Sennilega er það æðsta köllun mannsins að láta gott af sér leiða. Trúlega er það besta ráðið til að öðlast ró og frið, sátt við sjálfan sig. Markmið með lífinu getur verið það að ná hámarksþægindum fyrir sjálfan sig og sína nánustu en reynslan kennir okkur að það leiðir ekki nauðsynlega til neinnar hamingju.
Flest trúarbrögð sem ég þekki ganga út frá þessari forsendu að maðurinn þurfi til þess að öðlast einhvers konar sálarfrið að láta gott af sér leiða. Hjálpa öðrum, reynast öðrum vel. Þeir sem halda því að maðurinn gangi eingöngu fyrir eigin hagmunum myndu halda því fram að dýpst inni skynjaði hver manneskja að hún gæti komist í þá stöðu að þurfa hjálp. Að hjálpa öðrum væri því praktísk hegðun. Aðrir myndu segja að samúð með öðrum lifandi verum væri manninum í blóð borin. Hugsanlega hafa manneskjur með samhjálpargen lifað af manneskjurnar með sjálfshyggjugenin. Það væri þá í takt við þá fornu speki að sameinaðir stöndum vér –sundraðir föllum vér.
Og ég held að trúarbrögð, kristni meðtalin, séu ekki uppspretta góðvilja mannsins eða samúðar hans með öðrum lifandi verum. Frekar mætti segja að þau endurspegluðu þessa tilhneigingu.