Almenningi ofbýður þau skelfilegu grimmdarverk sem staðið hafa um þriggja vikna skeið á Gazasvæðinu. Hjálparstarf kirkjunnar er í samstarfi við hjálparsamtök kirkna sem starfa þar að heilsugæslu og hjálparstarfi. Allt það starf er í molum vegna stríðsrekstursins, almenningur líður ólýsanlegar hörmungar, særðir og deyjandi hljóta ekki lyf og læknishjálp, og matur og nauðþurftir eru af skornum skammti.
Minnt skal á að alþjóðleg kirknasamtök og samkirkjulegar hjálparstofnanir, sem Þjóðkirkjan og Hjálparstarf kirkjunnar eru aðilar að, hafa skorað á ísraelsk yfirvöld að stöðva þegar í stað hernaðaraðgerðir sínar á Gazaströndinni, svo og á Hamas-samtökin að hætta eldflaugaárasum sínum á Ísrael. Eins er skorað á ísraelsk yfirvöld að falla frá viðskiptabanni og einangrun Gazasvæðisins, sem og að leggja stein í götu mannúðar og hjálparsamtaka sem hafa þann eina tilgang að hjálpa fólki í neyð.
Okkur ofbýður grimmdin, stigmögnun hermdarverkanna og æ harkalegri viðbragða. Hvorki Ísraelsmenn né Palestínumenn geta tryggt frið með blóðsúthellingum og eyðileggingu. Slíkt eykur einungis hatrið og kyndir undir áframhaldandi ofbeldi og illvirkjum. Vítahringur haturs og hefnda verður að rofna! Friðurinn verður aldrei tryggður með vopnum heldur einungis eftir pólitískum leiðum með samtali og samningum.
Þegar Marti Ahtisaari tók á móti friðarverðlaunum Nóbels í vetur sagði hann það smán að engin lausn hafi fengist á deilum Ísraels og Palestínu. „Engar deilur eru óleysanlegar. Ekki heldur þessar. Stríð og átök eru ekki óhjákvæmileg,“ sagði hann. „Þau eru af mannavöldum. Þess vegna geta þau sem hafa völd og áhrif stöðvað þau. Friður er spurning um vilja. Í því er vonin fólgin, og krafan til umheimsins.“
Allt góðviljað fólk hlýtur að mótmæla ofbeldi og hermdarverkum, og að sýna samstöðu þeim sem líða og þjást, umfram allt börnunum. Biðjum þess að ofbeldisverkunum linni og að réttlátur friður komist á! Hvetjum ráðamenn stríðandi aðila til að slíðra sverðin og taka höndum saman um endurreisn á friðarvegi.