Ill verk mannanna hafa orðið mörgum umhugsunarefni. Mestu spekingar veraldar hafa glímt við ástæðu þeirra og reynt að finna leiðir til að stemma stigu við illum verkum og hugsunum. Í náttúrunni getur að líta miskunnarleysi. Rándýr stökkva á saklausa bráð sína og rífa hana í sundur. Þau eru að seðja hungur sitt og geta ekki gert annað ætli þau á annað borð að lifa. Mennirnir þurfa líka að deyða líf í margvíslegu formi til þess að draga fram lífið. Jafnvel þau sem vilja aðeins nærast á jurtum verða að vega að rót lífsins til að afla sér fæðu. Svo er að sjá sem þráður lífsins feli óhjákvæmilega í sér að aðrir þræðir séu slitnir til þess að hann haldist óslitinn. Leið mannsins til að afla sér fæðu er honum svo að segja í blóð borin. En hún er ekki skilgreind sem illt verk í sjálfu sér. Það eru önnur ill verk mannsins sem reynast mörgum meiri þraut. Þau eru af ýmsum toga og í flestum tilvikum er rót þeirra einhvers konar eigingirni. Sá þáttur í fari manna hefur jafnan vakið umhugsun. Eigingirnin á sér engin landamæri og hversu göfugir sem menn hafa nú verið taldir þá er næsta víst að einhvers staðar hafi mátt greina lævísan svip eigingirninnar hjá þeim. Hún virðist vera hluti af eðli manneskjunnar – vefur sig um sálartetrið eins og höggormur. Það er ekki hægt að sneiða hjá orðinu synd þegar talað er um kristna trú. Sumum finnst þetta vera torskilið orð og gamaldags. Þegar orðið er skoðað og merking þess kemur í ljós að það er kannski ekki svo ýkja gamaldags né heldur torskilið. Synd er skrifuð með ypsíloni vegna þess að það er komið af sögninni að sundra. Sambandi milli Guðs og manns hefur verið sundrað. Þegar grískumælandi menn til forna skutu örvum af boga sínum og misstu marks þá var gríska orðið yfir það að syndga. Orðið merkir því að eitthvað er utan þess þar sem það á hins vegar að vera innan. Það heitir líka aðskilnaður. Maður og Guð eru aðskildir – milli þeirra er staðfest djúp. Og ekki einasta aðskilnaður milli manns og Guðs heldur líka milla manna. Allir menn eru brenndir þessu marki aðskilnaðar og þeir finna líka fyrir því að hann er ekki eðlilegur. Líf okkar allt er svo að segja mótað af þessari vitund og af henni sprettur sektarkennd. Í hugskoti allra manna má finna sjálfsupphafningu, hroka og sjálfselsku, lævísi og skort á kærleika. Andhverfa syndarinnar eða aðskilnaðarins er hins vegar náð almáttugs Guðs í Jesú Kristi. Náð sem tengir menn saman, náð sem sameinar líf hugar hugar og handar. Kærleikur. Á Snæfellsnesi var gömul kona sem sagðist sjá guðdómlegar sýnir. Presturinn hennar krafðist þess að hún sannaði að sýnirnar væru frá Guði komnar. Hann sagði við hana ákveðinn og alvarlegur í bragði: „Næst þegar þú sérð þessar sýnir skaltu spyrja Guð um syndir mínar sem hann einn veit um og enginn annar.“ Mánuði síðar kom konan á fund prestsins og hann spurði hvort hún hefði eitthvað að segja af guðdómlegum sýnum. Hún kvað svo vera. Hafði hún lagt spuringinu hans fyrir Guð? „Já,“ svaraði hún hikandi á svip. Prestur beið spenntur eftir því að heyra hvað almættið hefði sagt. Hún horfði um stund á prestinn og sagði svo stundarhátt að Guð hefði beðið hana um að skila því til prestsins að hann hefði gleymt öllum syndum hans. Djúpið milli Guðs og manna er brúað af kærleika. Gleymska getur nefnilega verið birtingarmynd kærleikans. Við getum spurt hvort allir aðrir nema við sjálf hafi gleymt einhverju atviki úr lífi okkar þar sem við gengum fram af hörku og illsku. Það er oft svo að bresturinn í eðli mannsins, syndin, er honum sjálfum ekki gleymdur. Táknmyndir mannkyns er að finna í Adam og Evu. Guð skapaði manninn og dásemdin skín af því verki hans en um leið gengur maðurinn um með höggorm Edensgarðs í sálu sinni. Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég. (Rómverjabréfið 7.19), sagði postulinn Páll þegar hann velti manneðlinu fyrir sér – þessari mótsögn sem virðist þrífast með undarlegum hætti í hugum manna: höggormur og kærleikur.