Syngjum af gleði því í dag er gleðidagur. Söngur er oft tákn um gleði og í gærkvöldi mátti sjá mikla gleði í sjónvarpinu þegar hver söngvari á fætur öðrum kom fram á sviðinu í Svíþjóð og söng fyrir þjóð sína í Eurovision. Við Íslendingar áttum okkar keppanda í ár eins og undanfarin ár. Eins og við vitum þá var það Dalvíkingurinn Eyþór Ingi sem söng fyrir okkar hönd lagið Ég á líf. Ekki náðum við að sigra en við gátum og getum verið stolt af Eyþóri og hans framlagi fyrir okkar hönd. Þó lagið hafi ekki náð að heilla Evrópu þá heillaði lagið okkur Íslendinga og mátti heyra marga og þá sér í lagi yngri kynslóðina raula og syngja lagið, að sumum fannst, alltof oft. En lagið fór víða því undanfarnar vikur hefur lagið verið sungið í messum um allt land enda texti lagsins ákaflega fallegur. Textinn fjallar um hvernig farið er úr erfiðleikum yfir í hamingju og gleði. Þegar manneskja á í erfiðleikum í lífi sínu þá birtist einhver í lífi hennar sem hjálpar henni og gefur henni líf á ný, gefur henni hamingju á ný. Það mætti vel ímynda sér að þarna væri verið að tala við Guð. Hann er nefnilega alltaf nálægur, í sorg og gleði.
En hvað er það sem tengir saman gleði og söng? Og hvenær syngjum við? Við syngjum í afmælum, í skólanum, með vinum, í messum.... við syngjum allsstaðar og það er eiginlega ekki til sá staður sem ekki er hægt að syngja á. Við syngjum ekki bara til að hafa gaman heldur einnig til að sýna samstöðu og samhug og þessi samhugur sést vel í Eurovision þegar Íslendingar safnast saman fyrir framan sjónvarpið og hveta sitt fólk áfram og syngja jafnvel með. Hægt er að finna ýmislegt um söng í Biblíunni en í henni segir meðal annars: „Líði nokkrum illa ykkar á meðal, þá biðji hann. Liggi vel á einhverjum, þá syngi hann lofsöng.“ (Jakobsbréf 5.13) Einnig stendur í Kólussubréfinu „Fræðið og áminnið hvert annað og syngið Guði sætlega lof í hjörtum ykkar með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum.“ (Kól. 3.16). Biblían talar ekki eingöngu um söng og söngva heldur er að finna ógrynni af söngvum og ljóðum í bókinni góðu. Helst ber að nefna Davíðssálmanna í Gamla testamentinu og Ljóðaljóðin. En það má líka nefna þrjá söngva í fyrstu tveimur köflum Lúkasarguðspjalls þar sem Guð er lofaður og honum þakkað. Höfundar söngvanna eru glaðir að hafa Guð í lífi sínu. Einn söngvanna hefst svona: „Önd mín miklar Drottin og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.“ Það er nokkuð ljóst að í dag er gleðidagur, gleðidagur og merkisdagur. Í dag er tvöföld hátíð, hér eru ungmenni sem hafa ákveðið að fylgja Jesú Kristi, gera hann að leiðtoga lífsins, en einnig höldum við uppá afmæli kristinnar kirkju. Það var á hvítasunnudeginum sem hin kristna kirkja var stofnuð. Það var þegar Símon Pétur og aðrir lærisveinar Jesú fylltust heilögum anda „og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.“ eins og segir í pistli dagsins.
Því hefur oft verið kastað fram að fiskimaðurinn og lærisveinninn Símon Pétur sé fyrsti hirðirinn á eftir Jesú Kristi, fyrsti páfi kristinna manna hér á jörðu. Þegar Símon Pétur kynntist Jesú bar hann aðeins nafnið Símon en Jesús gaf honum nafnið Pétur eða Kefas. Kefas er arameiskt orð yfir klett og gríska orðið yfir klett er Petros. Jesús sagði svo að „á þessum kletti ætlaði hann að byggja kirkju sína.“Símon Pétur stofnaði kirkjur og boðaði Kristna trú á landsvæðinu í kringum Miðjarðarhafið en endaði för sína í Róm þar sem hann var líflátinn. Í dag bera páfar kaþólikka merki fiskimannsins, merki Péturs en þegar páfar taka við embætti setja þeir upp merkið sem er hringur fiskimannsins. Þegar ég tala um kirkjur þá á ég ekki við kirkjuhúsið sjálft. Símon Pétur og margir á eftir honum hafa farið um allan heim og stofnað kristnar kirkjur eða kristna söfnuði. Það er svo söfnuðurinn sem ákveður að byggja kirkjuhúsið. Það er nefnilega þannig að fólkið er söfnuðurinn og söfnuðurinn er kirkjan. Ef það er enginn söfnuður þá er engin kirkja!
Nú hafið þið kæru fermingarbörn ákveðið að staðfesta skírn ykkar með því að fermast og játast þannig Jesú Kristi, játa því að gera hann að leiðtoga lífs ykkar. Jesús sagði: "Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar."Þið eruð að fara eftir því sem Jesús bað um, hann vildi að allir þekktu sig og þekktu Guð. Þessi orð voru lærisveinum Jesú og mörgum öðrum hvatning til að tala um og fræða fólk um Guð og styrkja þannig hina kristnu kirkju um allan heim og með fermingunni eru þið að styrkja stoðir kirkjunnar. Jesús er með ykkur alltaf, hann fer ekki neitt. Hann er ekki eins og smáforritið Snapchat, birtist ykkur en hverfur eftir örfáar sekúndur. Hugsanlega munu þið upplifa stundir þar sem ykkur finnst þið standa ein, yfirgefin og hjálparlaus. En munið að Jesús mun aldrei yfirgefa ykkur. Hann verður alltaf með ykkur en þið verðið að líka að trúa á hann og trúa að hann muni hjálpa ykkur þegar þið þurfið. Trúin á Guð og trúin á Jesús er samtal, það þýðir ekki trúa þegar þið þurfið þess og vilja svo alltaf fá aðstoð. Þið eigið, getið og verðið að tala við Guð, tala við Jesú eins oft og þið getið. Og hvernig gerið þið það? Þið getið beðið bæna, lesið Biblíuna eða gert góðverk. Þið þurfið að trúa að Guð sé með ykkur, afhverju? Jú því hann trúir á ykkur og hefur trú á ykkur. Hann trúir því að þið verið góðar manneskjur, trúir því að þið munu láta gott af ykkur leiða. En það er undir ykkur komið að standa undir þessum væntingum því það er engin annar sem tekur þá ákvörðun fyrir ykkur.
Kæru fermingarbörn, njótið dagins og njótið lífsins til hins ítrasta og þakkið Guði fyrir að hafa fjölskylduna með ykkur hér í dag, það eru forréttindi. Festið í huga ykkar það sem við höfum rætt um í vetur og munið eftir heitinu sem þið vinnið hér á eftir á þessum mikilvægu tímamótum í ykkar lífi. Gerið og hafið Jesú Krist ávallt sem leiðtoga, leiðtoga lífsins. Ég vitna í hljómsveitina Sigur rós þegar ég segi: höldum út á eftir „gróðursetjum og gefum líf og ... springum út með hendur úr vösum.“
Jesús svaraði: „Sá sem elskar mig varðveitir mitt orð og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gera okkur bústað hjá honum. Sá sem elskar mig ekki varðveitir ekki mín orð. Orðið, sem þér heyrið, er ekki mitt heldur föðurins sem sendi mig. Þetta hef ég talað til yðar meðan ég var hjá yður. En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður. Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist. Þér heyrðuð að ég sagði við yður: Ég fer burt og kem til yðar. Ef þér elskuðuð mig yrðuð þér glöð af því að ég fer til föðurins því faðirinn er mér meiri. Nú hef ég sagt yður það áður en það verður svo að þér trúið þegar það gerist. Ég mun ekki framar tala margt við yður því höfðingi heimsins kemur. Í mér á hann ekkert. En heimurinn á að sjá að ég elska föðurinn og geri eins og faðirinn hefur boðið mér. Amen. Jóh. 14.23-31a