Máttur þagnarinnar

Máttur þagnarinnar

Við skulum líka temja okkur að þegja stundum, gefa okkur þögninni á vald, utan kirkju sem innan, - og hlusta með mikilli athygli á hljóðin sem okkur berast til eyrna. Við getum t.d. heyrt í trjánum þegar vindurinn hreyfir við greinum þeirra. Fyrr en síðar lærum við líka að hlusta á það sem bærist okkur í brjósti. Þá fara umhverfishljóðin að minnka og hljóma brátt sem blíður blær. Það hægist á andardrætti okkar og púlsinum og við náum virkilega að slaka á og hvíla, - í Guði. Ég er að tala um mikilvægi kyrrðarbænarinnar en margir hafa kynnnt sér hana og iðka hana hér á landi í dag. Ég held að Jesús hafi í þessu tilviki ekki beðið upphátt heldur í hljóði þar sem hann lagði tengdamóður Símonar í hendur Guðs sem læknaði hana umsvifalaust. Og lófi Guðs er nægilega stór til að við getum þar öll notið hvíldar og næringar. Þar getur hróp okkar verið þögult, hann heyrir það samt eins og segir í sálminum góða.

Einn vandi við að trúa á Guð er sá að við getum ekki séð hann. Þessi skoðun kemur oft fram hjá fermingarbörnum. Mér datt í hug að nefna þetta hér við upphaf fermingarstarfs í Hafnarfjarðarkirkju þegar börnin eru hér saman komin ásamt forráðamönnum sínum.  Vafalaust höfum við öll einhvern tíma á lífsleiðinni sagt við okkur sjálf: ,,Ég myndi svo sannarlega trúa á Guð ef ég sæi hann.“

Hér er saga sem vert er að hugsa um í þessu sambandi. Maður nokkur dró upp segl á skútunni sinn og hugðist sigla um heiminn. Vindur blés og hann sigldi þöndum seglum út á haf. Morgun einn vaknaði hann og var þá staddur á Kyrrahafinu. Eitthvað var öðruvísi en það átti að vera. Það var logn. Hann sá í fjarska fallega eyju og réri þangað. Hann sá fólk standa á ströndinni og fylltist skyndilega ótta því hann vissi ekki hvað beið hans. Þegar hann nálgaðist ströndina sá hann að fólkið brosti vingjarnlega og hann veifaði til þess. En eitt vakti furðu hans. Fólkið talaði ólík tungumál en þrátt fyrir það skildi það hvert annað. Eyjaskeggjar spurðu manninn hve langan tíma það hefði tekið hann að róa til eyjarinnar. Maðurinn hló við og sagði að hann hefði eki róið heldur hefði vindurinn fyllt seglin og borið hann um höfin. Eyjaskeggjar undruðust orð hans og spurðu: “Segl?” Hvað er það? Maðurinn benti á hvítan og rauðan dúkinn á skútunni og reyndi að útskýra málið. Þegar vindur var sterkur sigldi skútan hratt en hægt ef vindur var lítill. Eyjaskeggjar skildu ekki neitt af neinu og virtust bara enn meira undrandi en áður. Vindur? Hvað er nú það? Hvernig leit hann nú út? Hvað er hann stór? Og hvaðan kemur hann? Nú varð maðurinn sjálfur yfir sig undrandi. Blés aldrei vindur á þessari eyju eða hvað? Eyjaskeggjar litu hver á annan og hristu höfuðið. Þeir höfðu ekki hugmynd um hvað hann var að tala um. Þeir höfðu aldrei kynnst vindinum.

Hvernig gat maðurinn útskýrt fyrir eyjaskeggjum hvað vindur væri? Hvernig gat hann sannað fyrir þeim að vindurinn væri til?

 Hvað myndir þú gera áheyrandi góður?

Við getum ekki séð vindinn og við getum ekki séð Guð. Hvort tveggja er ósýnilegt. Við getum hins vegar séð hvar vindur blæs vegna þeirra áhrifa sem hann hefur t.d.á tré og vatn – já og segl.

Eitt af mörgu sem sýnir okkur að Guð er til eru þau áhrif sem hann hefur á fólk. Það breytir lífi sínu og sýnir í orði og verki hvað trúin getur orðið sterkt afl. Getur þú nefnt með sjálfum þér dæmi um manneskju sem trúin hefur haft veruleg áhrif á og hún breytt lífi sínu í samræmi við trúna?

 Frægasti einstaklingurinn er án efa Páll postuli. Áður en hann fór að trúa á Jesú þá átti hann stóran þátt í því að kristnir menn voru ofsóttir á tímum Rómverja og jafnvel líflátnir. En eitt sinn á vegferð sinni frá Damaskus til Jerúsalem þá heyrði hann að einhver talaði til hans. Það vakti furðu hans að hann sá engan í kringum sig. Röddin spurði: ,,Hvers vegna ofsækir þú mig?“  Þegar Páll spurði hver hann væri sem talaði til sín þá sagði röddin: Ég er Jesús, sá sem þú ofsækir. Í kjölfarið eignaðist Páll trú sem óx frekar en minnkaði og Páll varð einn ötulasti kristniboði sem uppi hefur verið. Páll var Jesú Kristi ákaflega þakklátur fyrir það að hafa komið með þessum hætti inn í sitt líf og sýndi þakklæti sitt í orði og verki með því að segja öðrum frá því sem fyrir sig hafði komið til þess að þeir mættu eignast trú á Jesú Krist.

Í dag getum við heyrt Jesú tala til okkar þegar við lesum guðspjöllin eða hlýðum á guðspjallstextanna lesna eins og hér í dag í kirkjunni.

Sumir segja að Guð leggi ekki meiri byrðar á okkur en við getum borið. Ég hef þó stundum efast um þessa setningu þegar ég hef í starfi mínu kynnst fólki sem hefur borið þyngri byrðar en ég kæri mig um að bera. En ég er ekki spurður að því né þú hvort við viljum bera þessar byrðar. Þær geta lagst fyrirvaralaust á okkur. Þá er mikilvægt að gefast ekki upp, leita allra ráða til að ná fyrri heilsu, treysta læknum og hjúkrunarliði, ekki síst að treysta Jesú upprisnum sem er hjá okkur í anda og spyr okkur hvert og eitt. Viltu verða heill?  Fyrir langveika er það mikil prófraun að líta á veikindi sín sem verkefni til að takast á við. Oft hef ég dáðst að æðruleysi þeirra sem aldrei hafa gefist upp heldur hafa haldið í vonina, hvað sem dynur á, um að lífið yrði bærilegra, að þau myndu ná fullri heilsu

Jesús benti á það að kærleiksboðorðið væri æðst allra boðorða.  Því bæri öllu fólki skylda að auðsýna náunganum kærleika, virðingu og tillitssemi og hjálpsemi, ekki síst á hvíldardeginum, sjöunda degi vikunnar, laugardeginum sem við íslendingar nefnum svo vegna þess að þá voru þvottar þvegnir, t.d. við gömlu þvottalaugarnar í Reykjavík.

Ég sótti Kirkjudaga í Lindakirkju í þessari viku. Þar voru í boði  fjölmörg erindi um margvísleg málefni sem koma kristinni trú við.  Þau eru öll til í streymi á kirkjan.is og hvet ég ykkur til að hlusta á þau.  Í Lindakirkju hlustaði ég á tvo presta tala um umhverfisstefnu og umhverfisstarf þjóðkirkjunnar. Þau lögðu bæði áherslu á það að við værum öll ráðsmenn sköpunarverksins og bærum ábyrgð á móður jörð. Fyrir framan þau voru grænar hjólbörur með mold og grasi og blómi.. Þau tóku moldina sér í hendur og sögðu að við værum komin af jörðu.  ,,Af jörðu ertu komin, að jörðu skaltu aftur verða, af jörðu skaltu aftur upp rísa – segir presturinn þegar hann kastar rekum.. Oftast er það gert á höfuðgafl kistunnar til að tengja þetta  þrítekna atferli við skírn viðkomandi serm jarðsunginn er. Hann var skírður í nafni Guðs, föður, sonar og heilags anda.

Mér fannst athyglisvert þegar annar presturinn talaði um kærleiksboðorðið í þessu sambandi og sagði að við ættum vissulega að koma vel fram við náungann en við ættum líka að hugsa um jörðina okkar sem náunga okkar. En kærleiksboðorðið sem Jesús kenndi lærisveinum sínum er á þessa leið. ,,Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ 

Mér finnst mikilvægt að mannleg samskipti einkennist af virðingu og hlýju, tillitssemi og græskulausri kímni en lítil saga vitnar um ráðsnilld í mannlegum samskiptum.

Strákur og stelpa voru send bæjarleið. Báru þau bala á milli sín. Strákurinn teymdi geit og var með geit í hendi en stelpan var með hænu undir annarri hendi.  Og sem þau eru að paufast þarna yfir hraunið, segir stelpan. ,,Ég er svo hrædd“  ,,Hu, við hvað ættirðu svo sem að vera hrædd?“, segir strákurinn. ,,Ég er svo hrædd um að þú kyssir mig!.  ,,Varla er ég nú hættulegur með þennan farangur,“ tautaði strákurinn og rykkti í tauminn á geitinni. ,,Uss“ sagði stelpan, ,,þú fyndir ábyggilega ráð við því. Þú mundir stinga stafnum í jörðina og tjóðra geitina við hann og hvolfa balanum yfir hænuna.“

Það má segja að jöriðin okkar stynji um þessar mundir vegna ágangs mannkyns í margvíslegar náttúruauðlindir í aldanna rás. Skógum jarðarinnar hefur t.d. verið líkt við lungun í okkar. Þeir sjá okkur fyrir súrefni. Ef þeim verður eytt þá verður mannkynið útdautt fyrr en síðar. Við stöndum frammi fyrir loftslagsvá þar sem náttúruhamfarir verða tíðari. Við sjáum þess dæmi í fréttaflutningi erlendis sem innanlands. Já, veðurfarið er að breytast í heiminum. Fólk er að deyja úr hita á suðlægum slóðum og hérlendis fer kólnandi. Það kann að vera að það stafi af náttúrulegum sveiflum. Á norðurlandi snjóaði fyrstu vikuna í júní og varp fugla misfórst og margir fuglar létu lífið.

 Ég fór til veiða í Laxá í Mývatnssveit í ágúst. Þögnin við ána vakti mig til umhugsunar um fugladauðann og reyndar fleira sem ég minnist hér á síðar. Mér fannst þögnin óma eins og vatnið, streymandi vatnið, eins og segir í sálminum góða sem heitir Hróp mitt er þögult og er nr 540 í sálmabókinni okkar. En þennan sálm sungum við í Lindakirkju á föstudaginn var í viðburði sem heitir Sálmafoss en þá sungu margir kórar sálma úr nýju sálmabókinni.

Prestarnir sem ég hlýddi á í Lindakirkju vöktu líka máls á mikilvægi þess að við hægjum á neyslu okkar og leitumst við að lifa hæglátara lífi.  Þá varð mér hugsað til þess að við lifum í umbúðasamfélagi. Ég flokka plast sem aldrei fyrr og pokinn sá er jafnan þrefalt stærri  en aðrir pokar sem ég fer með í djúpgámana fyrir utan blokkina sem ég bý í.  Við ættum ævilega að fara með poka að heiman í verslunarferð og jafnvel bakka þegar við ætlum að kaupa ófrosið kjöt eða fisk úr borði kaupmannsins.

 Hvernig getum við lifað hæglátara lífi? 

 Dagskráin hjá okkur, ungum sem öldnum, er þéttsetin, ekki síst yfir vetrartímann. Eftir skólann fara börnin á íþróttaæfingar eða  taka þátt í félagsstarfi. Og foreldrarnir eða afarnir og ömmurnar keyra börnin til og frá íþróttaæfinngum svo dæmi sé tekið. Þetta þekkjum við öll.  Börnin mæta þreytt í skólann af því að þau hafa svo mikið að gera yfir daginn og fara líka of seint að sofa. Fullorðna fólkið mætti líka taka þetta til sín. Mér gengur illa að taka mér bók í hönd á kvöldin því að mér tekst ekki að halda athyglinni nógu vel og svo sofna ég svefni réttlátra ef svo má segja og man svo ekkert hvað ég var að lesa. 

Það er alveg þjóðráð að hægja á okkur. Hægjum til að mynda á neyslu okkar. Það er alveg óþarfi að kaupa sömu flíkina í öllum stærðum á netinu í von um að ein flíkin passi eins og konan hjá Rauða krossinum minntist á um daginn í viðtali. Við skulum frekar nota áfram gömlu flíkurnar, já peysuna sem dóttir okkar eða vinur notaði forðum eða sonurinn líkt og presturinn sagði í Lindakirkju og benti á peysuna sem hann var í.  Já, hægjum á okkur.

Hvernig væri að horfa ekki á sjónvarp eða á skjáinn einn dag í viku? Og efla þess í stað samfélagið við fjölskyldu okkar og vini með því að borða kvöldmat saman og  tala saman, spila borðspil, segja sögur. Hlæja saman.  Hlusta á hvert annað eða bara sitja saman og þegja og hlusta á þögnina eins og ég gerði fyrir norðan um daginn. Að vísu heyrði ég árniðinn en hann hljómaði í mínum eyrum eins og fallegasta náttúrusymphonia. Ég hef stundum orðið var við það að hjón sem hafa lifað saman í áratugi, t.d. 60 ár, þurfa ekkert að tala saman því að þau viti hvað þau séu að hugsa.  Þetta finnst mér fallegt.

Lærisveinar Jesú lifðu sennilega mun hæglátara lífi en við. Þeir vissu ekki hvað sjónvarp var eða sími eða samskiptamiðlar og netið.  Það má segja að þeir hafi lifað saman í risastórri kúlu sem ein stór fjölskylda. Þeir töluðu saman, hlustuðu á hvor annan, borðuðu saman og mættu þörfum hvers annars fyrir kærleika og stuðning, ekki síst ef eitthvað kom fyrir ættingja þeirra eins og segir frá í guðspjalli þessa Drottins dags sem ég las hér áðan úr Markúsarguðspjalli. Tengdamóðir Símonar Péturs, lærisveins Jesú, var með sótthita. Það segir okkur að fólk á þessum tíma þurfti líka að glíma við ýmsar veirur í umhverfi sínu líkt og við sem höfum glímt við covid veiruna undanfarin ár. Á þessum tíma voru ekki til spítalar og veikt fólk lá því fyrir heima hjá sér og var sinnt af heimilisfólki eftir bestu getu. 

Í guðspjallinu er sagt frá því að Símon Pétur og Andrés bróðir hans og bræður Jesú, Jakob og Jóhannes hafi farið úr samkunduhúsinu heim til tengdamóður Símonar Péturs. Þeir sögðu Jesú frá því að hún væri veik. Jesús fór þegar með þeim og tók í hönd hennar og læknaði hana. Ég sé fyrir mér að allir á heimilinu hafi þagað á þeirri stundu, líka Jesú, þegar hann tók í hönd hennar.

Við skulum líka temja okkur að þegja stundum, gefa okkur þögninni á vald, utan kirkju sem innan, - og hlusta með mikilli athygli á hljóðin sem okkur berast til eyrna. Við getum t.d. heyrt í trjánum þegar vindurinn hreyfir við greinum þeirra.  Fyrr en síðar  lærum við  líka að hlusta á það sem bærist okkur í brjósti. Þá fara umhverfishljóðin að minnka og hljóma brátt sem blíður blær. Það hægist á andardrætti okkar og púlsinum og við náum virkilega að slaka á og hvíla, - í Guði.   Ég er að tala um mikilvægi kyrrðarbænarinnar en margir hafa kynnnt sér hana og iðka hana hér á landi í dag.  Ég held að Jesús hafi í þessu tilviki ekki beðið upphátt heldur í hljóði þar sem hann lagði tengdamóður Símonar í hendur Guðs sem læknaði hana umsvifalaust. Og lófi Guðs er nægilega stór til að við getum þar öll notið hvíldar og næringar. Þar getur hróp okkar verið þögult, hann heyrir það samt eins og segir í sálminum góða. Þar getur þrá okkar verið þögul, hann heyrir hana samt. Þar getur bæn okkar verið þögul, hann heyrir hana samt. Hún ómar í honum, ómar eins og vatnið, lifandi vatnið.

Þegar við gefum okkur þögninni á vald í bæn þá er gott að hugsa um eitt nafn sem merkir sá sem hjálpar en það er nafnið Jesús. Þá mun hann líka rétta okkur hönd sína og lækna okkur. Sú snerting mun hafa jákvæð áhrif á heilsufar okkar til líkama, sálar og anda.

Prestarnir í Lindakirkju spurðu:  ,,Hvað merkir þessi græni ltur, og bentu á grænu hjólbörurnar. ,,Ég svaraði: ,,Vöxtur”. og hugsaði um merkinguna á litum kirkjuársins. ,Nei” sögðu þeir.  ,,Græni liturinn merkir sól, að hætti grænlendinga, - sögðu þeir. Það hafði ég aldrei heyrt á minni löngu prestsskapartíð. Þá var mér hugsað til orða Jesú sem sagði um sjálfan sig. ,,Ég er ljós heimsins, hver sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkrinu heldur hafa ljós lífsins.”

Á þessum morgni höfum við gengið inn fyrir dyr helgidómsins til að láta uppbyggjast af orði Guðs í upphafi vetrarstarfs í kirkjunni okkar til að geta lifað hæglátara lífi þegar heim er komið.

Íslenska þjóðin mun ganga inn fyrir dyr Hallgrímskirkju í dag kl. 14 þegar hún fagnar nýjum biskupi sínum og biður fyrir honum en sýnt verður frá messunni í sjónvarpinu.  Þegar kvölda tekur þá göngum við að dyrum Drottins í bæn fyrir svefninn.

 Í huga minn kemur sálmur eftir Kristján Val Ingólfsson vígslubiskup.

 Drottinn minn, að dyrum þínum

dags við lok ég kem að sjá

veika styrk í sorgum sínum,

sjúka líf og heilsu fá.

Fyrr en eldar fyrst af degi

finn ég þig á eyðivegi

bera fram í bæn og trú

bæinn þann er sefur nú.

 

Má ég, Drottinn, með þér krjúpa,

mínar skuldir játa þér,

má ég hjá þér höfði drúpa,

hjálpar þinnar biðja mér?

Herra, að á hverjum degi

héðan af þér þjóna megi

þar til endar ævin mín

enn sem gefur mildin þín.

 Amen

Flutt í Hafnarfjarðarkirkju 14 sunnudag eftir þrenningarhátíð 2024

1 Kron  29. 10-14  2 Þess 2. 13-17   Mark 1. 29-35