Þegar hann var að leggja af stað, kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: Góði meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf? Jesús sagði við hann: Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður. Hinn svaraði honum: Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku. Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: Eins er þér vant. Far þú, sel allt, sem þú átt, og gef fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan, og fylg mér. En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur, enda átti hann miklar eignir. Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: Hve torvelt verður þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki. Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú, en hann sagði aftur við þá: Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki. En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: Hver getur þá orðið hólpinn? Jesús horfði á þá og sagði: Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en fyrir Guði. Guð megnar allt. Mk. 10. 17-27
Það er margt sem kallar okkur til fylgdar í erli daglegs lífs, margt sem krefst tryggðar okkar. Við höfum mörgum skyldum að gegna, gagnvart fjölskyldu okkar, samstarfsfólki og vinum. Við höfum skyldum að gegna í vinnunni, á heimilinu og svo mætti lengi telja.
En það er líka ýmislegt annað í daglega lífinu sem krefst áheyrnar og heimtar hollustu okkar. Stefnur og straumar, skoðanir, stjórnmálaflokkar, fyrirtæki, auglýsingar, vörumerki og sífellt áreiti dægurmenningarinnar. Þess er krafist í sífellt vaxandi mæli að við gerum upp hug okkar, kaupum þetta, göngum í svona buxum, þessum skóm, horfum á þetta; við verðum að móta okkur skoðanir, breyta með þessum hætti eða öðrum. Svo erum við sífellt dregin í dilka í ljósi skoðana okkar, lífskjara og lífsstíls, og það er orðið svo alvanalegt og í rauninni eðlilegur hluti menningarinnar sjálfrar að við hættum að veita því eftirtekt. Við einhvern vegin fljótum með straumnum. Menningin er ekki lengur eitthvað sem við sköpum og mótum, heldur er því öfugt farið, það er menningin sem mótar okkur og skapar, nánast frá frumbernsku, og hefur áhrif á það hvernig við hugsum og breytum. Áreitið og hinar sífelldu kröfur verða því næsta eðlilegur þáttur í tilverunni, ómissandi nánast, allavegana í þeirri merkingu að á endanum þekkjum við ekki lífið öðruvísi en svo. Lífið er orðið ein stór auglýsing eða útsala, þar sem allir eru á hlaupum, hver í kapp við annan. Og magnið tekur gæðunum fram. Við grípum í hillurnar og búum okkur til lífið eins og það er sýnt í sjónvarpinu – með þrjátíu prósent afslætti við kassann.
Ein af afleiðingum þessa nútímavædda, vestræna lífsstíls, er sú að við verðum háð. Við förum að meta lífið í ljósi þess sem við eigum og viljum. Við verðum í raun blind á annað í lífinu. Veraldlegu hlutirnir eru gjarnan sterkasta fíkniefnið. Stöðutákn, völd og áhrif. Eignir og auður í einni mynd eða annarri. Við bindumst í hjörtum okkar þessum hlutum og keppumst eftir sífellt meiru. Þetta verður primus motor í lífinu, það sem drífur okkur áfram. Við ýtum öðru til hliðar sem léttvægu. E.t.v. er það fjölskyldan sem er sett í annað sætið, makinn eða börnin. Og svo réttlætum við þetta fyrir sjálfum okkur á margvíslegan hátt. T.d. með því að segja einmitt: Ég er að þessu fyrir fjölskylduna, ég gæti nú að því sem er mikilvægast. En því er þá að sjálfsögðu þveröfugt farið. En af því að við erum háð, þá sjáum við ekki að við erum í raun að grafa undan og höggva á stoðir hins raunverulega lífs, þar sem hamingjuna og lífsgleðina er að finna í hinu smáa en raunverulega: Brosi barns, fjölskylduferðar á leikvöllinn, kvöldgöngu með ástinni sinni. Hvað dettur þér annað í hug?
Ef við áttum okkur á þessu, þá erum við nærri því sem Jesús vill segja okkur í guðspjallstexta dagsins í dag.
Nú er ég ekki að alhæfa um ykkar líf eða ykkar gildismat. Ég er eingöngu að draga upp mynd til útskýringar, mynd sem ég tel að endurspegli margt í mannlegu eðli og nútíma menningu. Það sem má sjá í þessum spegli er engin nýlunda heldur gömul mynd í nýjum búningi.
Og hún fer ekki framhjá Jesú. Jesús sér inn í hjarta hvers og eins. Hann sér hvað maðurinn geymir í fylgsnum hjarta síns. Hann þekkir hverja hugsun löngu áður en við gerum það sjálf. Jesús vill stefna okkur saman við okkar innri mann. Hið ytra fer ekki alltaf saman við hið innra. Jesús veit það. Maðurinn er gjarn á að pakka lífi sínu fallega inn án þess að gæta að innihaldinu. Það er hægt að telja sér trú um ýmislegt, eins og ríki maðurinn gerði, og fylgja ýmsu í orði kveðnu, en hin kristna skuldbinding verður að ná inn að hjarta. Hún verður að móta allt lífið, snerta alla fleti þess. Það er ekkert undanskilið. Að fylgja Jesú merkir hér að fylgja honum af lífi og sál og feta í fótspor hans. Það er hins vegar þrautin þyngri og það tekst engum átakalaust. Það þarf að færa fórnir því krafa Jesú nær lengra en boðorð á bók.
Jesús sagði: Hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera. (Mt 6.21) Jesús er ekki að fella neina dóma yfir manninum. Hann er ekki að draga okkur í dilka eftir því hvar við stöndum í þjóðfélagsstiganum. Nei, Jesús kallar alla með nafni. Hann sér hins vegar vel hverju við bindumst í hjarta okkar, hvað skiptir okkur mestu máli. Jesús sá inn í hjarta ríka mannsins og sá hvað skipti hann mestu. Sá ríki vildi réttlætingu á eigin lífi. En enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé. (Lk 12.15)
Jesús spyr ekki um útlit eða stöðu heldur um innihald, um hjartalag. Hann leitar að hjarta sem rúmar orð hans og kærleika, náð hans og fyrirgefningu. Hann leitar sér að stað í fylgsnum hjarta þíns, þar sem hann má búa og ríkja og móta líf þitt. Hann leitar að trú. Hann kallar þig til fylgdar. Jesús vill sýna þér líf sem verður ekki metið í krónutölu en er samt líf í fullri gnægð. Hann vill veita þér líf sem þar sem mölur og ryð eyða ekki og þjófar koma ekki að stela. Hann vill breyta innra eðli þínu. Hann vill hafa áhrif á þig. Hann vill breyta viðhorfi þínu til lífsins, til náunga þíns, fjölskyldu þinnar og umhverfisins, heimsins alls. Hann vill vekja með þér kærleika, samkennd og fórnfýsi fyrir öllu lífi. Trú á góðan og kærleiksríkan föður sem skapar lífið og viðheldur því.
Það þýðir að okkur sé umhugað um annað og meira en okkur sjálf og eigin stöðu. Það þýðir að við horfum lengra en nemur okkur sjálfum. Sá sem vill gefa af sjálfum sér og þjóna náunga sínum hann setur ekki lengur sína eigin velferð ofar öðru. Það reyndist hins vegar ríka manninum um megn. Hann mátti ekki til þess hugsa. Það var of stór fórn að færa. Og svo er um marga allt fram til þessa dags. Það eru til margir ríkir menn. En þegar að er gáð og horft framhjá ríkidæminu þá er heldur lítið að sjá og innistæðan rýr.
En Guð á ráð. Guð megnar allt. Þannig endar guðspjallið. Guð megnar allt. Það eru góðu fréttirnar. Fylgjum honum, hlustum á hann.