Allskonar af öllu

Allskonar af öllu

Ég held að hann sé loftið sem þú andar að þér og ég held að hann sé loftið sem þú blæst frá þér. Ég held að andinn sé hugrekkið í brjósti þér og gleðin sem fyllir þig þegar þú upplifir fegurð heimsins. Ég held að andinn sé möguleiki hjarta þíns til þess að upplifa óeigingjarna ást og sannan kærleika. Ég held að andinn sé krafturinn sem heltekur þig eins og eldtungur þegar þú hélst að þú værir búin/n að gefast upp, sem gefur þér styrk til þess að reysa þig upp, halda áfram og finna lífsneistann á ný.

img_2993.jpg

Andrúmsloftið er rafmagnað. Það er erfitt að ímynda sér hvernig þeim er innanbrjósts. Tíminn undanfarið hefur verið svo skrýtinn að kannski eru þau enn hálf dofin. Hann er farinn frá þeim en hann hefur svo sem farið áður en komið aftur. Hann hafði haldið fallegar ræður um ást og kærleika, um líf. Endalaust líf. Hann hafði lofað þeim að þau þyrftu  aldrei framar að vera ein. Að hann ætli alltaf að vera hjá þeim en á annan hátt. Þau vita ekki hvað þau eiga að halda.

Og þá gerist það!

Það brestur á með miklum hávaða, eins og kominn sé jarðskjálfti eða þrumuveður. Hávaðinn magnast upp og verður sterkari og sterkari. Hann líkist engu sem þau þekkja. Hann yfirgnæfir allt. Og allt í einu, eins og af sjálfu sér, birtast þarna eldtungur sem dreifa úr sér og læsa sér í þau.

En eldurinn brennir ekki. Það kviknar ekki í þeim en þau verða eitthvað svo heit inni í sér. Allt verður einhvern veginn skýrara og þau fara að tala önnur tungumál en þau kunna og þekkja. Og þau skilja líka tungumálin. Það er eins og þau og verði eitt með alheiminum, með náttúrunni, með mannfólkinu. Eining. Ást. Mögnuð jarðtenging. Beint samband við himininn. Engir fordómar. Aðeins ást og skilningur.

Kannski var skilningur aðal málið. Ekki bara skilningur á öðrum tungumálum, skilningum á orðum, heldur raunverulegur skilningur á aðstæðum, tilfinningum, líðan, löngunum og þrám annars fólks. Hinn fullkomni hæfileiki til að setja sig í spor annarra.

Svona heyri ég lýsingarnar á því sem gerðist á hvítasunnudag fyrir langa löngu. Þegar Heilagur Andi kom í heiminn og fyllti mannfólkið af krafti sínum. Sum fundu fyrir honum því þau voru opin. Önnur fundu ekki fyrir honum því þau voru upptekin af öðru. Þetta hljómar frekar ótrúlega og kannski frekar eins og eitthvað dóppartý en samkoma trúaðs fólks, vina Jesú. Hvað var þetta eiginlega?

----------------

Ég velti stundum fyrir mér hvernig það væri að vera einhver önnur en ég er. Að fá hugsanir, reynslu og tilfinningar annarrar manneskju og finna hvernig það er að vera hún. Hugsaðu þér ef við gætum skipt í eina viku, að ég gæti orðið þú og þú yrðir ég. En ég er víst ekki sú eina sem velti þessu fyrir mér því bækur hafa verið skrifaðar og kvikmyndahandrit samin um svipaðar hugmyndir. Þau verk snúast yfirleitt um það að eldri manneskja skiptir um hlutverk við aðra yngri eða að karl skiptir við konu og svo verður atburðarrásin gríðarlega fyndin. En lærdómurinn af skiptunum er yfirleitt sá að fólkið lærir eitthvað mikilvægt um hina manneskjuna og aðstæður hennar og þar með eykst skilningurinn og fordómarnir eyðast.

Getur verið að hvítasunnuundrið, sem svo snilldarlega er vitnað um í Biblíunni, snúist um þetta? Einhvern djúpan skilning á lífi annarra en okkar sjálfra?

Getur verið að þessi dularfulli Andi Guðs sé möguleikinn sem við búum yfir til þess að setja okkur í spor annarra? Möguleikinn til þess að finna til raunverulegrar meðlíðunnar og samkenndar með öðru fólki?

Ég held að þessi Heilagi Andi sé ýmislegt. Ég held að hann sé loftið sem þú andar að þér og ég held að hann sé loftið sem þú blæst frá þér. Ég held að andinn sé hugrekkið í brjósti þér og gleðin sem fyllir þig þegar þú upplifir fegurð heimsins. Ég held að andinn sé möguleiki hjarta þíns til þess að upplifa óeigingjarna ást og sannan kærleika. Ég held að andinn sé krafturinn sem heltekur þig eins og eldtungur þegar þú hélst að þú værir búin/n að gefast upp, sem gefur þér styrk til þess að reysa þig upp, halda áfram og finna lífsneistann á ný.

”Ég lifi og þér munuð lifa” eru orð úr guðspjalli dagsins, úr þessari kveðjuræðu Krists sem hafa gefið mörgu fólki von. Mér eru minnisstæðar myndir af sálnahliðinu í kirkjugarðinum við Landakirkju í Vestmanneyjum. Þessi orð eru einmitt rituð á þar og þegar askan, eftir eldgosið fyrir 40 árum, hafði þakið allan kirkjugarðinn svo að varla sást í legsteina eða krossa, þá stóð bogi sálnahliðsins einn upp úr og á honum stóð: ”Ég lifi og þér munuð lifa”.

Lokaorð Jesú til okkar eru: Þið munuð lifa alveg eins og ég. Og síðan sendir hann okkur kraftinn, andann.

-------------- ”Ég á líf” söng svo ljóshærði víkingurinn okkar, í söngvakeppni Evrópska sjónvarpsstöðva sem enn eina ferðina ber upp á Hvítasunnuhelgina. Textinn í laginu kallast á við orð Jesú um lífið. Og boðskapurinn er fallegur. Hann syngur um erfiðleikana sem hann sigrar, um lífið sem hann á, um ástina sem hann skilur betur. Allt vegna ”þín”. Hann syngur um það hversu miklu auðveldara lífið er vegna ”þín”. Og ef við hugsum okkur þessa persónu sem Guð þá erum við hér komin með ágætan sálm. Það er reyndar eitthvað sem margir söfnuðir kirkjunnar skildu strax eftir að lagið hafði verið valið og nú er þetta að öllum líkindum orðið mest sungna Eurovisionlagið hjá kirkjukórum þessa lands.

Reyndar hæfir hvítasunnan einstaklega vel sem Eurovisionhelgi því Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva er sannarlega í anda hvítasunnunnar. Þarna kemur saman hæfileikaríkt tónlistarfólk og deilir list sinni hvert með öðru og með Evrópu allri. Ég tel líklegt að þessi keppni sé, í hugum margra, frekar hugsuð sem skemmtilegur viðburður tónlistarfólks en að hún sé endilega svo mikil keppni. Auðvitað er þetta alltaf keppni að einhverju leyti og býður eflaust upp á mörg ný tækifæri fyrir einhverja flytjendur, en flest gerum við okkur þó grein fyrir að það er ekki auðvelt að keppa í tónlist og hvað þá í vinsældarpoppi. En þarna kemur saman fólk frá mörgum löndum, sem talar ólík tungumál kemur úr ólíkum menningarheimum og reynir að skilja hvert annað og deila menningu sinni og list með hvert öðru. Hvað gæti verið hvítasunnulegra en það?

Þegar ljóð laganna sem keppt hafa í gegnum tíðina eru skoðuð þá kemur í ljós að vinsælasta umfjöllunarefnið er ástin og lífið. Stundum koma í keppnina lög með augljósan friðarboðskap eins og t.d. lag Rússlands í ár sem fjallaði um að leggja niður vopn og hætta að berjast. Keppnin hefur einstaka sinnum verið nýtt til þess að benda á brot á mannréttindum því þótt keppnin eigi að vera ópólitísk þá er varla til betri leið til þess að koma boðskapi á framfæri en einmitt tónlistin. Í ár voru það finnsku keppendurnir sem komu þeirri skoðun sinni á framfæri með heitum kossi, að fólk sem elskar hvort annað eigi að fá að ganga í hjónaband hver sem kynhneigð þeirra er.

Hvítasunnan, hátíð Heilags Anda, er hátíð einingar, virðingar og kærleika. Hún er hátíðin sem minnir okkur á hversu mikilvægt það er að stíga yfir landamærin og kynnast hvert öðru. Að öll erum við útlendingar og heimafólk á sama tíma í þessum heimi. Að öll erum við upp á lífsandann komin til þess að fá að taka þátt. Hvítasunnan er hátíðin sem blæs á heimsku og fordóma og hvetur okkur til að setja okkur í spor annarra.

Lokaorðin í prédikuninni í dag eru úr gömlu sigurlagi  úr söngvakeppni Evrópska sjónvarpsstöðva sem hún Dana hin írska, flutti árið 1970. Hún söng þar um merkilega hluti og ómerkilega. Stórkostleg fyrirbæri og hversdagsleg sem minna hana á ”þig”. Kannski minna þau hana á Guð, sem gefur okkur lífsandann. Nú mun Þórdís Sævarsdóttir flytja okkur þetta lag sem vel getur fjallað um gjafir Heilags Anda.

Amen.