Náð sje með yður og Friður frá Guði Föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Guðspjallið er fagurt, skáldlegt og huggunarríkt í dag. Það predikar trú og Guðs traust og það allra nauðsynlegasta: “Leitið fyrst ríkis Guðs og rjettlætis og þá mun allt annað veitast yður að auki”, segir þar.
Þessi texti var í miklum metum hjá Sören Kirkegaard. Um hann ritaði hann margar hugleiðingar. Ein þeirra er í formi dæmisögu. Þar segir frá lilju nokkurri, sem óx í fögrum hvammi við lítinn læk í fjelagsskap annarra blóma. Þar undi hún sjer vel og skartaði, eigi síður svo vel búin sem Salomon konungur í dýrð sinni. Til hennar fór að venja komur sínar lítill fugl. Liljan furðaði sig á ferðalögum fuglsins. Hún skildi ekki, hví hann festi ekki yndi í svo fögrum reit, en væri einlægt á flökti; þó felldi hún hug til fuglsins, einmitt vegna þess, hversu hverflyndur og ókyrr hann var.
En fuglinn var upptekinn af sjálfum sjer. Í stað þess að setja sig í spor liljunnar og gleðjast við yndisleik henna og sakleysi, hjalaði hann sífellt um ferðir sínar og frelsi og útmálaði yndi annarra staða, unz liljan varð sár- óánægð með sitt hlutskipti, að vera rígbundin í sínum reit við lækinn. Henni fór að leiðast lækjarniðurinn. henni fór að þykja lítið varið í fjelagsskap hinna blómanna við lækinn. Hún ljet sig dreyma um fegurð og yndi þeirra staða, sem fuglinn þvaðraði um; um keisarakrónuna, sem vex föngulegust allra blóma og óánægjan settist að henni. Hún fór að hugsa: “Eg get aldrei orðið fugl, en eg get orðið fögur lilja. Já, fegurs lilja vil eg verða”. Og fuglinn kom og fuglinn fór og ól sífellt á órósemi liljunnar. Loks trúði hún honum fyrir hugsunum sínum og kvöld eitt kom þeim saman um, að nú skyldi verða breyting á.
Snemma morguns kom fuglinn daginn eftir. Hann gróf frá rótum liljunnar og tók hana í gogginn og flaug með hana af stað til þess að gróðursetja hana þar sem keisarakrónan vex. Þar skyldi hún finna hamingjuna. Á leiðinni visnaði liljan. Hefði henni nægt að vera þar sem hún var í sínum reit, hefði áhyggjan ekki heltekið hana og orðið henni að fjörtjóni. Fuglinn í sögunni er freistarinn, sem rótar í hug og hjarta unz það, sem áður var gott og prýðilegt, verður öldungis ómögulegt.
Og Kirkegaard dregur þann lærdóm af sögunni, að ef maður, rjett eins og blómið, lætur sjer nægja að vera maður, rjett eins og hann er, þá sýkist hann ekki af tímanlegum áhyggjum. Og verði hann ekki heltekinn af áhyggjum, þá verður hann kyrr í sínum reit. Þá fer honum svo, að vera sá sem hann er, þá er hann dýrlegri en Salomon var í allri sinni dýrð. “Vertu þjer og þínu trúr”, segir Kirkegaard, “og þá forðastu áhyggjurnar, sem leiða til bölvunar. Þá varðveitir þú líka trúnaðartraustið til forsjónarinnar, sem þú hefur þegið af hlutskipti þitt og unir glaður við það sem þjer er lánað og trúað fyrir”.
Það fer ekki hjá því, að mjer verði hugsað til kirkjunnar í landinu nú, út frá þessu guðspjalli. Henni er trúað til þess að predika og þjóna því sem heilagt er á meðal manna. Breyttar tíðir kölluðu á breytta starfshætti og kirkjan hefur svarað því kalli. Mjer er ekki grunlaust um að prestar hennar hafi gleymt því, að þeir eiga að predika og kenna og hlusta á vandræði manna og leitast við að ráðleggja þeim, í stað þess að starfa á sjer annarlegum sviðum, þar sem öðrum er trúað fyrir verkefnunum.
Hún hefur hrósað sjer af vaxtarbroddum sínum, sem allir eru á sviði hins fjelagslega, í stað þess að leita til þeirra með sitt eða styðja við verk þeirra sem þar eru kallaðir til starfa.
Hún hefur eflt sjer yfirstjórn, sem meira og minna fæst við þessi nýstárlegu verkefni, fært út kvíarnar og danzað með á vettvangi dagsins. Hefur hún gefið sig á vald tíðarandanum? Þeim sama tíðaranda, sem leiddi yfir þjóðina efnahagshrunið og afleiðingar þess? Það var ekki einungis efnahagslegt. Undanfari þess var siðferðileg hnignun, ávöxtur þess er siðferðileg og pólitísk kreppa. Það er heldur engill hörgull nú á þeim spámönnum, sem segjast hafa sjeð fyrir hitt og þetta og heimta dóma yfir mönnum og málefnum eftir á.
Hvenær er tímabært að tala? Eg segi: Það er aldrei tímabært. Orð eru aldrei í tíma töluð, þegar um dýrustu gildi er að ræða eða hina stærstu hagsmuni, því orð eru athöfn. Þau hafa vægi. Og þau eiga það til að rekast á tíðarandann og hagsmunina. Syndin svarar þegar að henni er veitzt. Þess vegna segir Jesús í Fjallræðunni, að hans menn eigi að vera eins og borg á fjalli sem fær eigi dulizt; ljós á ljósastiku sem lýsir öllum sem inni eru, en ekki ljós undir fötu á hvolfi. Þess vegna talar hann um nýtilegt og ónýtt salt. Þess vegna segir hann: “Sælir eruð þjer, þegar menn smána yður ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. -Þannig ofsóktu þeir spámennina sem voru á undan yður”.
Kirkjunni er ætlað að tala spámannlegri röddu,- en ekki eftir á. Hún á að tala þegar það er tímabært. En þegar það er tímabært að tala, þá er það líka hættulegt, því orðin rekast einhvers staðar á. Það er alltaf einhvers staðar þöggun þar sem miklir hagsmunir eru varðveittir. Einmitt þess vegna er það, að hið spámannlega erindi kirkjunnar á að tala almennt, því kirkjan er almenn. Hið sjertæka er tízka tíðarandans, en gildin eru ekki sjertæk, þau eru almenn: Þú skalt ekki stela, þú skalt ekki ljúga. Þú skalt ekki bera ljúgvitni. Og dýrustu gildin eru öllum mannasetningum ofar. Frelsið til þess að hafa skoðun, frelsið til þess að tjá hana, frelsið til þess að bera sig undan órjettlætinu, þegar því er beitt. Frelsið til þess að ljetta á sjer, leita sjer hjálpar og leiðbeiningar og styrks til þess að rjetta úr sjer og leita sjer áheyrnar. Allir menn eiga rjett á því að vera heyrðir, leita sjer huggunar og áheyrnar. Þess vegna keppast öll ríki við að festa slíkar reglur í lög hjá sjer og stjórnarskrár og alþjóðlega sáttmála. Þessi gildi eru ofar öllum mannasetningum; þau eru helg og heilagri kirkju er trúað til þess að tala fyrir þeim og varðveita þau. Þar á hún sína spámannlegu raust og líka þann vanda með að fara að tala þegar tímabært er og taka afleiðingunum af því.
Kirkjan er höfð fyrir þeirri sök nú að hafa brugðizt. Vísast hafa einhverjir brugðizt, en fráleitt er það, að kirkjan öll hafi brugðizt. Einhverjir hirðar hennar brugðust,-það er venjan, en varla sá, sem kostaði til embætti sínu af því að hann brást ekki sálusorgaraembætti sínu. Til voru þeir prestar sem slógu skjaldborg fyrir einn mann, beitti þöggun og valdi, öllum tiltækum úrræðum. Þeir báru fyrir borð rjett þeirra, sem leituðu sjer áheyrnar. Það má hins vegar segja, að vjer gerðum ef til vill ekki nóg. Það er venjan. Það má satt vera, en allt orkar tvímælis þá gjört er.
Þeir eru víða, litlu fuglarnir núna og hafa hátt. Þeir eru að eta berin og bjarga sjer fyrir langflugið til heitu landanna undir veturinn. Þeir hafa engar áhyggjur af ríki Guðs og rjettlæti, þeir þurfa bara þægilegri stað til að dvelja á um hríð.
En vjer erum rótföst í þeim vanda að vera menn, ekki maður, heldur menn. Afar ólík, en þurfum lög til þess að komast af saman, en umfram allt gildi sem eru sjálfum oss æðri. Heilög gildi. Sjálf mennskan hjá oss er undir því komin, að þau haldi hjá oss. -Að vjer hvolfum ekki yfir þau fötunni, þegar þurfa þykir.
Það er alls staðar tekizt á um gildin, Mammón á hvarvetna innistæðu og víða ítök, líka hjá kirkjunnar þjónum. Hvar í flokki sem vjer stöndum og hvar sem vjer skipum oss, hvar í reit sem vjer búum og hvaða starfa sem vjer stundum og hverra hagsmuna sem vjer gætum, eigum vjer þessa tvenna kosti, að leggjast í svefnværð hins hagkvæma með honum eða rækja mennsku vora undir merki krossins í von upprisunnar. -Að elta eigingirndir í guðlausri veröld sem allt leggur að jöfnu og metur einskis, eða standa við gildin, þótt vjer kunnum að eignast með því hlutskipti með spámönnum Guðs, postulum hans og píslarvottum. Sá kostur er betri en að visna rótfestulaus í goggi freistarans.
Guð hjálpi oss. Gæti hver sín en Guð vor allra. Í Jesú nafni. Amen.
Dýrð sje Guði, Föður og syni og heilögum Anda. Svo sem var í öndverðu er enn og um aldur og að eilífu. Amen.