Börnin

Börnin

Á visitasíu minni um Þingeyjarprófastsdæmi hitti ég mörg börn að máli í sóknarkirkjunum. Alls komu um sexhundruð börn í boðaðar guðsþjónustur. Það var gleðilegt að hitta öll þessi börn og fá tækifæri til að ræða við þau og minna þau á trúna og bænina sem er ekki aðeins lykillinn að Drottins náð heldur gæfuleiðin í lífinu, samfylgdin með Jesú og samfélagið við Guð.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
24. september 2002

Á visitasíu minni um Þingeyjarprófastsdæmi hitti ég mörg börn að máli í sóknarkirkjunum. Alls komu um sexhundruð börn í boðaðar guðsþjónustur. Það var gleðilegt að hitta öll þessi börn og fá tækifæri til að ræða við þau og minna þau á trúna og bænina sem er ekki aðeins lykillinn að Drottins náð heldur gæfuleiðin í lífinu, samfylgdin með Jesú og samfélagið við Guð. Það var uppörvandi að sjá til prestanna, hvernig þeir standa að barnastarfinu. Barnastund í Einarsstaðakirkju líður seint úr minni, þar sem börnin sungu af mikilli innlifun messusöngva sem presturinn hafði sett hreyfingar við. Kirkjan iðaði af hreyfingum þeirra og skærar barnaraddirnar lýstu gleði og himneskri fegurð.

Nú er barnastarf safnaðanna að hefjast um land allt. Víða er um að ræða metnaðarfullt og vandað starf sem nær til stórs hluta barna í yngstu árgöngunum. Starf sem oftar en ekki er borið uppi af sjálfboðaliðum sem ásamt prestunum leggja fram mikla vinnu af mikilli alúð og kærleika til þessa verkefnis. Guð blessi það allt.

Mikilvægi barnastarfsins verður seint ofmetið og ánægjulegt að sjá hve foreldrar eru líka duglegir að mæta. Víða er boðið upp á aldursskiptingu barnastarfsins sem gefur góða raun. Það er ljóst að sjónvarp og vídeó verða æ meiri áhrifavaldar í lífi íslenskra barna. En hvað mun vega upp á móti þeim áhrifum og öfluga áreiti? Þar þarf til mikla hlýju og umhyggju, styrk og festu þeirra sem barnið treystir. Og það þurfa til að koma sögur af vörum okkar sem eldri erum, sögur og ljóð, frásagnir og samtöl sem byggja upp trúnaðinn, traustið og öryggið hjá hinni smáu, saklausu sál. Og það þurfa að koma til bænir og vers sem leggja barninu orð á varir, og það þarf iðkun sem tjáir hið ósegjanlega, stóra, leyndardóm og fegurð lífsins, munstrið sem varpar ljósi á gleði og sorg, líf og dauða. Ekkert getur komið í stað þessa. Þetta er þrautreynt og prófað í aldanna rás og bregst ekki. Ástríki, umhyggja ástvina, trúin, vonin og kærleikurinn er áhrifaríkara en allt afl draumasmiðjanna í Hollywood. Og bænin er besta forvörnin, öflugust vörn gegn hretum og hreggi heimsins.

Með barnastarfi sínu er kirkjan að leggja sitt af mörkum til þess sem stuðlar að mannrækt og að uppeldi geti lagt traustan grunn að hinu góða lífi og gæfu. Guð blessi það starf og alla sem að því standa, og verndi og blessi börnin sín öll.