I. Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Hafið þið leitt hugann að því hvað líkaminn okkar er stórkostlegt fyrirbæri? Hafið þið hugsað út í hvað það er í rauninni mikið undur að við séum með öndunarfæri, hjarta og blóðrás og meltingarveg, hendur og fætur og allt annað sem við þörfnumst frá degi til dags? Við lítum sennilega flest á líkamann okkar sem sjálfsagðan hlut og vissulega má segja að það sé hann. En þegar við horfum á lífið með augum trúarinnar og látum þá sýn minna okkur á að tilveran öll er gjöf, þá sjáum við að líkaminn er líka undur.
Ef til vill hugsum við lítið út í líkamann fyrr en kemur að því að eitthvað í honum gefur sig eða virkar ekki sem skyldi. Ég get tekið dæmi af sjálfum mér. Ég greindist rúmlega tvítugur með sjúkdóm sem olli því að nýrnahetturnar í mér hættu að framleiða lífsnauðsynlega stera. Ef frá er talinn eins og einn líffræðitími í framhaldsskóla, þá verð ég að játa að áður en ég greindist hafði ég ábyggilega aldrei leitt hugann að því að ég væri einu sinni með nýrnahettur!
II. Jesús var einu sinni spurður þessarar mikilvægu spurningar: Hvert er æðst allra boðorða? Með öðrum orðum: Hvað er það, sem er mikilvægast að muna eftir, til að geta lifað lífi sínu farsællega og í sátt við Guð og menn?
Jesús svaraði með því að vitna í tvær setningar úr helgiritum þjóðar sinnar, þessum ritum sem við finnum nú í Gamla testamentinu. Hann dró saman þennan þýðingarmikla boðskap: „Þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Og þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“
Að elska Guð á allan hátt, og elska aðrar manneskjur eins og okkur sjálf – þetta er kjarninn í farsælu lífi. Þetta köllum við tvöfalda kærleiksboðorðið og er til dæmis svo mikilvægt að íslenskir unglingar sem fermast í Þjóðkirkjunni læra þetta vers utan bókar fyrir fermingu.
En hvernig kemur það líkamanum okkar við? Hvers vegna leiddum við hugann hér fyrst að öndun og blóðrás og olnbogum? Jú, þegar öllu er á botninn hvolft höfum við ekkert annað en einmitt líkamann okkar til þess að geta elskað Guð og náungann.
III. Öldum saman var það svo innan kristninnar að varla mátti ræða neitt sem tengdist líkamanum. Það var arfur frá forn-grísku tvíhyggjunni sem gerði ráð fyrir aðgreiningu líkama og sálar þar sem sálin var á einhvern hátt talin æðri kroppnum. Það er ekki kristin hugmynd, enda talar Páll postuli um að líkaminn sé „musteri heilags anda“ (1. Kor. 6.19). Munum líka að eitt lykilatriðið í kristinni trú er að Guð kom til okkar sem manneskja af holdi og blóði, Jesús Kristur. „Orðið varð hold, hann bjó með oss“ skrifar Jóhannes guðspjallamaður (Jh 1.14).
Í boðorðinu talar Jesús um að við elskum Guð af öllu okkar hjarta - sem er tákn fyrir tilfinningar okkar, af öllum huga - þ.e. með hugsun okkar og skynsemi – af öllum mætti – semsagt með þeim líkamlegu kröftum sem okkur eru gefnir - og af allri sálu. Með sálinni er átt við djúpið í manneskjunni, það sem hýsir trú okkar, bænalíf, kyrrð og von. Manneskjan er eitt: Líkami, tilfinningar, hugur og sál. Allt er samtengt og efnið og andinn verða ekki svo glatt skilin frá hvort öðru. Jóhannes Páll II. páfi heitinn ritaði eitt sinn: „Við erum ekki með líkama, við erum líkamar.“ Allt þetta passar enn fremur við þá áherslu í heilbrigðisvísindum nútímans að andleg og líkamleg heilsa tengist nánum böndum.
Jafnvel þegar við komum í messu notum við líkamann okkar með margvíslegum hætti til að þiggja elsku Guðs og sýna að við elskum Drottin. Við stöndum á fætur á vissum stöðum, við þenjum raddböndin og spennum þindina þegar við syngjum sálma, við notum augun til að horfa á kertaljósin eða táknin í kirkjunni og heyrnina til að hlýða á það sem er flutt, við notum meira að segja tunguna og magann þegar við göngum til altaris. Guðsþjónustan er líkamleg athöfn.
IV. Svo er það þetta með að elska náunga sinn, að þykja vænt um aðra. Við hrökkvum sem betur fer ekki í kút við að heyra þetta boðorð því að á slíkri hugsun byggist að stórum hluta velferðarkerfi og siðferðisviðmið í hinum vestræna heimi. En í grunninn er það ótrúlega róttæk hugsun að sá eða sú sem fylgi Jesú Kristi eigi þar með að láta sér annt um allar aðrar manneskjur sem á vegi hans eða hennar verða. Við ráðum sennilega ekki við að fylgja þessu nema að hluta til.
En einnig hér kemur líkaminn okkar til skjalanna, þessi eini sem við höfum til að nota til góðs. Móðir Teresa skynjaði þetta vel eins og ein þekkt bæn hennar sýnir:
Þarfnast þú handa minna, Drottinn, til að geta hjálpað sjúkum, fátækum og nauðstöddum? Drottinn, í dag vil ég gefa þér hendur mínar. Þarfnast þú fóta minna, Drottinn, Til að geta vitjað þeirra, Sem einmana eru og án vonar? Drottinn, í dag vil ég gefa þér fætur mína. Þarfnast þú vara minna, Drottinn, Til að geta talað til allra þeirra, Sem þrá kærleiksríkt orð og viðmót? Drottinn, í dag vil ég gefa þér varir mínar.
Hann skildi þetta líka vel með að sýna kærleika í verki, hann Alex, sex ára gamli bandaríski drengurinn sem vakti heimsathygli í liðinni viku fyrir bréfið sem hann sendi Barack Obama Bandaríkjaforseta. Alex hafði séð hina frægu fréttaljósmynd af jafnaldra sínum í Sýrlandi, honum Omar þar sem hann sat í sjúkrabílnum eftir loftárás, blóðugur, óhreinn og skelfingu lostinn. Í bréfinu sem Alex sendi Obama skrifar hann: „Kæri forseti. Getur þú vinsamlegast farið og sótt hann Omar og komið með hann heim til okkar... við skulum bíða með fána og blóm og blöðrur. Við ætlum að gefa honum fjölskyldu og hann verður bróðir okkar.“ Obama vitnaði í bréfið á dögunum og sagði: „Við ættum öll að vera meira eins og Alex.“
V. Gott fólk! Nú erum við búin að tala svolítið um að elska Guð og um að elska náungann. Að lokum skulum við minna okkur á eitt enn úr boðorðinu, sem er líka mikilvægt: Okkur er nefnilega uppálagt að elska náungann eins og okkur sjálf.
Oft getur það verið erfiðast af öllu, að láta sér þykja vænt um sjálfa(n) sig og þar með um líkamann sinn. Það þýðir að maður ber virðingu fyrir sjálfum sér og lætur sér annt um eigin líkama, en ekki að maður leyfi samfélaginu að segja sér fyrir verkum um hvernig er best að líta út og hvers konar líkamsburði eigi að rakka niður.
Það er sláandi að í nýlegri könnun kom fram að stór hluti ungra karlmanna sem stunda líkamsrækt, gerir það fyrst og fremst til að líta vel út, en ekki endilega til að stuðla að bættri heilsu. Til er ágæt gamansaga sem deilir á útlitsdýrkun. Þannig var að hann Siggi vildi gjarnan eignast kærustu og Jói félagi hans bauðst til að skipuleggja óvissustefnumót með Dóru, frænku sinni. Siggi var svolítið stressaður yfir þessu þar sem hann hafði aldrei hitt Dóru og vissi ekki hvernig hún liti út. Jói bað hann að vera alveg rólegan. „Ef þér líst ekki á útlitið hennar þegar þú sérð hana þá grípurðu bara um hálsinn og segir: „Aaaarg! Ég er að fá astmakast, ég verð að hætta við.“ Siggi róaðist við þetta svo að hann mætti á tilsettum tíma heim til Dóru að sækja hana á stefnumótið. Dyrnar opnuðust og Dóra – sem reyndist gullfalleg – virti Sigga fyrir sér í nokkrar sekúndur en greip svo um hálsinn á sér og sagði: „Aaaarg! Ég er að fá astmakast, ég verð því miður að hætta við.“ -
Kæri söfnuður! Guð hefur skapað okkur öll í sinni mynd. Þess vegna erum við falleg eins og við erum. Líkaminn okkar er stórkostleg Guðs gjöf. Notum hann til góðs, til að elska Guð og náungann og okkur sjálf.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.