Í lok árs og þegar nýtt byrjar, tölum við mikið um landið okkar og fólkið okkar. Við íhugum hver það eru sem okkur finnst hafa staðið upp úr á einhvern hátt. Ýmsir fjölmiðlar leyfa okkur að tjá þetta með því að velja mann eða konu ársins. Þau sem fá atkvæði í slíku vali þykja hafa skarað fram úr á ákveðnum sviðum og veitt öðrum innblástur. Val sem þetta er mikilvægt af því það beinir kastljósinu að því sem skiptir okkur máli og við teljum gagnlegt og æskilegt. Það, hvernig við veljum menn og konur ársins, segir okkur líka heilmikið um gildin sem samfélagið okkar kann að meta.
Þessi gildi spretta upp úr reynslu þjóðar sem hefur lifað góða og erfiða tíma. Einstaklingar og þjóð sem hefur reynt áföll og erfiðleika, velgengni og sigra, kann að meta góðar fyrirmyndir. Við þessi áramót kunnum við sérstaklega að meta þau sem hjálpa okkur að öðlast trúna á samfélagið að nýju.
Á þjóðfundi sem haldinn var í nóvember síðastliðnum komu saman rúmlega 1200 manns. Afrakstur vinnu þeirra voru tólf gildi samfélags, sem marka leiðina til framtíðar og orða það sem skiptir okkur máli: Heiðarleiki, virðing, réttlæti, jafnrétti, frelsi, kærleikur, ábyrgð, fjölskylda, lýðræði, jöfnuður, sjálfbærni og traust. Þegar þessi tólf orð eru lögð saman kemur í ljós mynd af samfélagi þar sem hver einstaklingur er virtur og rækt er lögð við hann og við nærsamfélagið. Þetta samfélag einkennist af umhyggju og von.
Umhyggja beinist að þeim verkefnum sem eru á borði okkar hér og nú. Að fólkinu sem við mætum í dagsins önn, að þeim sem minna mega sín í samfélaginu og að þörfum okkar sjálfra. Hún kallar á forgangsröðun í eigin lífi og umgengni við annað fólk, umhverfi og auðlindir. Von er sýn okkar á framtíðina. Án vonar virðist lífið lítils virði. Í von öðlumst við kraft og hugrekki til að halda inn í nýtt ár, nýjan áratug og nýtt skeið í lífi þjóðar.
Við viljum búa í samfélagi sem er vongott, bjartsýnt og hugrakkt. Út frá því getum við sagt: Fólk ársins er fólkið hefur trú á samfélaginu okkar. Fólk ársins er fólkið sem er tilbúið að takast saman á við ástæður og afleiðingar Hrunsins og vinna að sátt.