Guðspjall: Jóh: 1.1-18. Lesið í upphafi messunnar þegar Biblía í nýrri þýðingu hafði verið borin að altari.
Ritningarlestrar dagsins: Lexía: Rutarbók: 2.8-12. Pistill: Fil: 2.12-18. Guðspjall: Matt: 21. 28-32.
Náð sé með okkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Það húmar og haustar að á líðandi sumri. Árstíðir taka við hver af annarri eftir markaðri reglu lífs og náttúrulögmáli sem ákvarðar vöxt, þroska og hrörnun, fæðingu, líf og dauða. Í grunninn er tilvera og líf skynsamleg og rökrétt þrátt fyrir takmarkanir og óvissuþætti. Þau byggjast á Orði Guðs, skynsemi hans, rökum og reglu. Og þess vegna fyrst og fremst er ekki andstæða á milli einlægrar Guðstrúar og leitandi vísinda sem fá skyggnst inn í gerð efnis og lífkerfa, rafeinda og átómmassa og undra og stórmerkja í hræringum vetrarbrauta og stjörnuþoka í alheimi.
Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði. Og það Orð skynsemi og æðstu raka varð hold, mannsbarn vanmáttugt og hjálparþurfi eins og við erum öll í upphafi vegferðar á jörðu. Það óx og efldist svo að mannkynssagan er önnur en áður, en skelfileg endalok þess kvalið á krossi staðfesta að myrkrið gafst ekki ljósinu þótt leyndardómur upprisunnar gefi sigrandi von sem bjarmi af nýjum degi.
Nýja Testamentið og reyndar Biblían öll vitnar um það Orð sem jafnframt er ljós lífsins, sem upplýsir hvern mann um merkingu og takmark lífs og vegferðar. Fyrirheit og frásagan um Jesú, Guðspjöll og gleðifregnir um hann, vitnisburður hans og verk eru þýðingarmikil hverri kynslóð ferðalanga á jarðnesku tímans sviði eins og næring hvers dags, sólarbirta og ylur og leiðarstjarna í næturhúmi. Frumtexti Biblíurita á hebresku og grísku felur í sér boðskap og merkingu sem á að breiða út svo að árangur verði af og uppskera góð fyrir Guðsríkið sem Jesús Kristur gróðursetur. En erindið dýrmæta þarf að setja fram á svo glöggu og skiljanlegu máli hverju sinni að innhald þess og veigur, eigind og umbreytandi afl séu virk og máttug til að hræra hjörtu og huga og leiða til hjálpræðis og samræmis við Orðið eilífa, skynsemi, rök, réttlæti og umskapandi elsku Guðs þótt ytri mynd og umhverfi, aðstæður og kjör séu breytileg frá öld til aldar og kynslóð til kynslóðar. Þess vegna er Biblían endurþýdd sem nú hefur verið gert með nokkuð reglubundnu millibili, að orð hennar tali sem gleggst og greinilegast inn í hverja samtíð. Hún er ekki safngripur heldur á brýnt erindi er snertir lífið og mótar það.
Samhengi lífs og sögu í umskiptum tímans var vissulega áleitið umhugsunarefni, þegar haldið var veglega upp á 150 ára vígsluafmæli Krýsuvíkurkirkju á hvítasunnu í vor og iðulega endranær, þegar hingað er komið enda er sem hér gefist að greina veruleika fyrri tíðar, í hugsýn eða skapandi ímynd, betur enn víða annars staðar. Hvað var hér forðum? Það er hægt að lesa sér til um það og kanna minjar, telja bæi, áætla fólksfjölda, nafngreina presta og einhverja aðra líka. Það skipti miklu hvernig sumrin voru hverju sinni og heyfengur og hversu vænt fé kom af fjalli því af fáu öðru var að taka til lífsviðurværis, en vertíð var þó sótt héðan til að auka fæðu og föng. Samt er fortíðin ókunn í svo mörgum greinum. Hvað gerðist frá degi til dags fyrir heilli og hálfri annarri öld frá einni árstíð til annarrar verður ekki greint í máðum sporum. Hvar kom kirkjan við sögu? Alltaf þegar mestu varðaði til að bregða birtu yfir vegferð og verk, veita skjól, huggun og hvatningu til að lifa og leggja sig fram um það. Oft var iðjan brauðstritið eitt sem sýndist litlu skila en varðveitti þó lífslogann og hlúði að honum með trúarstyrk og sýn, fögrum draumum og einnig hvetjandi skáldskap.
Frásagan af Jesú fléttaðist inn í sögu fólksins. Það varð þátttakendi í henni á leið með honum að ríki hans, sem gerði vart við sig í lífsvirðingu og vilja til að reynast vel í öllu stóru og smáu sem trúað var fyrir hverju sinni. ,,Hvert augnablikskast, hvert æðaslag, er eilífðarbrot/Þú ert krafinn til starfa./ Hvað vannstu Drottins veröld til þarfa,/ þess verðurðu spurður um sólarlag.” Þessi djúpvitru orð Einars Benediktssonar sem hér var nærri í Herdísarvík síðustu æviárin sín, vonsvikinn vegna hruninna vona um stórvirkar framkvæmdir sem gagnast áttu landi og þjóð, hafa verið þekkt hér í sveit sem víðar.
Mannfjöldinn hér innan dyra og utan kirkjunnar á hvítasunnu í vor í björtu og fögru veðri fagnaði. Hann tók þátt í hátíðarmessunni, fann líkt og fyrir niði tímans og horfinnar sögu, naut þess að hlýða á nýort ljóð Matthíasar Johannessen, ,,Munu Ósánir Akrar Vaxa” við tónlist Atla Heimis Sveinssonar í flutningi ungra listmanna, og ritningarorð og prédikun. Hann gekk til altaris og nærðist af innri orkulindum allrar tilveru sem tengir saman fortíð, nútíð og framtíð í veru og eilífð Guðs.
,,Löng er sú ferð…” Þannig hefst ljóðið máttugt og hrífandi og á ekki aðeins við hálfrar annarrar aldar sögu heldur leið manns og mannkyns til skilnings og þekkingar,, þangað sem vísindin hafa leitt okkur á fjallvegi vonar og ótta,” svo að fylgt sé framsetningu ljóðsins ,, á leið að draumkenndri vitund orkunnar sem sumir kalla Guð en fjallræðumaðurinn föður, þegar við hefjum augu okkar til stjarnanna og gleymum öllum kennileitum skammtafræðinnar og afstæðra hugmynda birtist tónaflóð hans í blikandi stjarnþokum og ljósbrotum sem eru löngu hætt að lýsa annars staðar en á áfangastað.” Er ekki skáldið að segja það þótt vandsamt sé að túlka, að vísindi og þekkingarleit nái skammt þótt seilist langt nema þau greini og höndlist tónaflóði Guðs í sköpunarundrum fjölþættra vídda?
,,enn hefur guð ekki komið fram á ratsjám, enn er hann einungis vistaður á ókunnum netslóðum efans.”
Trú og efi, enn togast þau á, þótt ytri umgerð sé um margt ólík því sem var. Sótt var mjög fram í vísindaþekkingu og skilningi á liðinni öld sem leiddi til mikilla framfara í verkmenningu og breytinga á samfélagsháttum og þjóðfélagsgerð og íslenskt samfélag tók gjörvan þátt í þeim miklu umskiptum. En þekkingin hefur ekki yfirunnið efann enda alls ekki nýtt ávallt til lífsverndar og heilla.
Löngum hefur verið friðsælt hér í Krýsuvík þótt náttúran sé hrikaleg og stórbrotin enda mikill kraftur hér í jörðu, svo sem gufustrókar vitna um úr heitum hverum. Öflugt eldgos mun þó á sinni tíð hafa valdið því, að byggð færðist frá ströndu við hina fornu Krýsuvík og hingað upp í landið. Og skriðdrekar gerðu innrás hér í Krýsuvík með elddrunum fyrir tveimur árum og Arnarfellið var gert að átakasvæði. Þau átök voru sem betur fer ekki ekta heldur aðeins sviðsmynd og atriði kvikmyndar, en þau minntu á skelfilega hildarleiki í veröldinni um miðja síðustu öld. Þá var byggðin horfin hér úr sveit og afhelguð kirkjan ein ásamt Krýsuvíkurbænum vitnisburður um lífið sem var.
Krýsuvikurkirkja hefur nú eignast sína ,,Upprisu” í tímanlegum skilningi. Fyrri áfangi umskipta og upprisu varð 1964, þegar Björn Jóhannesson beitti sér fyrir endurvígslu hennar og sá seinni fyrir tíu árum þegar ,,Upprisa” altarismynd Sveins Björnssonar var hengd upp ofan við altari kirkjunnar eftir jarðsetningu hans í garði hennar. Sveinn vann að list sinni hér í Krýsuvík og verk hans tjá og túlka máttugt landslag hennar, kynjamyndir og orkulindir.
Síðan hefur Krýsuvíkurkirkja verið opin og laðað að fjölda manns ekki aðeins þau fáu skipti sem messað hefur verið heldur hafa ferðmenn og ferðalangar litið hér inn og skrifað margt markvert í gestabækur kirkjunnar. Þeir finna margir til þess, að þeir nái hér áttum og takist að skynja og nema uppsprettulindir eigin lífs, í þeim Guði sem snertir hjartastrengi og á sér hér látlausan stað til að svala förumönnum, ,,Welch eine schöne Kapelle in diser Landschaft mit Wind Ruhe, Besinnlichkeit. Wozu die Prachtkirchen , zahlreich in der Welt?” ,,Mikið er þetta falleg kirkja í landslagi þar sem vindur gnauðar, friður ríkir og íhugun veitist. Til hvers allar þessar skartprúðu kirkjur heimsins?” Þannig spyr og skrifar þýskur ferðamaður.
En fleiri en ferðamenn laðast nú að Krýsuvík og aðkoma þeirra er allt önnur. Þeir koma ekki til að dást og undrast og skynja Guð á helgum stað og í náttúrumyndum. Þar eru einbeittir fjáraflamenn á ferð, sem greina hér mikla gróðavon. Þeir sjá fyrir sér virkjun gufuafls og hveralinda til að knýja spúandi álver og mengandi verksmiðjur. Þeir beita miklum þrýstingi á vettvangi stjórnmála og athafnalífs og láta í veðri vaka að nýting jarðvarmans sé nauðsynleg til að tryggja framfarir í framtíð, velferð og hagvöxt þjóðarinnar. Og þeir skirrast ekki við að ætla að breyta friðuðu landi í iðnaðarsvæði.
Gegn þessari gróðahyggju rís annars konar lífskennd og allt annað gildismat, sem greinir varanlegri verðmæti í óbeisluðum orkulindum og lítt snortinni náttúru og kynjamyndum hennar. Þeim sem gagntakast henni óar við yfirvofandi eyðileggingu náttúru og lífsverðmæta í Krýsuvík og vilja fremur stofna fólkvang og eldfjallagarð á Reykjanesi þar sem náttúruundrin fái áfram notið sín og nært lífið, og aukið það verðmætum sem varanlegri eru en hverfull mammonsgróðinn. ,,Moldhlý er jörðin, mosgrænn blær af fjalli,/mjúkhentur dagur við vatnsins öldunið,/ eilífðin þagnar, þögn við dauðans klið.” Svo byrjar Matthías lokerindi Krýsuvíkurljóðs síns. Augljóst er hvar hann lítur verðmætin. Þau felast ekki í áfergju og umhverfisröskun heldur í því að eiga hér áfram í Krýsuvík fagra og gefandi mynd sköpunarundra þar sem jarðneskur dagur í sólarrisi og himneskur snertast og glæða Guðsvitund og trú.
,,hér er þinn guð og vinnur vorið að, þeim veruleika sem er eins og hniti þríein sól um þennan grýtta stað,/ líkast því sem lífið endurriti leiftrandi von á dauðans minnisblað.” Vor og sumar eru nú enn liðin hjá, og myrkur vetrar vísar á dauðans minnisblað en komandi vor er leiftrandi von. Hún býr í moldinni sem verndar fræ. Hún býr í innra ljósi og þreki, skapandi hugsun og virkni, menntun og mótun á þroskaferli lífsins. Vorið komanda handan vetrar felur í sér upprisu lífríkis og náttúru en endursköpun lífs í undri páska og hvítasunnu er upprisa í æðra skilningi á langri ferð að hjarta Guðs sköpunar og endurlausnar. Slíkur er vitnisburður Biblíunnar og sígildra ritninga hennar. Viðhorf og verk á lífsferðinni skipta máli til að ná því mikla marki.
Frásagan af mismunandi viðbrögðum sonanna tveggja í Guðspjalli dagsins vísar til þess hve miklu varðar að orð og efndir fari saman. Líf og saga, viðfangsefni og verkefni daganna hafa ekki aðeins tímanlegt gildi og eru metin á veraldlegan mælikvarða. Þau eru jafnframt unnin í víngarði Drottins, og því varðar mestu að efla allt það sem gagnast honum og stuðlar að því að fegra víngarð og sköpun hans. Illgresi má þar ekki þrífast né ill verk. Allt skal þar unnið af dáðríki og heilindum, fornfýsi og kærleika.
,,Vinnið nú að sáluhjálp ykkar með ugg og ótta eins og þegar ég var hjá ykkur, því fremur nú, þegar ég er fjarri,” segir postulinn í pistli dagsins úr Filippibréfi sem hefur verið nefnt bréf gleðinnar, vegna uppörvandi boðskapar síns um trúarvon og gleði. Og hann bætir við: ,,Því að það er Guð, sem verkar í ykkur bæði að vilja og framkvæma sér til velþóknunar.” Guð er að verki nú sem fyrr til að viðhalda sköpun sinni og innleiða ráð og ríki sitt, en hann gerir sig háðan viðbrögðum og verkum þeirra, sem hann þráir að starfa í sem helgur andi og leiðarljós, háður viðbrögðum okkar einkum sem sjáum jarðneska mynd hans birtast í Jesú Kristi. Ef við vanrækjum helgan boðskap um háleitt guðlegt takmark lífsins myrkvast hugur og hjarta, og dauða -og tortímingaröfl komast þar til áhrifa og valda og orsaka spjöll. Við erum kölluð til að vinna að sáluhjálp okkar vakandi huga með því að rækta sambandið við Guð dag frá degi og hlúa sem ráðsmenn hans að lífríkinu og hafa kjark og kærleika til að miðla Guðs orði og ljósi í samskiptunum hvert við annað nær og fær.
Þegar haustar að og dökkir fletir birtast á lífsmyndinni fer vel á því að sækja hér messu í Krýsuvíkukirkju og nema hér á 150 ára afmælisári hennar nið og hræringu tímans. Við horfum þá í senn aftur og fram en njótum þó einkum helgrar stundar og augnablika þegar við þiggjum blessun Guðs í orði hans og sakramentum.
Biblía í nýrri þýðingu er komin á altarið og við höfum hlýtt á ritningarorð og Guðspjall í nýjum búningi. Það er sögulegt, en mestu varðar að við séum sjálf ,,moldhlý jörð” auðmjúkrar, lifandi og lotningarfullrar trúar á boðskap hennar, sem sýnir sig í lífsvirðingu og elsku sem gerast og eru farvegir þess skapandi og endurleysandi Orðs Guðs sem miðar að sáluhjálp og upprisu lífsins.
,,Þú heilög ritning huggar mig,/ mér heilög orðin lýsa þín./ Sé Guði lof, sem gaf mér þig,/ þú gersemin hin dýrsta mín.” (Helgi Hálfdánarson)
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda um aldir alda. Amen.