H2Og? er yfirskrift Landsmóts æskulýðsfélaganna sem haldið verður á Egilsstöðum um helgina. Hundruðir unglinga hafa skráð sig til þátttöku og mikið verður um dýrðir.
Unglingar af öllu landinu með prestum sínum og æskulýðsfulltrúum koma til mótsins og vinna saman alla helgina að því að fræðast og vinna saman um mikilvægi vatns í heiminum. Mótið er í samvinnu við Hjálparstarf kirkjunnar og athyglin mun beinast að landinu Malaví í Afríku, en gestir þaðan munu koma til mótsins.
En af hverju skyldu íslenskir unglingar hafa áhuga á vatni?
Við sem höfum alist upp við nóg vatn frá blautu barnsbeini og þekkjum það engan veginn af eigin raun að líða vatnsskort.
Ástæðan er sú að unglingarnir sem koma til mótsins eru starfandi í kirkjunni og hafa því boðskap Jesú Krists að leiðarljósi.
Jesús talaði mikið um vatn og sagði einu sinni við ónefnda konu að vatnið sem hann gæfi henni yrði í henni að lind sem streymir fram til eilífs lífs.
Hvað skyldi Jesús hafa átt við með þessu?
Þarna er Jesús að tala skýru máli um hvers eðlis samfélgið við hann er. Þegar við eigum lifandi samfélag við hann er eins og það renni vatn frá honum til okkar og þetta vatn vökvar líf okkar og gerir það innihaldsríkara.
Þetta hafa unglingarnir í æskulýðsfélögum landsins fengið að upplifa í starfi kirkjunnar. Þetta samfélag leiðir af sér löngun til að láta gott af sér leiða, löngun til að koma þeim til hjálpar sem t.d. hafa ekki aðgang að hreinu vatni.
Barna- og æskulýðsstarf kirkjunnar er mikilvægasta starf sem kirkjan vinnur. Að kynna boðskap Jesú fyrir börnum og unglingum gefur þeim innsýn inn í tilgang lífsins. Á því þarf ungt fólk svo sannarlega að halda í dag.
Landsmót þessara unglinga hefur gríðarlega mikið gildi af því að þá finna unglingarnir að þau eiga trú sína sameiginlega með unglingum alls staðar að af landinu.
Landsmótið með yfirskriftina H2Og? vísar augljóslega til vatns, en það vísar líka til framtíðar þannig að við öll upplifum okkur nauðsynlega hlekki í þeirri sterku keðju sem kirkjan okkar er.