Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú Drottni vorum. Með þessum orðum hef ég lokið öllum prédikunum mínum frá upphafi prestskapar míns. Þau eru tekin úr Filippíbréfinu 4:7 þar sem Páll postuli er að enda bréf sitt formlega. Á eftir bætir hann svo við ýmsum skilaboðum og ábendingum. Næst á undan er hvatningin um það að við skulum vera glöð og hann segir það aftur, verið glöð og ég skal minna ykkur á það á eftir hvers vegna honum finnst við eigum að vera glöð.
Ég er ekki alveg viss um að ég muni ennþá hvers vegna ég fór að nota þessa kveðju fremur en Náð sé með yður og friður... eins og flestir presta gera. Kannski vegna þess að mér hefur alltaf þótt ég þurfa að vera aðeins öðruvísi. Hafa uppi einhvers konar uppreisn. Ég er stúdent 1967, ég er þannig af 68 kynslóðinni og lagði þessi ósköp á mig til að hætta að vera kurteis eins og foreldrar mínir höfðu þó kennt mér. Heilsa aldrei né kveðja og helst ekki þakka fyrir sig. Það segir sína sögu að ég skuli ekki hafa getað lært þetta aftur til neinnar hlýtar.
Ég hef kannski haft þetta eftir sr. Arngrími Jóssyni sem kenndi mér að messa. Þökk sé honum fyrir að hafa vakið áhuga minn á messunni sem geymir leyndardóm trúarinnar. En mestu skiptir að ég hef haldið þessari kveðju í gegnum allan minn prestskap. Ég hef alltaf séð eitthvað í þessu, en oftast fyrst og fremst eitt og það segir mikið um prédikunina yfirleitt. Ég skal segja ykkur núna hvað það er.
Þessi orð leysa mig að nokkru undan ábyrgð á því sem ég hef sagt. Ég veit að hversu vel sem ég vanda mig þá get ég ekki borið alla ábyrgð á því hvað þið heyrið. Þið heyrið etv. eitthvað annað en ég segi og þið berið þá ábyrgð á því. Ég ber vissulega ábyrgðina á því að gera mitt besta, vanda mig eins og ég get, en þið berið mikla ábyrgð á því hvað þið heyrið. Eyrun og hugsunin eru ykkar en ekki mín. Huggun okkar allra er sú að það er vonandi sami andinn sem í mér virkar og ykkur. Hann veit hvað hann vill okkur öllum og honum felum við það sem við ráðum ekki við sjálf.
Hvað segja þessi orð þá í raun, postullega kveðjan sem ég hef þetta uppáhald á? Í raun eru þessi orð ekki bæn, eða blessun eins og þau hljóma í því formi sem við þekkjum þau. Þau eru samkvæmt textanum í Filippíbréfinu fyrirheit: Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú. Fyrirheit með yfirlýsingu um það sem Guð gerir en okkur er ekki ætlað og svo fylgir hvatning um viðbrögð á grundvelli þess.
Friður Guðs mun varðveita okkur ef við stöndum stöðug í trúnni af því að Drottinn er í nánd. Svona er textinn í samhengi sínu: 1- Þess vegna, mín elskuðu og þráðu systkin, gleði mín og kóróna, standið þá stöðug í Drottni, - þið elskuð…-4- Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. -5- Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. -6- Verið ekki hugsjúk um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. -7- Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.
Já, af því að Drottinn er í nánd getum við ávallt verið glöð, og megum láta Guð vita um óskir okkar. Gleymum bara ekki þakkargjörðinni fyrir það sem hann hefur þegar gefið. - Allt þetta af því að Drottinn er í nánd. Það segir aðventan. Drottinn þinn kemur til þín, og ef þú einhvern tíma skyldir halda að hann kæmi ekki í tæka tíð þá skaltu hugsa til Lasarusar sem dó á meðan hann beið Jesú. Jesús kom samt ekki of seint til þess að veita honum hjálp sína. Hann á jafnvel úrræði sem ná út yfir gröf og dauða.
Drottinn beið fjárhirðanna á ólíklegum stað fyrir himnabarn, en hins vegar á réttum stað fyrir þá, í jötu, í gripahúsi. Þeir þekktu sig vel á slíkum stað. Þeir fóru þangað eftir tilvísun engils. Listamenn hafa myndað þennan fund og tekist mörgum hið ótrúlega að túlka frið yfir þessum aðstæðum sem hafa í raun verið allt annað en friðsamlegar. Það er eflaust vegna engilsins sem boðaði frið yfir mönnunum.
Það fylgdi Jesú aldrei neinn friður af þessum heimi. Hann var ofsóttur og undir svikráðum allan tímann. Hins vegar fylgdi honum innri friður. Hann segir: Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Minn friður er ekki eins og sá sem heimurinn gefur. - Af hverju einkennist hann þá?
Friður í Biblíunni er tengdur orðinu shalóm sem er til í öllum semítísum málum, m.a. herbresku og arabísku og er notaður í daglegum kveðjum. Það orð merkir eiginlega jafnvægi kraftanna. Það er það besta sem heimurinn gæti gefið. Jafnvægi kraftanna. Menn reyndu að byggja það upp með gagnkvæmri ógn, óganarjafnvægi, deterrance. Það hefur haldið, en litlu góðu komið til leiðar en mörgu illu: Ótta og tortryggni.
Hann er þó fagur sá friður sem ríkir yfir fólki sem er í jafnvægi; þar sem ekki er ótti og áhyggjur. Sá friður er keppikefli okkar flestra. Það er bara sá galli á þeim friði að hann kostar svo oft ófrið einhvers staðar annars staðar. Það er svo fráleitt, og við teljum okkur þurfa að berjast fyrir þeim friði! Við bindum hann félagslegu öryggi og velsæld. Við þurfum að tryggja hann með múrum og vopnum. Við byggjum hann upp með því að þrengja að öðrum og nýta okkur eymd þeirra. Þannig er sá friður sem heimurinn getur gefið bestan.
Nei, friður Guðs er ekki þannig. Hann kostar engan neitt því hann er náð, gefinn fyrir Jesú. Hvernig þá? Með því að Jesús sýndi að öllu er óhætt sem lagt er í hendi Guðs. Hann kemur aldrei of seint með hjálp sína. Of seint að mínu mati kannski, en aldrei of seint vegna þess málefnis sem ég ber fyrir brjósti. Þannig er nú það! – Þannig horfir þetta við frá sjónarhóli eilífðarinnar sem er óhagganlegur viðmiðunarpunktur á meðan allt annað er á hverfanda hveli.
Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist, sagði Jesús kvöldið áður en hann dó á krossi. Sjálfur var hann svo skelfdur að honum lá við ómegni. Það hafði enginn látið reyna á traust sitt á Guði á sama hátt áður. Hann var sá sem fyrstur leiddi í ljós líf og ódauðleika. Guð reisti hann upp frá dauðum eins og hann hafði reist Lasarus fáum dögum áður. Friður sé með ykkur sagði hann svo þegar hann hitti þá aftur upprisinn.
Það er svo umugsunarvert að það skuli vera svo erfitt að þýða það sem englarnir sungu fyrir fjárhirðanna: Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á. Latneska þýðingin segir þó með góðviljuðum mönnum. Það eru sjálfsagt þeir menn sem Guð hefur velþóknun á. Vilji Guðs er hið fagra, góða og fullkomna. Sá er einnig vilji góðviljaðra manna.
Þetta skýrir þó ekki það af hverju friðurinn nærist. Það eitt gerir yfirlýsingin á undan kveðju postulans: Drottinn er í nánd. Ég veit að þráin eftir þessum frið efur búið um sig í brjóstum okkar allra og við tengjum hann við jólin þegar enginn má vera vondur. Vopnin á að kveðja þá stund að minnsta kosti. Jólin eru í nánd en er Drottinn örugglega í jólunum? – Hvar finn ég Guð? Hvernig fæ ég friðinn?
Friðurinn þarf að leggja undir sig hjartað fyrst og fremst af því að þar eru uppsprettur elskunnar í lífi okkar hvers og eins. Þar sem er elska þar er friður. Þar er hins vegar ekki ótti, heldur kyrrlátur friður, öryggi. Fjárhirðarnir fundu Drottinn í jötu. Hjarta þitt er sú jata þar sem þú finnur Drottin þinn. Þann sem á að ríkja í þér allri, öllum.
Leitaðu því á sama hátt og vitringarnir sem fóru um fjöll og dal, um lendur hjarta þíns á þessari aðventu og þú munt finna Jesúbarnið í jötu sinni. Það eru kannski margar erfiðar ályktanir sem þú hefur áður gert sem valda torfærum. Mörg vonbrigði, tálsýnir, reiðiefni, sjálhverfar tilfinningar og fleira en þú kemst á áfangastað. Innst í hjarta þínu er hann, hefir alltaf verið en er þér kannski dulinn af því að þú ert að leita að einhverju öðru en honum.
Kannski veistu alveg hvar hann er og það er gott. Kannski vissirðu það einu sinni en ert búinn að gleyma og þó svo stutt síðan. Varðstu ekki var við hann í fegurð náttúrunnar fyrir svo stuttu? Sástu hann ekki einmitt í augum barnanna þinna eða heyrðir hann í andradrætti ástvinar þíns? Mögulega hefurðu verið að lesa í Biblíunni þinni eða biðja.
En þegar þú hefur fundið Drottin eru ávallt komin jól, hvenær árs sem það nú kann að vera.