Svo bar við á ferð hans til Jerúsalem, að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. Og er hann kom inn í þorp nokkurt, mættu honum tíu menn líkþráir. Þeir stóðu álengdar, hófu upp raust sína og kölluðu: Jesús, meistari, miskunna þú oss!Er hann leit þá, sagði hann við þá: Farið og sýnið yður prestunum. Þeir héldu af stað og nú brá svo við, að þeir urðu hreinir. En einn þeirra sneri aftur, er hann sá, að hann var heill orðinn, og lofaði Guð hárri raustu. Hann féll fram á ásjónu sína að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. Jesús sagði: Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur? Síðan mælti Jesús við hann: Statt upp, og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér. (Lúk. 17.11-19)
Kæri söfnuður, til hamingju með daginn! Hér er fagnað góðum áfanga og glaðst yfir vel unnu verki. Guð blessi það allt. Fyrir nærfellt hálfri öld, þegar Neskirkja var reist, þá var hún tákn nýja tímans á Íslandi. Hún var nútímalegust og best búin allra kirkna í landinu. Með safnaðarheimili því sem nú verður blessað og tekið í notkun eykst til muna og batnar aðstaða safnaðarins til þess fjölþætta safnaðarstarfs og þjónustu sem samtíminn krefst í biðjandi, boðandi, þjónandi kirkju, sem vill vera „samfélag í trú og gleði.“ Safnaðarheimilið nýja, sem klæðir þessa kirkju svo vel, veitir ákjósanlega aðstöðu og vettvang fyrir „trú og líf í opnu húsi Guðs.“ Ég þakka þeim sem að þessu verki hafa unnið vel unnið verk, sóknarnefnd og prestum þakka ég góða forystu og trúa ráðsmennsku, um leið og ég bið þeim sem njóta munu blessunar.
Ég minnti á að Neskirkja var forðum tákn nýrra tíma. Það er hún enn. Mörgum finnst hið gagnstæða um kirkju og kristni, að það sé tákn og áminning um veröld sem var. Nei, sérhver kristinn helgidómur er tákn þess sem kemur, þess heims, þess tíma, sem ókominn er, en kraftar hans eru að verki hér og nú í bæn og trú, von og kærleika.
Og Neskirkja er og verður tákn, tákn og áminning um Guðs dýrð. Allt það sem hér fer fram í helgidóminum og safnaðarheimilinu á að stuðla að því sama, vera borið uppi af því að hér er hús Guðs og athvarf manns. Kirkjan, kirkjuhúsið er framar öllu áminning um og viðleitni til að gefa Guði dýrðina.
Og það er einmitt stef guðspjallsins sem lesið var hér áðan, sögunnar af þeim tíu líkþráu, holdsveiku, sem hlutu lækningu. Þetta er kraftaverkasaga, ein margra slíkra, frásögn af undursamlegri lækningu tíu líkþrárra manna sem urðu á vegi Jesú. Þeir höfðu staðið álengdar fjær, það bar þeim að gera, þessum líkþráu mönnum. Lög trúar og samfélags settu lífi þeirra þröngar skorður. Þeir voru einangraðir frá mannlegu samneyti. Sá sem taldi sig vera orðinn heill heilsu, átti að fá vottorð um það frá prestinum, vottorð sem gæfi honum leyfi til að snúa aftur inn í mannlegt samfélag. Þetta er baksvið sögunnar.
Tíu líkþráir menn verða á vegi Jesú og hefja upp raust sína og hrópa á hjálp. Og hann segir blátt áfram: „Farið og sýnið yður prestunum!“ Það er, farið og fáið heilbrigðisvottorð! Og þeir hlýddu, umyrðalaust. Allir nema einn. Hann óhlýðnaðist þessu boði. Hann sneri við. Og hvernig bregst Jesús við? Hann segir: „Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur og gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?“ Hvar voru hinir níu? Þeir hlýddu boði Jesú og forskrift lögmálsins, hegðuðu sér eins og góðir og frómir menn. En þessi eini, útlendingur, Samverji í þokkabót, Hann snýr við og varpar sér að fótum Jesú og vegsamar Guð! Og við hann segir Jesús: „Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér!“
Tíu höfðu læknast af sárum, kaunum og benjum hins hryllilega sjúkdóms. En einn hlaut lækningu á sál, bjargaðist, varð hólpinn, - og hann var útlendingur, Samverji, það merkir á máli guðspjallsins: maður sem ekkert vissi og ekkert kunni og ekkert skildi af orði Guðs og vilja og sem enginn gat vænst þess að hann gæfi Guði eitt né neitt. Hann sneri við og gaf Guði dýrðina. Þetta er auðvitað alveg óþolandi þegar grannt er skoðað. En þetta er rauður þráður í allri samskiptasögu Guðs og manns, eins og henni er lýst í Biblíunni. Jesús lyftir fram fordæmi tollheimtumannsins, týnda sonarins, bersyndugu konunnar. Hinir sem arka sinn vel útmælda og upplýsta, breiða veg, þeir verða honum sjaldnast tilefni til gleði. En þessi, þessi útlendingur, þessi tollheimtumaður, þessi týndi sonur, þessi skækja, þetta fólk sem sér sig um hönd og snýr við, iðrast, grætur, þakkar, það fær að heyra orð eins og þetta, sem er niðurlag guðspjallsins: „Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér!“
Við getum væntanlega öll ímyndað okkur tilfinningu þessara tíu holdsveiku manna sem hlutu bænheyrslu, lækninguna þráðu? „Ó, undur lífs er á um skeið að auðnast þeim sem dauðans beið, að finna gróa gras við yl og gleði í hjarta að vera til! Hve björt og óvænt skuggaskil....“ yrkir Þorsteinn Valdimarsson, hann hafði þekkt þjáninguna, heilsuleysisstríðið, og undur heilsunnar. Sálmur hans, nr. 410 í Sálmabókinni, er mörgum gleði enn í dag. Og ekki síður vegna lagsins hans Jakobs heitins Hallgrímssonar sem hér var heimamaður í Neskirkju. Guð blessi minningu hans. Áreiðanlega hefur slík og þvílík lofgjörð ólgað í æðum og hjörtum þeirra níu er þeir hröðuðu sér til að sýna sig prestunum! En einn sneri aftur. Og það er það sem Jesús metur mest. Að snúa aftur. Það heitir öðru nafni að iðrast, snúa við, snúa sér að Guði. Vegna þess að sá þiggur aldrei neitt sem ekki kanna að þakka. Hann veit ekki af því, sem hann öðlast eða á, ekki fyrr en hann hefur misst það. Einhver sagði: „Við komum ekki auga á það besta í lífinu, heilsuna, fyrr en við erum orðin heilsulaus, æskuna fyrr en á gamals aldri og frelsið fyrr en í ánauð.“ Þetta er því miður allt of satt. Ef til vill er trú okkar einatt svo gleðisnauð sem raun ber vitni af því að við kunnum ekki að þakka, kunnum ekki að gefa Guði dýrðina. Líf og heilsa, lán og gæfa, allt er það náð Guðs, óverðskulduð gjöf Guðs, ástgjöf hans. Og kraftaverkin, sem einatt verða á vegi okkar, smá og stór, - „ tilviljanir“, segjum við einatt. En hvað er tilviljun? Tilviljun er leið Guðs til að gera kraftaverk sín í kyrrþey!
„Trú þín hefur bjargað þér!“ - þér sem snerir við og gafst Guði dýrðina. Gafst Guði dýrðina.
Ég veit um mann sem gaf Guði dýrðina.
Jóhann Sebastían Bach, tónskáldið dásamlega, skrifaði á nóturnar sínar: „Soli Deo Gloria!“ „Guði einum dýrðina!“ Það var yfirskrift lífsverks hans. En það var ekki mikil dýrðarbirta um líf hans. Það var víst allt afskaplega mikið þessa heims, líf þessa fátæka tónlistarmanns, tuttugubarna föður. Daglega mátti hann berjast fyrir stöðu sinni sem heimilisfaðir og sem listamaður. Hann stóð í deilum við ómúsíkalskar sóknarnefndir og þröngsýna sóknarpresta, hrokafulla fursta og smásmygli borgarstjórna. Stundum virðist hann sjálfur hafa verið erfiður. Og margar af messunum hans, konsertum og óratoríum geta stundum verið óþægilega langar! Samt gaf hann Guði dýrðina, dag eftir dag eftir dag, á mörgum blaðsíðum undursamlegustu tónlistar undir himninum. En daglegt líf hans var einlæg barátta við ótal bresti og vandamál frá degi til dags. Hann upplifði aldrei kraftaverk, í venjulegum skilningi þess orðs. En lífsverk hans var kraftaverk. Hann gaf Guði dýrðina, skrifaði: „Soli Deo Gloria“ á nóturnar sínar og við sem elskum tónlistina hans finnum að hún er merluð dýrðar birtu og himneskri fegurð, læknandi, líknandi, lífgandi. Er það ekki merkilegt að þegar Johann Sebastían lést þá var dánartilkynning fjölmiðlanna aðeins tvær línur þess efnis að faðir hins landsfræga og virta hirðtónskálds, Carls Philips Emanuels Bach, væri látinn. Í skammtímaminni samtíma síns gleymdist tónjöfurinn undurfljótt, og fennti í sporin hans. Kastljós frægðarinnar eru hvikul og dýrð heimsins fölnar fljótt. Trúin er enginn töfrasproti né aðgöngumiði að lausn alls vanda. Guð vinnur samkvæmt sínum sérstæða gæðastaðli og stundaskrá. Og það sannast ef til vill á Bach að þegar Guð vill blessa einhvern þá er það einhvern veginn svo að honum kemur fyrst í hug barn.
Á dögum postulanna, og víða í kristninni enn í dag kallast guðsþjónustan, messan, samfélagið við orð Guðs og borð, þakkargjörðin – evcharistía á grískunni. Sérhver kirkja, sérhver kristinn helgidómur er staður þar sem borðið stendur, borðið sem táknar návist frelsarans Krists, staður þar sem söfnuður hans snýr sér að honum með kvein sín og áköll og til að þakka, gefa Guði dýrðina og heyra læknandi orðið af vörum hans. Þessi síendurtekni atburður og iðkun þakkargjörðar, það er kristin kirkja.
Og þetta er merking þess sem hér fer fram í Neskirkju í dag. Við höfum orðið á vegi Jesú eins og þeir tíu forðum. Hann hefur mælt yfir okkur það orð sem læknar og leysir og gefur eilíft líf. Við höfum fengið náð til að snúa við og lofa Guð og þakka og gefa Guði dýrðina. Bara að við fáum þá heyrt og skynjað orð hans, hjálpræðisorðið hans er hann segir: „Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.“
Karl Sigurbjörnsson er biskup Íslands. Þessi prédikun var flutt við húsblessun Safnaðarheimilis Neskirkju, 12.sept. 2004, á 14. sunnudegi eftir þrenningarhátíð.