Yfirskrift erindis míns er mannleg reisn og mannhelgi. Áður en ég kem að því efni langar mig að segja örfá orð um hugtakið samkennd og að hvaða leyti slík kennd getur orðið grundvöllur að löggjöf. Mér virðist augljóst af þeirri orðræðu sem átt hefur sér stað að þingmenn jafnt sem almenningur hafa fundið til sterkrar samkenndar með hinu barnlausa pari og löngun þess og þrá eftir barni. Samkennd í garð annarra, einkum þeirra sem líða á einhvern hátt, er mannleg. Það er sannarlega ekkert athugavert við það að upplifa sterka samkennd með öðru fólki og vissulega siðferðilega gott og fagurt markmið að reyna að stuðla að hamingju fólks. En það er langt því frá alltaf augljóst hvað á að gera við slíka tilfinningalega samkennd – hvað þá að sú leið sem boðuð er í nýlegri þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun í velgerðarskyni sé hinn eini rétti farvegur slíkrar kenndar. Gagnvart sterkri samkennd þurfum við alltaf að vera allsgáð og yfirveguð. Ég vil því byrja á því að benda á þetta atriði: að samkennd með fólki sem þráir að eignast barn – má ekki afvegaleiða skynsemi okkar, hvað þá víkja siðferðinu til hliðar. Sú þingsályktunartillaga sem nú liggur fyrir um staðgöngumæðrun er ekki nægjanlega yfirveguð, og því ekki siðferðilega réttlætanleg að mínu mati. Siðferði og skynsemi verða ekki aðskilið. Siðfræðilega er það meginmál hvort þær leiðir sem við veljum til að stuðla að hamingju fólks séu réttlætanlegar, bæði út frá hugsanlegum afleiðingum þeirra – en einnig út frá grundvallar skilningi okkar á manneskjum sem persónum. Það er einkum síðara atriðið sem ég mun tala um hér í dag. Tal mitt hverfist um hugtakið mannhelgi/göfgi og hvernig koma má fram við manneskjur. Þar byggi ég á siðfræði Immanúel Kants sem femínistar hafa löngum leitað til, til að halda fram sjálfræði kvenna og rétti þeirra til að ráða yfir líkama sínum. Þingsályktunar tillaga sú sem nú liggur fyrir Alþingi er, að mínu mati fyrst og fremst sniðin að þörfum þeirra sem taka eiga við barninu eftir fæðingu. Gagnrýni mín á tillöguna byggist á því að mér finnst hún ekki standa nægjanlegan vörð um mannhelgi og manngöfgi staðgöngumóðurinnar. Þetta sjónarmið skal ég útskýra með vísan til mannhelgireglunnar. Mannhelgireglan felur í sér þrjár fullyrðingar: sú fyrsta er að hver manneskja hafi gildi í sjálfri sér og því megi ekki koma fram við hana einungis sem tæki heldur ætíð einnig sem markmið. Önnur fullyrðingin segir að allar manneskjur hafi sama gildi og sú þriðja að hver maður hafi einstakt gildi. Í kristinni hefð hefur mannhelgireglan verið orðuð svo að maðurinn sé skapaður í guðs mynd: hann sé frjáls og skyni borin vera, með sérstakan hæfileika til samfélags við guð og kærleika til annarra. Svipmótið við guð veiti manninum sérstöðu og sérstaka virðingu. Manneskjur eru persónur og skynsemisverur, hélt Immanuel Kant fram: þær eru, eðli sínu samkvæmt, markmið í sjálfum sér, og því má ekki koma fram við þær af vanvirðingu. Skynsemiseðli manneskjunnar setur öllum geðþótta takmörk og er viðfang virðingar. Persónur eru hlutlæg markmið, segir Kant, þær hafa sína eigin tilvist að markmiði. Þær má aldrei nota eingöngu sem tæki og til gagns fyrir aðra. Þessi skilningur Kants sem og kristinn mannskilningur er grundvöllur þeirrar skoðunar minnar að staðgöngumæðrun í hvaða mynd sem, í skyni hagnaðar eða velgjörðar, sé mjög umdeilanleg siðferðislega. Siðferðilegur munur sem gerður er á hagnaði og velgjörð eru í besta falli óljós. Það sem lagt er upp með sem velgjörð getur snúist upp í harmleik, sé gert ráð fyrir tilfinningum manneskju sem eru aldrei útreikanlegar fyrirfram, heldur geta breyst, ekki síst á tímabili þegar viðkomandi persóna er þunguð og verður móðir. Í Biblíunni eru þessi orð lögð í munn Drottni Ísraelsmanna þegar hann undirstrikar ævarandi tengsl sín við þjóð síná: „hvort fær kona nokkru sinni gleymt brjóstbarni sínu, sínu eigin lífsafkvæmi“ …. Þar er vísað til hinna sterku tilfinningatengsla milli móður og barns sem allt mannkyn þekkir. Að skera á þau tengsl með lögum að, útilokar ekki að þær tilfinningar verði til, að sú kona sem gengið hefur með barnið geti ekki hugsað sér að láta það frá sér – Þessi staða getur því valdið miklum tilfinningalegum skaða, hjá öllum aðilum, ekki síst meðgöngumóðurinni. Þetta atriði segir mér að sú löggjöf, sem hugsanlega á að smíða hér á landi, sé vafasöm, út frá manngildissjónarmiði. Ég tel, á grundvelli siðfræði Kants, að aldrei megi búa svo um hnútana í nokkrum mannlegum aðstæðum, ekki síst í viðkvæmum aðstæðum eins kringum meðgöngu og fæðingu, að hægt sé að svipta móður barni sínu, vilji hún ekki gefa það frá sér. Mér finnst það alvarlegt að hugsa meðgöngu og fæðingu sem slík verk að það sé hægt að gera um það bindandi, óafturkræfan samning. Þetta þýðir í mínum huga að það skortir mikið upp á mannvirðingu gagnvart meðgöngumóðurinni í þingsályktunartillögunni um staðgöngumæðrun í velgerðarskyni. Meðgöngumóðirin og tilfinningar hennar skipta ekki máli, eftir að hún hefur gert bindandi samning við væntanlega foreldra. Hún er látin afsala sér rétti sínum til að vera móðir á þeirri stund sem hún tekur inn í líkama sinn kynfrumur verðandi foreldra. Hennar hlutverk er að ganga með barn og fæða það, og afhenda það síðan. Ekkert næmi fyrir hinum sérstöku aðstæðum er byggt inn í tillöguna. Þvert á móti er það algerlega fyrirbyggt að konu megi eða geti snúast hugur. Barnið er aldrei hennar – hún er aldrei móðir þess, hún á aldrei neitt tilkall til þess. Hún er fyrst og fremst tæki til ákveðins verks, persóna hennar skiptir ekki máli eftir að samningurinn hefur verið gerður. Af hverju er nauðsynlegt að gera slíkan bindandi samning við meðgöngumóðurina? Texti þingsályktunartillögunar segir að það sé nauðsynlegt til að flækja ekki málið. Þess vegna þurfi að víkja á frá barnalögnum frá 2003 og hætta að líta á líffræðilega móður sem hina eiginlegu móður. Femínistar hafa löngum bent á að líkamar kvenna hafi einatt verið notaðar sem tæki. Konum hefur verið meinað um sjálfræði lengst af í sögunni, það hefur verið ráðskast með líkama þeirra og líf. Barátta vestrænna femínista á 8 áratugnum gekk út á að konur réðu því hvort þær vildu fæða börn eða ekki. Fóstur var skilgreint sem hluti líkama kvenna og jafnframt að konur hefðu sjálfræði yfir líkama sínum. Sem mæður gátu þær einar ráðið því hvort þær byndu enda á þungun sína. Í krafti þessa skilnings voru settar löggjafir um fóstureyðingar í flestöllum vestrænum ríkjum. Nú erum við þar komin á Íslandi, í hugmyndum um frelsi og hamingju, að konum og körlum í flestöllum stjórnmálflokkum dettur í hug að taka þann rétt af konum að vera mæður þeirra barna sem þær ganga með og fæða. Svipta á konur, sem í velgerðarskyni vilja hjálpa öðrum konum til að eignast barn, þeim sjálfsagða rétti að vera taldar mæður á meðgöngunni, hvað þá að gefa eigi þeim einhvern umþóttunartíma eftir meðgönguna varðandi það að þeim geti snúist hugur. Sú vélræna sýn á manneskjur sem ég sé í þessum hugmyndum, byggist ekki á innsæi í mannlegt eðli og tilfinningar kvenna sem mæðra, heldur einhverju allt öðru sem mér finnst ekki siðferðilega réttlætanlegt.
Að lokum: Hvernig sýnum við konur á Íslandi meðsystrum okkar á Indlandi og víðar í þriðja heiminum samstöðu? Með lögleiðingu staðgöngumæðrunar hér á landi ? Ég er stórlega efins um það. Sú leið er siðferðilega varasöm, meðal annars út frá þessum sjónarmiðum sem ég hef nefnt, en vissulega mætti nefna fleira. Til þess vinnst ekki tími hér. Ég vil að lokum spyrja: hvað veldur að það svo erfitt og langt ferli fyrir íslensk pör að ættleiða hér á landi? Hefur verið gerð úttekt á því og niðurstaðan borin saman við þau lönd sem við berum okkur oftast saman við: s.s. Norðurlönd. Er jafn erfitt fyrir barnlaus pör þar að ættleiða og það er hér? Hvers vegna þarf fólk að bíða árum saman eftir barni. Hverjir bera ábyrgð á ættleiðingarferlinu hér á landi – mætti ekki vinna einarðlega að því að breyta þeim málum til hins betra og stuðla þannig að hamingju barnlausra para?
Erindi flutt á málþingi á vegum Þjóðmálanefndar þjóðkirkjunnar um staðgöngumæðrun 14 febrúar sl.