Við erum stödd í ögn fyndinni messu. Söfnuðurinn nýtir sóknarprests-hléið til að rifja sig upp ef svo má að orði komast og liður í því er að draga okkur Sigurbjörn á flot. Og það þurfti nú svo sem ekki að draga okkur beinlínis því við vorum satt að segja búnir að ræða það að gaman væri að skella í eina Laugarnesmessu eða svo. Gunnar, Hildur Eir, Gunnhildur, Þorvaldur Halldórs og öll hin geta ekki á heilum sér tekið að vera ekki með okkur í dag og við sendum þeim kveðjur.
Ég man einu sinni á þeim árum þegar hvað mest gekk á hér í denn og Laugarneskirkja var að springa af aktífisma að það kom sunnudagur með messu og sunnudagaskóla þar sem allt iðaði af lífi og svo tók við troðfull kvöldmessa kl. 20. Ég hafði flutt sömu tímamóta-prédikun að eigin mati í báðum messum sem fjallaði um eitthvert knýjandi álitamál í samfélaginu í bland við trúararfinn og sitt sýndist hverjum eins og alltaf.
Svo var kominn mánudagseftirmiðdagur og við sátum ég og Jóna Hrönn og fleiri vígreifir umbótamenn í stofunni heima á Selvogsgrunni og það var verið að ræða um kristin gildi og samfélagsmál yfir kaffi og kruðiríi. Prédikunin mín, þessi flétta af kristnum grunngildum og framsæknum feminisma, var kominn á vefinn, kommentakerfið var logandi og allt að gerast. Þá sé ég að gemsinn blikkar, ég rýni í skjáinn tek upp símann, sýni viðstöddum og segi: það er Stöð tvö! Ég rís á fætur, geng afsíðis og á meðan ég leyfi símanum að hringja ögn lengur leita ég í hraði í huga mér eftir aðalatriðum máls til að leggja fram við fréttamanninn. Þrýsti loks á hnappinn og segi með ábyrgu en jafnframt glaðværu röddinni, 'Já, þetta Bjarni.' 'Sæll Bjarni, þetta er á Stöð tvö.' 'Nefnilega, hvað get ég gert fyrir þig?' 'Við erum að kynna nýja áskrift og vorum að hugsa hvort þú hefðir áhuga...'
Ég hef áreiðanlega verið heldur fánalegur á svipinn þegar ég gekk aftur inn í stofu með slökktan gemsa.
Guðspjallstextinn segir frá veislu og fjallar um góða veislusiði og minnir á þá ævafornu vitneskju að oflæti veit á fall og dramb er falli næst eins og við heyrðum líka áðan lesið úr Orðskiðum Salomons.
Eitt af því sem ég hef alltaf verið svo þakklátur fyrir hér í þessari kirkju er lekinn í þakinu. Þessi sífelldi leki sem alltaf er á dagskrá hvers einasta sóknarnefndarfundar og aldrei, aldrei finnst varanleg bót á. Þegar hættir að leka í kirkjuskipinu má ganga að lekanum vísum í safnaðarheimilnu og öfugt. Elstu menn muna ekki lekafrítt ár í þessu húsi og heimildir herma að Laugarneskirkja hin forna sem stóð í 900 ár hér úti á nesinu sjálfu hafi ætíð verið lek og jafnvel saggafull. Þessir gremjulegu dropar sem leysa upp málningu og skemma gólfefni eru okkur sífelld áminning um að ekkert sem gerist í þessu húsi er fínt. Vilji menn fínt er fátt hingað að sækja.
Jesús tekur eftir því í sögu dagsins að ýmsir eru komnir í hús fariseahöfðingjans í þeim erindum að sýna sig og sjá aðra í hagstæðu ljósi, reynast öðrum fínni. Og það sem hann gerir er að hann ávarpar vandann, tekur dæmi og segir:„Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið að manni þér fremri að virðingu sé boðið og sá komi er ykkur bauð og segi við þig: Þoka fyrir manni þessum. Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti.“ - Við gætum sagt að Jesús hafi með orðum sínum boðið veislugestum upp á örlítinn þakleka, rétt svona til að minna þau á að vera ekki of fín.
Upphringingin sem ég fékk ungur og metnaðarfullur frá áskriftardeild Stöðvar tvö var svona þakleki frá Guði til mín. Persónulegur þakleki. Áminning um að lífið er ekki fínt, enginn er aðal. Annað hvort komumst við öll saman í mark eða við komumst ekki í mark yfir höfuð.
Myndin af veislunni er ein algengasta sviðsmyndin í Nýjatestamenntinu. Fyrsta kraftaverkið vinnur Jesús í veislu, iðulega tekur hann líka dæmi af veilsuhaldi í sögum sínum og andstæðingar hans kölluðu hann m.a.s. mathák og vínsvelg. Í sagnaheimi meistarans frá Nasaret er veislan tákn fyrir veruleikann. Hún er nokkurs konar túlkunarrammi fyrir lífið sem okkur er gefið, lífið eins og það raunverulega er. Gjafari lífsins býður öllum til veislu og veislugleði er í eðli sínu eitthvað sem enginn nýtur einn. Eða hefur þú komið í veislu þar sem einn leikur á alls oddi en allir aðrir eru niðurdregnir? Nei, veislugleði eru gæði sem einungis er hægt að njóta með öðrum. Þannig eru gæði lífsins. Þeirra verður einungis notið í samfélagi og tengslum. Gætir þú ímyndað þér hundrað manna veislu þar sem einhver einn væri búinn að graðka til sín helminginn af hlaðborðinu en hinir 99 mættu gera sér restina að góðu? - Jú, raunar! Raunar erum við öll einmitt í slíkri veislu. Var það á þessu ári eða því síðasta sem það mark náðist að 1% jarðarbúa á meira en 50% allra eigna á jarðkúlunni? Og sú þróun heldur áfram. Einn er með helminginn af hlaðborðinu handa sér! Síðast í sumar lónaði hér úti fyrir hafnarmynninu táknmynd þessa fáránleika; 30 miljarða einkabátur. Muniði eftir honum?
Vitið það að nú eru nýjir hlutir að gerast í þessum málum? Sameinuðu þjóðirnar eru að benda á það, Frans páfi skrifaði heilt umburðarbréf um málefnið og Lútherska heimssambandið er fullur þátttakandi í samtalinu ásamt mörgum fleiri veislugestum. Það er komið fram algerlega nýtt sjónarhorn á misskiptingu veraldarinnar sem gerir það að verkum að allir menn í heiminum hvort sem þeir sigla einkasnekkju með þyrlupalli eða ganga berfættir standa hlið við hlið og verða að viðurkenna að annað hvort komumst við öll í mark eða enginn kemst það yfir höfuð. Ef við notum dæmi Jesú af veislunni má lýsa því svo að gestgjafinn komi gangandi að mannkyni þar sem það er búið að koma sjálfu sér fyrir í efsta sæti og segi: Þokaðu fyrir þessum gesti.
Laugarneskirkja stóð hér úti á tanganum í 900 ár og lak allan tímann. Hve mörg þúsund ár hefur Lóan fagnað vori á þessum sama tanga? Heldur þú að hún hafi saknað breytinganna þegar hið forna kirkjuhús féll í hinsta sinn?
Við vitum í dag að manneskjan er ein alnýjasta lífveran í vistkerfinu og jafnframt einhver sú viðkæmasta og háðasta. Við erum afurð miljónaára þróunar berandi í okkur erfðagen annara skepna sem komu hingað á undan okkur. Við getum ekki lifað án vistkerfisins en vistkerfið þarf ekkert á okkur að halda. Og nú er svo komið að það væri betur sett án okkar en með okkur. Spurningin sem mannkyn stendur frammi fyrir í ljósi loftslagsbreytinga af mannavöldum er sú hvort því auðnist að hlunkast á fætur þar sem það er búið að hjassa sér í efsta sæti í salkynnum lífsins og þoka sér á viðeigandi stað áður en gestgjafinn kallar á dyravörðinn.
Það sem Frans páfi, SÞ, Lútherska heimssambandið o.fl. hafa verið að benda á er það að hugarfarið sem veldur fátækt, misskiptingu og öðru ranglæti er sama hugarfar og ruplar og rænir vistkerfið. Hrokinn sem jaðarsetur fólk jaðarsetur líka vistkerfið. Þess vegna verður annar vandinn ekki leystur án hins. Annað hvort auðnast okkur að breyta háttum okkar þannig að umgengni við menn og náttúru verða með sjálfbærum hætti eða menningin í þeirri mynd sem við höfum þekkt hana er að byrja að þurkast út. Og þá skiptir engu máli hvort þú ert þyrlueigandi eða berfættur, kristinn eða múslimi, staight eða gay. Þessar spurningar eru bara ekki þær stærstu lengur. Annað hvort erum við að fara að komast saman í mark eða enginn kemst í mark. M.ö.o. hugmyndin um séreignina, afrek einstaklingsins, sigur mannsandans yfir náttúrunni, manninn sem kórónu sköpunarverksins og allar hinar mannmiðlægu hugmyndirnar okkar sem trú, stjórnmál og viðskiptalíf hafa sameinast um í okkar menningu síðustu ca. 300 árin eru í þann mund að verða - og eru nú þegar orðnar - að forneskju. Manneskjan er ekki aðal. Maðurinn í heiminum er bara þátttakandi, veislugestur sem þarf að tileinka sér raunhæfa sjálfsmynd og læra að haga sér.
Heimsmynd miðalda með himin, jörð og helvíti er löngu fallin. Nú erum við að byrja að kveðja heimsmynd nútímans þar sem maðurinn situr í veröldinni miðri og allt er handa honum einum, fyrir hann og til hans. Við getum ekki lengur þybbast við og látið eins og hinn mennski einstaklingur sé miðdepill veruleikans af því að staðreyndirnar hrópa á okkur úr öllum áttum. Tími mannhyggjunnar, húmanismans, er liðinn því mannsandinn veit í gegnum náttúruvísindi, heimspeki, trú og listir að maðurinn er bara þátttakandi í formum og ferlum lífs á jörð þar sem allt er innbyrðis tengt og háð.
Í öllu þessu er stórkostlegt að hugsa til þess að eitt stendur óhaggað. Trúin á höfund lífsins sem gerst hefur eitt með allri sköpun í Jesú Kristi. Trúin á Guð sem gerst hefur maður og þannig samsamað sig sjálfu vistkerfinu og vill leysa allt sem lifir til lífs með sér.
Ég er ekkert viss um að Páll postuli hafi sjálfur skilið það sem hann skrifaði fylltur heilögum anda þar sem stendur í 8. kafla Rómverjabréfsins: „Sköpunin vonar og þráir að Guðs börn verði opinber.“ Og svo lýsir hann þeirri kristnu von að „sköpunin verði leyst úr ánauð sinni undir hverfulleikanum og fái frelsið í dýrðinni með börnum Guðs." (Róm 8. 19-21) Ég skil þetta alltént ekki þótt ég sjái ríka ástæðu til að treysta því.
Öll sköpunin, vistkerfið eins og það leggur sig, allt heimsins efni og kraftar, allt vonar það og þráir! Ég skil það ekki þótt ég trúi því fyrir heilagan anda að Guð holdgast eða raungerist í veruleikanum.
Það var þá ekki misheyrn í vor þegar lóan söng og hjarta þitt tók viðbragð af fögnuði. Hún var að flytja þér góðu fréttina um frelsið í dýrðinni. Það er þá ekki rangtúlkun þegar þú skynjar fögnuð í andvara haustsins og þegar blöðin byrja að falla af trjánum þá veistu að þau falla ekki til einskis. Þau deyja til að lifa eins og Jesú gaf líf sitt heiminum svo að öll jörðin megi vera líkami Guðs.
Og þegar við göngum að altarinu til að þiggja líkama og blóð frelsarans Jesú þá er það í raun kröfuganga. Altarisganga er kröfuganga þar sem við krefjum sjálf okkur um að vera hluti af lausninni en ekki vandanum. Við knýjum á gagnvart sjálfum okkur, ýtum við okkar betri vitund um að viðurkenna að við erum hvorki meira né minna en manneskjur, þátttakendur í undri, samferða öllu sem lifir til móts við frelsið í dýrðinni. Lífið á jörðinni, og allt skapað, mun ná sínu marki án okkar manna, en við munum annað hvort komast öll saman í mark eða ekkert okkar nær því yfir höfuð. Hjálpræðið er ekki einkaafrek. „Allt sem þið gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þið ekki heldur gert mér“mælti Jesús. (Matt. 25. 45) Sjálf jörðin er hinn nýji fátæki sem ásamt öllum hinum sem einnig líða hrópar á okkur um að lifa af ást og ábyrgð og Guðs orð í heilagri ritningu minnir okkur á að vinna að sálarheill okkar með ugg og ótta. (Fil 2.12.)
Amen.
Lexía: Okv 16.16-19 Pistill: Ef 4.1-6 Guðspjall: Lúk 14.1-11