Tárin í augum vina minna gerðu útslagið. Margt hafði farið í gegnum hugann síðustu dagana, en votir hvarmar fólks í altarisgöngu snertu kvikuna. Ég var á leiðinni frá einum söfnuði til annars - frá vinum mínum og til annarra vina. Þetta voru tilfinningadagar og ýmislegt kom mér á óvart, bæði innan í mér og í samskiptum og viðbrögðum fólks.
Eftir tíu ára starf í Neskirkju og þjónustu við vesturbæinga sótti ég um prestsstarf við Hallgrímskirkju. Einföldu rökin voru að skynsamlegra væri að fara í annað prestakall áður en allir væru orðnir leiðir og farnir að bíða að maður hætti! En fleira og veigameira hafði afgerandi áhrif, sumt kirkjulegt, annað varðaði persónulega reynslu og tengsl við fólk. Svo var ég í stöðugu samtali við himinvin minn um hvort ég ætti að sækja eða ekki.
Þegar niðurstaða var fengin hóf ég umsóknarskrifin. Mér þótti áhugavert og að skrifa umsókn í samræmi við ný og breytt viðmið varðandi slíkar umsóknir. Ragnhildur Bragadóttir á Biskupsstofu sagðist aldrei hafa séð svo fallega umsókn! Skýringin var að Katla, sem er bæði fagurkeri og dóttir mín, braut um textann svo ágætlega og smellti inn myndum á góða staði að hinn smekkvísi bókasafnsfræðingur biskups gladdist. Já, pappírinn var líka fallegur og allar myndirnar, sem ég hafði tekið í Hallgrímskirkju, voru í lit.
Svo tók við umsóknarferli. Ég var í önnum, útfarir voru margar og tóku hug minn. Svo varð ég að sinna kirkjuþingi í klemmu á milli jarðarfaranna. Eitt kvöldið á kirkjuþingstímanum var ég kallaður til valnefndarfundar í Hallgrímskirkju. Formaður kjörnefndar, Halldóra Þorvarðardóttir, stýrði fundi örugglega og glæsilega. Svo beið ég – og hinir umsækjendur – niðurstöðu. Ég fagnaði þegar mér var tilkynnt að ég hefði verið valinn til að gegna sóknarprestsstöðu á holtinu. Mér þótti að vísu leitt að aðrir frábærir umsækjendur voru þar með ekki valdir en gladdist jafnframt yfir að Irma Sjöfn Óskarsdóttir var valin sem hinn prestur kirkjunnar.
Annir héldu áfram, að mörgu er að hyggja við skil í Neskirkju og síðan byrjaði undirbúningur fyrir störfin í Hallgrímskirkju. Ákveðið var að kveðjumessan yrði í Neskirkju síðasta sunnudag kirkjurársins, 23. nóvember. Ég yrði síðan settur í embætti (tekinn í notkun eins og starfsfólkið orðaði það!) í messu fyrsta sunnudag í aðventu, 30. nóvember. Við Steingrímur Þórhallson, organisti, ákváðum sálma fyrir kveðjumessuna. Ég skoðaði textana, sóknarnefndarfólkið vildi þjóna sem messuhópur á þessum skiladegi. Ég skutlaði inn í tölvuna nokkrum þönkum að gefnu tilefni. En mér leið þó hálf-einkennilega. Eiginlega alla vikuna. Hvað var að mér? Var það bara flensuræfill sem herjaði? Eða var eitthvað annað? Presturinn, sem hefur gengið sorgargöngur með mörgum, fór að hugsa og spurði hið innra: „Heyrðu, karlinn, ertu í sorgarferli? Svo kafaði ég í ávirka texta síðasta sunnudags kirkjuársins. Jesús spyr þar stórra spurninga um hvort við höfum heimsótt sjúka, fangelsaða, gefið næringarsnauðum mat – iðkað kærleika. Og þau, sem ekki hafa í sér þessa Jesúafstöðu samúðarinnar, eru mörkuð dauðanum. Þetta eru dómstextar, merking þeirra er krísa – enda merkir gríska orðið krisis dóm og dómsniðurstöðu. Boðskapur kristninnar varðar ekki yfirborðsmál heldur mennskuna í öllum víddum. Og þennan gamlársdag kirkjuársins hljómuðu dómsorð um krísu okkar allra. Við dæmum okkur sjálf.
Því vöknuðu íhuganir um eigið líf. Hafði ég staðið mig í starfi síðustu ár? Hafði ég sýnt árangur? Hafði ég ekki brugðist fólkinu í sókninni með margvíslegu móti? Ég gæti fært frávísunarrök og vikið mér undan ábyrgð og vísað á aðra. Nei, ég hafði vissulega ekki brugðist í öllu, en þó – ég sá bresti mína. Þegar ég leit til baka var mér ljóst að ég hafði ekki heimsótt alla sem ég vildi, ekki slökkt þorsta fólks eftir næringu, alla vega ekki þeirri andlegu.
Og ókyrran óx alla vikuna er ég undirbjó kveðjumessuna. Kvefpestin ágerðist og á sunnudagsmorgni var ég orðinn raddlaus. Aldrei hafði þetta gerst síðustu tíu ár. Hvað væri til ráða? Dómur himins – tjáning þess að ég hefði brugðist líka í orðum en ekki bara gerðum? Birgir Ás Guðmundsson kenndi okkur guðfræðinemum nokkur radd-krísu-trix og nú komu þau að góðum notum. Röddin skírðist nokkuð – en var þó þvæld eins og eftir sigurleik Íslendinga í fótbolta – en þó nothæf.
Ég gekk svo í morgunkælunni til kirkju. Óvenju margt fólk var að undirbúningsstörfum, sóknarnefndarfólk við veisluundirbúning, stóri kórinn mættur í upphitun, kórall úr jólaóratóríu-Bach skyldi sunginn eftir prédikun. Alls konar hugsanir læddust að. Síðasta messan? Aldrei aftur í Neskirkju? Kannski fengi ég að prédika síðar eða hjálpa til við útdeilingu? Svo dreif fólk að, eldra og yngra, og mörg þekkti ég vel. Þegar ég horfði í augu þeirra var ég snortinn á dýptina. Ég hafði jarðsungið foreldra eða maka sumra, skírt fyrir önnur, fermt ungmenni í fjölskyldum margra og gift sum. Samfélag, kirkja, söfnuður. Og svo hófst messan, kveikt var á altariskertunum, við sungum lofsöng og báðum bænirnar. Miskunnarbænin fyllti helgidóminn á jörðu og himni. Lestrarnir hljómuðu og Sigurþór Heimisson las stórkostlega. Rúnar Reynisson afskrýddi prestinn og svo var lagt var út af erfiðum og dæmandi textum sem segja þó satt um okkur öll. Kirkja er ekki fallegt hús fyrir klisjur. Kirkja er þar sem góð afstaða til Jesú er ræktuð og afstaða Jesú til manna er iðkuð. Að venju lét söfnuðurinn ræðinginn yfir sig ganga, hlustaði vel, nikkaði kolli eða setti í brýrnar vegna krísunnar.
Já, Bach dillaði, engladans jólaóratóríunnar hleypti dans í kórinn sem lyftist og hneig í hljómfallinu. Spennandi tónleikar framundan. En verð ég með þar? Verð ég ekki hættur, hvenær hættir maður að vera prestur í söfnuði? Verð ég komin í tónverk og alls konar verk í Hallgrímskirkju? Og svo Sanctus, heilagur – þessi dásamlegi hjartsláttur aldanna, viðlag kynslóðanna, játning sálna himinsins, þvert á dómsorðin, orð vonanna sem Jesús Kristur kveikti. Orð um lífið gegn dauða. Og innsetningarorðin rímuðu fullkomlega – um bikar og brauð.
Og svo stóðum við fjögur við útdeilingu. En stemmingin var sérstök. Svo sá ég tár í auga. Síðan voru fleiri tár sem féllu og ég nánast beygði af. Í lokin sungum við öll þann yndislega tímaskilasálm nr. 712 – Dag í senn, eitt andartak í einu. Þakklætið hríslaðist um mig, en tárin leituðu djúpt í vitundina. Mörg faðmlög við dyr, allir tjáðu ósk um hamingju, sum með gleði en mörg með votan hvarm og vanlíðan. Ljúfsár kveðjustund. Svo vorum við kona mín leyst út með höfðinglegum gjöfum sem verma og gleðja um ókomin ár. Droplaug Guðnadóttir og Sigurvin Jónsson héldu snjallar ræður. Takk fyrir mig.
Í Hallgrímskirkju munu núverandi prestar brátt láta af störfum, Jón Dalbú Hróbjartsson og Birgir Ásgeirsson. Vísast bærast líka í þeim margvíslegar tilfinningar eins og í mér. Þeir glíma væntanlega við vistaskipti og breytingaskeið. Ég get að einhverju leyti sett mig í þeirra spor. Það er ekkert einfalt að skipta um starf eða láta af störfum, eiginlega trúarleg glíma og pílagrímsferð í hópi fólks. Svo eru hin, sem ekki voru valin til starfa. Þau glíma við höfnun og vonbrigði. Sóknarfólk og starfsfólk kirknanna gengur í gegnum breytingaskeið þegar prestaskipti verða. Tilfinningar eru ekki léttvægar heldur mikilvægar – þær “kirkjulegu” og prestslegu líka.
Undarlegur dagar að baki, undarleg vika og sérstæður tími einnig. Ég sé enn tárvot augun við útdeilingu. Tár ljúga ekki og þessi tjáðu afstöðu. Var ég að bregðast eða ekki. Dómstár? Sorgartár já – og tjáðu líklega missi, glataðan tíma, lok fremur en sárindi. Mér var ekki álasað eða skammaður, heldur var sagt að eftir yrði skarð. Nú er lokið tíma, lokið þjónustu og ég fer. Reyndar ekki langt og sum eiga eftir að koma í Hallgrímskirkju og önnur eiga eftir að óska þjónustu minnar. „Þú ert nú áfram sóknarbarn Neskirkju, kallinn minn“ sagði einn. „Við eigum nú eftir að hittast í Melabúðinni, já og kannski líka í Neskirkju“ sagði ein. Ég tilheyri þessu fólki, þessum söfnuði, þessum hverfi, er einn af þeim, deili með þeim gildum og vonum og vil að fjölskylda mín fái að njóta þeirra og líka vera þeim fang þegar á reynir. Það er gott að vera prestur og manneskja í Vesturbænum. Og þó ég færi mig um set er ég einn af þeim. Hvort sem Vesturbærinn nær upp í Þingholt eða ekki er Jesús Kristur sá sami á Högum, Melum og á Skólavörðuholti. Ferðin er á hans vegum.