Þegar búddamunkarnir gengu þúsundum saman af yfirvegun og hógværð í friðsömum mótmælum um götur Rangoon í Burma á dögunum og mótmæltu spilltri stjórn landsins varð mér hugsað til mikilvægis heilbrigðrar trúar og trúarbragða í sérhverju þjóðfélagi
Þú tókst vonandi eftir því að ég notaði orðið heilbrigði í þessu sambandi. Vissulega er líka til óheilbrigð trú sem skilgreina má nánar sem öfgatrú og ennfremur sem bókstafstrú. Búddamunkarnir í Burma standa með þjóð sinni og boða lífsgildi eins og þeir hafa gert um aldir. Þeir eru að mínum skilningi fulltrúar heilbrigðrar trúar.
Allt of oft heyrum við neikvæðar fréttir af trúarbrögðum í fjölmiðlum. Heittrúaða múslima ber þar til að mynda oft á góma og svo eru einnig tínd til ýmis meint dæmi um það þegar kirkjan í heiminum eða önnur trúarsamtök eða trúarheildir fóru út af hinum rétta vegi í tilteknum málum. Og þá er gjarnan alhæft og fullyrt að allir kristnir menn eða allir fylgjendur tiltekinna trúarbragða séu einnar skoðunar. Alhæfingar eru yfirleitt vondar.
Fordæmi búddamunkanna er fagurt dæmi um trú sem vogar í kærleika. Hvað vilja gagnrýnendur trúarbragða segja um þátt þeirra í baráttunni fyrir réttlæti? Og hvað vilja þeir til dæmis segja um þátt kaþólsku kirkjunnar og Jóhannesar Páls II páfa í frelsun Póllands undir lok liðinnar aldar? Eða þátt lúthersku kirkjunnar í Austur-Þýskalandi fyrir fall Berlínarmúrsins? Eða áherslur Nelson Mandela í sáttargjörð í S-Afríku sem flestar má rekja til kristinna grunngilda? Allt of algengt er að einungis sé haldið á lofti hinu neikvæða sem getur hent öll félög eða samtök hvort sem þau teljast til trúarbragða, stjórnmálaflokka eða félaga. Í hvaða félagsskap manna sem er eru syndugir menn, ófullkomnir og fálmandi, karlar og konur, sem gera mistök, en hafa um leið mikla möguleika til að láta gott af sér leiða. Trúarbrögðin eru seld undir sömu örlög og önnur mannleg samtök.
Stundum er því haldið fram að allt muni verða betra verði trúarbrögðum útrýmt. Í því sambandi má spyrja: Hvernig tókst þeim stjórnmálaforingjum upp á liðinni öld, sem reyndu einmitt að banna alla trú og töldu að trúlaus skynsemi mannsins ein gæti fært þeim hamingjuna? Óþarfi er að rifja upp nöfn þeirra hér. Við munum þessa menn, mistök þeirra og glæpi gegn mannkyni.
Kristin trú hefur mótað okkar þjóðfélag í þúsund ár. Fyrstu menn sem hér stigu á land voru líklega kristnir munkar. Ísland er því hugsanlega eina landið í heiminum þar sem kristni hefur verið til staðar frá upphafi byggðar. Hingað komu ennfremur heiðnir menn í upphafi en þeir snerust flestir til kristni í tímans rás og hér þróaðist kristið samfélag.
Enn er samfélag okkar mótað af kristinni trú og gildum en á þó langt í land með að teljast fullkomið og verður það víst aldrei. En hver kynslóð verður að takast á við sín verkefni og leitast við að skapa hér réttlátt þjóðfélag umburðarlyndis, réttlætis og friðar. Í þeim efnum skipta heilbrigð trú og siður miklu máli, trúarleg gildi og trúariðkun. Fólk í öllum Rangoonum og Reykjavíkum heimsins þarfnast heilbrigðrar trúar.
- - - Pistill ritaður fyrir Vesturbæjarblaðið í október 2007