Blaktandi tilfinningar á snúru

Blaktandi tilfinningar á snúru

Við endirinn skal upphafið skoða enda er ástæða til og leyfilegt að snúa öllu við hvort heldur það eru málshættir eða annað það sem snýr að okkur á tímum sem þessum. Andvarp tímans sem við vorum farin að kynnast og kannski að sættast við er að enda komið þreytt og tilbúið að byrja upp á nýtt.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
31. desember 2005
Flokkar

En hann sagði þessa dæmisögu: Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki.Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að spilla jörðinni?En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár, þar til ég hef grafið um það og borið að áburð.Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp. Lk.13.6-9

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

Við endirinn skal upphafið skoða enda er ástæða til og leyfilegt að snúa öllu við hvort heldur það eru málshættir eða annað það sem snýr að okkur á tímum sem þessum. Andvarp tímans sem við vorum farin að kynnast og kannski að sættast við er að enda komið þreytt og tilbúið að byrja upp á nýtt. Á sama tíma og það byrjar upp á nýtt getur það ekki annað en haldið áfram. Nýtt upphaf er aðeins til í höfði okkar.

Hin mörgu andvörp ársins 2005 hafa hitt okkur fyrir á margvíslegan hátt. Sum hver hafa skilið eftir sig sár og fleiður á líkama og sálu og önnur verið sem þýð sunnan gola á vanga bjartra stunda sem árið sem senn kveður hefur borið með sér.

Allt það sem var á árinu er senn að baki og kannski þess vegna gefur maður sjálfum sér leyfi til að snúa næstum öllu á haus í galsaskap. Viðteknar skoðanir á lífinu og tilverunni eru skoðaðar á þann hátt sem allrajafna maður leyfir sér ekki í umróti dagana sem samansafnaðir falla inn í þann “ramma” sem kallast ár. Það er vissulega gert í hálfkæringi-hálfkæringi sveipaður söknuði, feginleika, ótta, glaðværð, uppgjöri, vanmætti og svo miklu-miklu meira en allt þetta. Því aldrei er það svo að allt verður sett út á snúru tilfinninga þeim sem eiga leið hjá til að horfa á – hæðast að og eða dást eftir efnum og ástæðum. Kannski er réttara að segja á síðustu stundum þessa árs að svo hafi það verið, en er ekki lengur. Vindar hafa blásið síðustu misserinn úr þeirri átt að hverjum er ekki sama hvað sett er á - hengt út á snúru tilfinninga og innstu hugarfylgsna einstaklinga – klemmur einkalífsins kúldrast í körfu fortíðar og þykja gamaldags. Blaktandi tilfinningar á snúrum í forgörðum ekki bakgörðum eins og var, hvert sem litið er hverjum þeim sem vill njóta og þeim hinum sem alls ekki vilja vita – það er ekki spurt að því ef ljómi eftirsóttrar frægðar ætti leið hjá og umtal fylgdi í humátt á eftir. Til mikils er að vinna – heyrist sagt – en engin virðist geta full talað sig um hver sá ávinningur er. Það skiptir heldur ekki máli-nóg er að fá augnabliks birtu athyglinnar á ásjónu og líf.

Undarlegir tímar

Það er freistandi að slá því föstu að við lifum á undarlegum tímum og um það þurfi ekki að fjölyrða. Bara ef það væri svo að við lifðum á undarlegum tímum. Það er eitthvað sem segir mér að það væri gaman að lifa á undarlegum tímum. Það væri gaman vegna þess að sá tími kemur aldrei hversu undarlegt sem það er. Það sem aldrei mun verða er eftirsótt því fáir fá að njóta ef þá einhver. Því á undarlegum tímum væru ekki stríð – hungursneyð – náttúruhamfarir - mansal - glæpir, - hatur og ást, dauði, getnaður nýtt líf og friður. Allt þetta gerðist á árinu sem er að líða. Birtingarmyndir þess eru margvíslegar. Sumt af því sjáum við og annað ekki. Eitthvað af þessu heyrum við og bregðumst við og eða skellum skollaeyrum við. Viljum við ekki frekar dveljast við hvað getur gerst á undarlegum tímum? Ef við fengjum að ráða þá yrði svarið já! En við finnum til vanmáttar. Ef ekkert af þessu framantöldu, hvað er þá eftir? Allt það sem hugurinn getur kallað fram, umfram það sem talað var um hér að framan. Því mest af því er eitthvað sem við köllum fram í huga og framkvæmum. Hugur mannsins er flókið fyrirbæri sem hefur hjálpað til að lifa af sársauka tilverunnar og gleði hennar því við ásælumst það sem við fáum ekki og munum ekki fá að lifa.

Kjarklaus ótti

Við höfum væntingar um okkar nánustu framtíð og nær það ekki lengra en það. Því í væntingum okkar felst ósk um eitthvað sem oftar en ekki við höfum lítið og á stundum ekkert um að segja. Allt umfram væntingar er traust ekki vissa. Væntingar trúarinnar er traust. Traust um að vel verði fyrir séð. Við vitum ekki hvað morgundagurinn færir með sér hvað þá ef lengra er horft en til næsta dags heldur til næsta árs eða eins og segir í einum af nýárssálmunum “Á nýju ári nýja þrá þín nýja líkn mér kveiki hjá...” það er nefnilega svo að við tímamót sem þessi er hugurinn uppfullur af trega yfir því sem kvatt er og á sama tíma tilhlökkun að takast við nýja ónumda tíma sem er tilbúin að fara þangað sem hugur veitir. Tíminn – ónumdir dagarnir á árinu framundan eru ókunnugir okkur og við þeim. Þannig að við getum sagt að við hittumst á jafnréttisgrundvelli en á sama tíma ekki.

Ég hef alltaf horft á nýtt ár með óttablöndnum huga – ótta vegna þess að það er manneskjunni eðlislægt að óttast það ókunnuga. Við viljum dveljast við það sem við þekkjum og eða erum vön að umgangast. Ef ég fengi að ráða þá myndi ég fresta nýja árinu til óskilgreinds tíma bara til þess að þurfa ekki að horfast í auga við minn eigin ótta. Á sama tíma veit ég vel að það er hverri manneskju nauðsynlegt að horfast í augu við sinn ótta og ganga á hólm við hann. Ég veit að þið vitið að við þurfum ekki að óttast óttann. Óttinn er kjarklaus-horfir ekki í augu við þig. Með því er ekki sagt að þú sért það. Nýtt ár hefur löngum minnt mig óþægilega á “geymslu” við enda á löngum dimmum gangi með fullt af dimmum ókunnugu rými. Sum þeirra opin og önnur lokuð og þar var líka myrkur. Geymsla æskuheimilis míns var við enda gangsins í dimmu eða illa upplýstu kjallararými. Í geymslunni var matarforðarbúr heimilisins í kaldri kistu. Það þýddi að oft þurfti að fara dimman og eða lítt upplýstan ganginn á enda framhjá öllum herbergjunum þar sem ungur hugur kallaði fram drauga og forynjur hverskonar til þess að nálgast kvöldmatinn þann eftirmiðdaginn. Geymslunar hinar áttu það allar sameiginlegt að vilja ná tali af mér, eða það sem dvaldist innan þeirra. Það var skelfilegt að vera beðin um að fara niður í geymslu að ná í eitthvað sem vantaði á heimilinu. Hvað ég gerði ekki til að komast hjá því að fara en það var bara frestun á því óhjákvæmilega og ég fór. Ég fór þrátt fyrir þá að vita ekki að óttinn væri kjarklaus. Hvernig gat ég vitað það sem barn. Með hryllilegan kuldahroll sem hríslaðist um mig allan fór ég niður í sótsvart myrkur kjallarans uppfullan af ótta og hryllingi um leið og hurðin var opnuð og brattur stigin sveigðist niður í hyldýpið. Kveikti á ganginum sem stundum svaraði ekki með frelsandi birtu sinni þótt ekki væri nema örlítil ljóstýra. Hvað ég var tilbúin að snúa við og loka hurðinni og klemma óttann á milli svo að hann næði mér ekki. Hélt niðri í mér andanum eins og ég vildi komast hjá því að vekja óvættir þær sem í myrkrinu þrifust best. Ég greip það sem átti að sækjast og hljóp eftir endilöngum ganginum og tók tólf tröppur í tveimur stökkum. Nær fallinn í öngvit af ótta greip andan á lofti og bar mig mannalega þegar ég skilaði því sem ég var beðin um. Innyflin á hvolfi og tók stundirnar tvær að koma þeim á sinn stað aftur.

Kærleiki vanmáttar

Bara að ég hafi vitað þá sem ég veit í dag að það var ekkert að óttast. Þrátt fyrir að ég veit þá læðist óttin að á stundum lífsins. Samt þegar ég hugsa til þess hefði ég ekki viljað fara á mis við þessa reynslu að horfast í augu við óttann sem æska hugans kallaði fram. Hvað ef ég stæði enn við dyrnar sem ég opnaði aldrei? Ég hefði komist upp með það vegna kærleika þess sem sendi mig – en ég hefði orðið ósáttur við sjálfan mig. Myrkur óttans væri enn í myrkruðum kjallaraganginum og hefði aldrei fengið að sjá dagsbirtu. Sjá að veruleikinn er ekki hans. Hann hefði kallast á við minn eigin vanmátt og hlegið af honum og hæðst.

Nýtt ár er eins og þessar dyr að rými kjallara æsku minnar. Það verður að opna þær og þótt að tröppur hans gætu verið brattar niður eða upp þarf að feta sig eftir þeim. Það gamla stendur á bakvið í kærleika og vill halda í það sem er - eða er það öfugt? Er það ekki við sem viljum fela okkur í “pilsafaldi” þess sem við þekkjum og finnum okkur örugg. Líklega er það svo vegna okkar eigin vanmáttar.

Eins og ég sagði í upphafi þá er þessi tími um áramót – tími þar sem flestu er snúið á hvolf í galsaskap. Vegna þess að einhverstaðar innra með okkur hljómar rödd sem segir okkur að opna dyr nýs árs – reyndar höfum við ekkert val um af eða á. Í því birtist vanmáttur okkar. Við getum ekki hversu mjög sem við vildum haldið í það sem var. Hvers virði er að halda í það sem var og nema aldrei nýja tíma á leið þroska og vitsmuna. Við erum send til móts við nýja tíma með öllum sínum ókunnugu dögum af þeim sem þykir vænt um okkur. Föðurnum sem vakir yfir okkur dag og nótt og veit af ótta okkar og skilur. Það er svo margt sem við gerum í vanmætti og trausti. Birtingamynd vanmáttarins er margvíslegur eins og það að blakta sínu á snúru tilfinninga hverjum sem vill horfa á og ekki. Það að fara um ganga myrkurs í kjallara til að sækja það sem sækja verður. Það að kveðja árið sem fáeinar stundir gengur með okkur í viðbót og tilheyrir senn því sem var. Sú hugsun læðist að hvar eru þau ár sem eru að baki - eru geymd. Ætli þau fari í endurvinnslu eða komið fyrir í geymslu á hillu aldana og rykfalli þar. Senn kveikjum við ljós nýs árs með þeim væntingum sem við berum til þess. Við þurfum ekki að óttast heldur tökum á móti því ókunnuga í kærleika vanmáttar okkar eigin huga hvort heldur að við erum ung og eða öldruð.

Friður Guðs, sem æðri er öllum skilningi, varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú.

Megi góður Guð gefa þér og þínum gleðilegt nýtt ár með þakklæti fyrir það gamla.