Um árabil hefur Þjóðkirkjan haft með höndum hótel-og veitingarekstur í Skálholti á samkeppnisgrundvelli. Skv. fjárhagslegu uppgjöri, þá er þessi starfsemi lang fyrirferðamest í Skálholti. Á siðasta ári voru tekjur af hótel-og veitingarekstri 38 milljónir, en tapið/hallinn af þessum rekstri var 10 milljónir, og þar er ekki viðsnúningur eins haldið hefur verið fram. Þannig hefur þetta verið árum saman og er óverjandi, að Þjóðkirkjan selji eignir og leggi niður prestsembætti m.a. til að greiða niður hótel-og veitingarekstur í Skálholti. Inni í ofangreindum tölum eru ekki laun hótelstjórans sem ber ábyrgð á rekstrinum gagnvart kirkjuráði og heitir sr. Kristján Valur Ingólfsson og er vígslubiskup. Það var neyðarúrræði að hálfu kirkjuráðs að kalla hann til starfans til að halda þessu á floti, enda hefur reksturinn enga burði til að borga sérstök hótelstjóralaun. Það er ólíðandi staða, að vígslubiskupi skuli skipað að bera ábyrgð á hótel-og veitingarekstri, auk þess að vera hrein misnotkun á embættisskyldum hans og er í raun dulin niðurgreiðsla af kirkjufé inn í þennan samkeppnisrekstur. Eftir stendur svo spurningin hvort kirkjan eigi og sé heimilt að standa í slíkum rekstri skv. köllun sinni og hlutverki, svo ekki sé vitnað til laga, enda hafa flestar opinberar stofnanir og fyrirtæki í óskyldum rekstri falið fagaðilum hótel-og veitingarekstur í hýbýlum sínum, þar sem svo háttar til.
Skálholt hefur verið á dagskrá því sem næst á hverjum einasta kirkjuráðsfundi s.l. 4 ár, a.m.k. þrír starfshópar hafa verið skipaðir til að gera úttekt og koma með tillögur til bjargar og allar leiðir hafa verið skoðaðar vandlega og ýmislegt reynt, en án árangurs. Með auglýsingu er verið að kanna til hlítar hvort vandaðir fagaðilar væru tilbúnir til að taka að sér hótel-og veitingareksturinn skv. skilyrðum sem kirkjan setur og taka mið af helgi, kristilegu menningarstarfi og stöðu staðarins, auk þess að geta lagt faglegt lóð á vogarskálar um að styrkja móttöku ferðamanna sem Skálholt sækja heim, og sannarlega er þörf á, en kirkjan hefur hvorki faglega né fjárhagslega burði til að mæta. Vonast er eftir að slík leiga geti gefið kirkjunni sanngjarnar tekjur, í stað þess að borga tapið á rekstrinum með kirkjufé, sem gætu nýst til að efla kristilegt menningarstarf í Skálholti sem hefur liðið sárlega fyrir fjárskort í mörg ár.
Eitt er ljóst: Það væri algjört ábyrgðarleysi að hálfu kirkjuráðs að bregðast ekki við ofangreindum aðstæðum og leita ábyrgra leiða til að bjarga Skálholti úr hremmingum. Á grafa haus í sand og láta tilfinningar hlaupa með sig í gönur með fáheyrðu og ærumeiðandi skítkasti í fjölmiðlum og á samskiptamiðlum í garð kirkjuráðsfólks, sem er að reyna af ábyrgð að standa vörð um Skálholt, er engum sæmandi, en dæmir sig sjálft. Við skulum byggja mat okkar á staðreyndum og aðstæðum, en ekki sleggjudómum og óraunsærri óskhyggju.