgu og skilgreina fjöldamargt, hugsa margt upp á nýtt. Fyrst og fremst þarf að huga að hlutskipti eða stöðu barnsins, þá að hlutskipti staðgöngumóður, verðandi foreldra, föður og móður.. það þarf að huga að áhrifum fyrirbærisins á fjölskyldur, vinahópa, samfélög, veröldina í heild sinni.
Ég tók að mér að fjalla um þetta siðferðilega álitaefni út frá mannréttindasjónarhorni. Og það er fyrst til að taka að það að eignast barn verður seint talið til mannréttinda í hefðbundum skilningi. Það er stundum talað um fjórar stoðir mannréttinda þ.e. réttinn til að tjá sig, þá trúfrelsi – þ.e. réttinn til að trúa með þeim hætti og því atferli sem maður kýs. Í þriðja lagi er talað um frelsi frá skorti og í fjórða lagi frelsi undan ótta en sú stoð kemur þegar við höfum náð hinum þremur. Rétturinn til að eignast barn væri þá undir frelsi frá skorti er svo er ekki heldur er átt við réttinn til þess lífsviðurværis sem gerir einstaklingnum kleyft að vaxa og dafna og þroskast og lifa innihaldsríku lífi.
Mannréttindasáttmáli Sameinuðu Þjóðanna er byggður á ofangreindum fjórum stoðum og þar með einnig Mannréttindasáttmáli Evrópu og þar er að mínum dómi ekkert sem rennir stoðum undir það að það teljist til eiginlegra mannréttinda að eignast barn. Og það hefur svo sem enginn haldið því fram. En hvað með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.. Má finna eitthvað þar sem verður okkur að gagni? Í Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna og öðrum Barnasáttmálum sem ég hef skoðað hvergi neitt að finna sem hjálpar til í þessum efnum nema þá að tiltekið er að er hvers konar verslun, sala eða kaup á börnum sé bönnuð. Í barnasáttmála sameinuðu þjóðanna er sala á börnum(og verslun með…) bönnuð og sala á börnum skilgreind í viðauka: ,,hvers kyns aðgerð eða viðskipti þar sem einstaklingur eða hópur fólks framselur öðrum barn gegn þóknun eða hvers kyns öðru endurgjaldi.”
Í Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna er eðlilega first og fremst gríðarleg áhersla á hagsmuni barnsins – að það megi alast upp í öryggi og kærleika.
Sér til gagns mætti lesa fjöldamarga sáttmála t.d. sáttmála um útrýmingu alls kynþáttamisréttis (elimination of all forms og discrimination) og úrtýmingu misréttis gagnvart konum (elimination of all forms of discrimination against women). Allir þessir sáttmála eiga það sameiginlegt að draga fram grundvallaratriði eins og t.d. skýlausan, óafturkræfan, óumsemjanlegan yfirráðarétt einstaklings yfir eigin líkama. Þrælahald er t.d. alveg bannað og Mannréttindadómstóll Evrópu hefur tekið á því að samningsbundið þrælahald er bannað. Einnig þrælahald í velgjörðarskyni. Frá 1987 er dómur þar sem því er lýst ólöglegu að eintaklingur semji sig í þrælahald þ.e. semji frá sér yfirráð yfir eigin lífi.
Við snögga yfirferð get ég ekki séð að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi skorið úr um það hvort að full staðgöngumæðrun standist mannréttindasáttmála Evrópu. Það er auðvitað mikilvægt því að mannréttindasáttmálinn hefur lagagildi hér á landi. Eins og sést af þessu þá er að mörgu að hyggja og ekki dugir að setja lög sem dæmd yrðu ólögleg hvort sem væri vegna meginefnisins sjálfs eða því að þau yrðu dæmd ólögleg vegna misréttis (sem gerst hefur með frjóvgunarlög sem þóttu það þröng að þau töldust mismuna (Austurríki)). Þegar kemur að beitingu lagaréttar þá vakna fordæmi. Hvers vegna telst þetta velgjörð en ekki hitt? Hvers vegna var tiltekin indversk kona talin vinkona en ekki hin? Hvers vegna mátti greiða lögfræðingi A 12 milljónir fyrir vinnutap þegar hún gekk með barn fyrir vinkonu sína o.s.sfrv. Þessar spurningar eru ekki út í hött. Gúggli maður staðgöngumæðrun á netinu sér maður að fyrir bandarískum dómstólum eru fjölmörg mál af þessu tagi. Árið 2009 hefur staðganga verið leyfð í sex ríkjum Bandaríkjanna þ.á. m. Massachussets og fjölmörg mál eru eins og fyrr segir fyrir dómstólum og dómar falla út og suður (enda dómarar bara menn eins og við þekkjum) og nú eru fyrir dómstólum nokkur mál sem fela í sér kröfu um að ríkið greiði staðgönguna og þá á þeirri forsendu að peningakraftur megi ekki ráða aðgengi fólks að lausnum á heilbrigðissviði (og þessi krafa er jafnvel sett fram í Bandaríkjunum).
Það er svo fjöldamargt að athuga í þessu efni. Og það er svo langur vegur frá því að mannréttindasamfélagið eða löggjafarasamfélagið hafi krufið þetta mál til mergjar. Og æ fleirri eru á því að í þessum efnum verði þjóðir að hafa samflot til þess að komast hjá harmleikjum og lagaflækjum. Einnig þurfi alþjóðlegt samstarf um varnir gegn misnotkun. Stðagöngumæðrun er þegar orðin ,,multi milljon dollarar bisniss” á Indlandi og hætt er við að tilviljunarkennd, samráðslítil, vel meinandi löggjöf einstakra ríka geti orðið vatn á myllu slíkrar starfssemi, veslunar með börn og konulíkama.
Ég set hagsmuni barnsins í fyrsta sæti. Vissulega er gaman að lifa en vill einhver eiga það á hættu að verða þrætuepli meðgöngumóður og kynmóður. Þegar hafa komið fram dæmi á vestulöndum að meðgöngumóðir hafi neitað að láta barn af hendi. Það er hætta sem ekki er hægt að girða fyrir með samningum. Kemur afurð staðgöngu ekki til með að þjást af tilfinningaóreiðu umfarm aðra og er ekki á bætandi. Þetta hefur lítið verið rannsakað. Ber barn skaða af því að verða tekið frá meðgöngumóðir á fyrstu klukkutímum? Hvað með móðurmjólk? Vísindin færa okkur betur og betur sanninn um það að móðurmjólk sé afgerandi holl og hafi áhrif á heilsu síðar á ævinni. Næst eru það réttindi stðagöngumóður. Er það ekki erfitt fyrir staðgöngumóðurm að ljúka fæðingarferlinu strax við fæðingu barnsins. Eru það ekki grundvallarmannréttindi að fá að halda barninu sem maður hefur gengið með í fanginu, gefa því að drekka, næra það og vernda, annast það hvað sem líður öllum samningum. Er hægt að semja um þetta sbr. það sem að ofan er sagt um þrælahald. Stenst það yfirhöfuð mannréttindahugsun okkar að semja um afnot af líkama sínum. Breytast ekki tilfinningar og vilji þungaðar manneskju frá degi til dags. Verður ekki staðgöngumóðirin að hafa rétt til að sjá sig um hönd? Grær móðir ekki inn í ferlið burtu frá öllu sem hægt er að kenna við viðskiptasamninga. Getum við ekki talað um það sem frumrétt manneskju að halda því sem hún gengur með? Er það ekki í raun utan viðskiptasviðs?
Í þriðja lagi er réttur þeirrar manneskju sem lagði til kynfrumurnar? En þingsályktunartillagan sem hér er til skoðunar og allt ferlið miðast við hana, vilja hennar vonir og væntingar. Hvar stendur hún ef ferlið bregst? Ef staðgöngumóðir neitar að láta það af hendi? Getur hún líka yppt öxlum og snúið sér að öðru fari svo að réttur staðgöngumóður til breytinga verði aukinn og hún láti ekki barnið af hendi.? (Hver á að kveðða upp Salómonsdóm ef allt fer í hnút?)
Og hvað með rétt systkina, afa og ömmu, langömmu og langafa að hafa hlutina í sæmilegri reglu í fjölskyldunni? Hver á að vera viðsaddur í sónarnum? Hver á að skoða fyrstu tölvumyndina, geta í kynið? Vita ekki kynið? Taka ákvörðun um líf fóstursins ef það er fatlað?
Full staðgöngumæðrun breytir afstöðu allra á taflborði mannlífsins. Það er komin upp nýr leikur sem hefur áhrif á taflið. Afstaða mannannna á taflborðinu hefur hnikast aðeins. Líkt og það flögrar stundum að mér hvernig ég myndi bregðast við ef náinn ættingi þyrfti nýra hlýtur það að flögra að konum hvort þær myndu ganga með fyrir kæra systur og einn daginn gæti sú spurning komið upp. Þó að hér færi ekkert úr böndum þá er alvörumál á ferð sem hnikar til væntingum og vonum, breytir tengslum. Nú eins og svo oft áður býður tæknin upp á nýja möguleika. Eigum við? Eftir nokkur ár verða komnar sérstakar útungunarvélar: Eigum við….hvers vegna ekki?
Í heimi vaxandi misskiptingar þar sem ópúttnir notfæra sér miskunnarlaust neyð og bjargarleysi ungra kvenna er mikil hætta á misnotkun og hún er alþekkt í heiminum þegar. Og mér sýnist svona fljótt á litið að reyndir mafiósar geta skautað létt fram hjá vel meinandi lögum í þessa veru sem yrðu í samræmi við þessa þingsályktun. Og hvað með missskiptinguna hér innanlands. Okkur hefur tekist að auka hana gríðarlega á síðustu tveimur áratugum. Ég er ekki að segja að hér vaxi upp samfélag þar sem fátækir gangi með fyrir hina ríku en í samfélagi misskiptingar er meiri hætta á misnotkun á góðum áformum en í samfélagi þar sem meiri jöfnuður ríkir m.ö.o. félagslegt óréttlæti er eitt af einkennum samfélags þar sem misskipting er mikil.
Það má orða þetta þannig að staðgöngumæðrun í heiminum hafi þegar dýpkað þær sprungur sem fyrir eru í mannlegu samfélagi.
Kannski kann einhverjum að þykja ég full neikvæður í þessu innleggi mínu. Ef svo er þá er það kannski vegna þess að mér finnst upplegg flutningsmanna þingsályktunartillögunnar æði bjatsýnislegt. Og staðhæfingar um að þetta mál sé fullrætt eru út í hött. Það má vera að flest augljós rök hafi verið reifuð en umræðan er rétt að byrja. Það er vissulega fallegt ef hægt er að gera öllum að eignast barn en ef í einhverjum málum er nauðsynlegt að taka tillit til allra hluteigandi þá er það í lok lífs og ekki síður við upphaf þess. Niðurstaða mín er þessi: Það getur ekki talist til mannréttina að eignast barn, ekki nema óbeint þar sem barneign getur stuðlað að hamingju og gefið fólki hlutverk. Í þessu dæmi þarf að huga vel að réttindum barns og réttindum staðgöngumóður og réttindum kynmóður og föður. Í þessu dæmi ruglast hlutverk allra sem við sögu koma og getur haft áhrif á fjölskyldur þó aldrei komi til staðgöngu. Staðgöngumæðrun breytir þeim væntingum sem gerum hvort til annars snertir því mannréttindi allra.
Þetta er að mínum dómi eitt af þeim málum sem á að vinna í samvinnu ríkja líkt og mannréttindasáttmálar eru unnir þegar af þeirri ástæðu að verði staðganga leyfð í einhverjum tilfellum þá má betur varast misnotkun.
Og ástæðulaust er að hrapa að niðurstöðu í einhverjum flýti.
Erindi flutt á málþingi á vegum Þjóðmálanefndar þjóðkirkjunnar um staðgöngumæðrun 14 febrúar sl.