Það getur verið svolítið erfitt að finna sig. Hann Tarfur, sem alltaf var kallaður Æskulýðs-Tarfur, hafði oft átt erfitt með þetta. Tarfur var bara svona eins og við erum öll. Hann hafði mikið að gefa og honum langaði að finna réttu leiðina til þess. Einmitt þess vegna var hann Tarfur, vinur okkar, alltaf að leita. Tarfur lagði af stað í leiðangur en hann gekk aldrei einn. Tarfur átti nefnilega góðan vin, sem hann gat alltaf leitað til. Vinurinn hafði í gegnum tíðina verið kallaður mörgum, mörgum nöfnum en Tarfur lét sér alltaf nægja að kalla hann bara vin. Því orðið vinur getur stundum verið meira en nóg.
Tarfur lagði af stað í leiðangurinn og hann leitaði hátt og lágt. Hann gekk upp á fjöllin og meðfram fjöru. Hann leit upp í kvöldhiminninn og sá stjörnurnar sem glitruðu um stund. Og á morgnana geispaði sólin með honum og teygði úr sér í átt að nýjum degi.
Leitin hans Tarfs hafði byrjað fyrir löngu síðan. Hún hefur reyndar staðið yfir frá því Tarfur varð til. Tarfur hafði þá heyrt af þeim sannleika að öll séum við einstök og að við höfum öll okkar náðargjafir. Fyrst spurði Tarfur sig: „Náðargjafir?! Hvað er það eiginlega?” Svo varð hann spenntur: „Eru náðargjafir kannski eins og jólagjafir?! Eða afmælisgjafir?! Gjafir einmitt handa mér!” Það kom Tarfi dálítið á óvart þegar hann komst að því að hann hafði bæði rétt fyrir sér og rangt fyrir sér. Þannig getur nefnilega lífið verið svolítið flókið stundum. Tarfur spurði góða vinkonu sína, hana Visku, út í þessar skrýtnu gjafir sem hann minntist ekki hafa nokkurn tímann fengið innpakkaða.
„Viska, spurði Tarfur, sko… Ég fæ afmælisgjafir á afmælinu mínu og ég fæ jólagjafir á jólunum. En hvenær er þessi náðardagur, því mig langar svo að fá loksins þessar náðargjafir!” Viska svaraði alltaf svolítið merkilega. Hún hafði aldrei hátt, hún var ekki hávaðaseggur eins og stormurinn og hún var ekki jafn ægileg og eldurinn. Nei, Viska var eins og ljúfur og léttur blær. Þess vegna var svo auðvelt að heyra ekki í henni.
En nú vildi Tarfur hlusta og hann hlustaði vel þegar Viska svaraði: „Náðardagar eru allir dagar” Ha? Þetta var skrýtið svar. „Ertu að segja mér, spurði Tarfur, að það sé náðardagur í dag? Og á morgun? Og á morgun og morgun og morgun og morgun?” „Já.” Svaraði Viska. „En hvar eru náðargjafirnar mínar?!” Spurði Tarfur. „Þær eru hér. Þú þarft bara að finna þær. Og þú þarft að gefa þær áfram” „Gefa?! Náðargjafirnar mínar? En mig langar bara að eiga gjafirnar mínar aleinn!” „Veistu Tarfur, gjafirnar þínar verða bara enn betri ef þú gefur af þeim áfram. Þær eru hér. Þú þarft bara að finna þær.” Það gat verið svolítið erfitt að skilja hana Visku.
Þess vegna lagði Tarfur af stað í leiðangur. Hann leitaði hátt og lágt. Hann gekk upp á fjöllin og meðfram fjöru. Hann leit upp í kvöldhiminninn og sá stjörnurnar sem glitruðu um stund. Og á morgnana geispaði sólin með honum og teygði úr sér í átt að nýjum degi.
Á leið sinni í leit að náðargjöfunum kynntist Tarfur ýmsum frábærum krökkum. Honum langaði ofboðslega að gera ótrúlega skemmtilega hluti með þeim og segja þeim frá vin sínum sem hafði verið kallaður ótrúlega mörgum, mörgum nöfnum en hann kallaði alltaf Vin. Tarfi langaði líka að segja frá vinkonu sinni með skrýtnu svörin, henni Visku. Tarfi langaði líka að segja frá leit sinni að náðargjöfunum.
Þá mundi hann eftir því sem Viska sagði: Að hann þyrfti að gefa! Svo Tarfur bauð nýju vinum sínum í pizzaveislu. Og lasertag! Og vidjókvöld! Og allt það skemmtilegasta í heiminum sem honum datt í hug að allir krakkarnir yrðu ánægðir með. Þá var auðvelt að gleyma elsta og besta vininum, þessum sem átti ótrúlega mörg, mörg nöfn. Og það var líka auðvelt að gleyma öllu því sem Viska hafði kennt.
En einn daginn, alveg óvænt, kynntist Tarfur nýjum vini. Hann hét Andartak. Andartak sagði Tarfi að hann þekkti leiðina að náðargjöfunum, hann gæti hjálpað honum að finna þær. „En hvernig?!” spurði Tarfur spenntur. „Það er ósköp einfalt. Vertu bara hér og nú með mér, þá finnurðu þær.” svaraði Andartak.
Tarfur ákvað að prufa, þó þetta hljómaði skrýtið og öðruvísi en allt sem hann hafði nokkurn tímann lært áður. Tarfur prufaði og viti menn! Tarfur byrjaði að hlusta og spurja. Tarfur fór að vera áhugasamur um vini sína. Tarfur fór að finna hvað það var yndislegt að vera til staðar, að vera með nýju vinum sínum í góðu samfélagi. Þetta var ekkert flókið eftir allt saman. Allt í einu sá hann náðargjafirnar birtast. Bæði sínar og vina sinna. Hver einasti dagur varð náðardagur. Og aftur mundu allir eftir vininum sem átti öll þessi ótrúlega mörgu, mörgu nöfn og vinkonunni með skrýtnu svörin, henni Visku. Tarfur hafði fundið það sem hann hafði leitað að, nokkuð sem var algjör galdur. Hann hafði fundið galdurinn að sönnum Æskulýðs-Tarfi.