Hvers vegna tilhlökkun heilags anda?

Hvers vegna tilhlökkun heilags anda?

Það var enginn nærri en hún skynjaði öryggið, hún vissi að Kristur gekk með henni í einsemd sinni. Trú hennar óx og styrktist. Þarna gerði Kristur vart við sig í gegnum aðstæður sem hún þekkti. Hann snerti við trúarstrengnum og gaf henni öryggi og frið inn í erfiðar aðstæður.
fullname - andlitsmynd Bára Friðriksdóttir
20. maí 2012
Flokkar

Biðjum. Verkin mín Drottinn þóknist þér, þau láttu allvel takast mér, ávaxtarsöm sé iðjan mín, yfir mér hvíli blessun þín. í Jesú nafni Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hvers vegna tilhlökkun heilags anda?

Gleðidögum kirkjunnar lýkur eftir viku. Það þýðir samt ekki að gleðin leggist af. Gleði undangenginna daga hefur einkennst af því að Kristur er upprisinn. Gleðin og eftirvæntingin framundan tengist fyrirheiti Jesú um nálægð og kraft heilags anda, sem mun birta Krist í hjörtum okkar. Þegar lærisveinarnir heyrðu konurnar koma með skilaboð englanna um að Jesús væri upprisinn þá trúðu þeir ekki. Þeir gátu ekki skilið hvaða fásinnu þær fluttu. Jafnvel þegar Kristur hafði birst þeim sjálfur upprisinn þá var undrunin svo mikil að lærisveinarnir gátu ekki meðtekið það allt strax.

Þeim er vorkunn, hvenær hafði það heyrst að maður risi upp frá dauðum? Það var ekki til í hugsun þeirra og jafnvel þó að Jesús hafi talað um það fyrirfram þá skildu þeir það ekki. Efasemdamaðurinn Tómast trúði ekki fyrr en hann stakk fingri í sárið.

Við erum stundum eins. Við getum ekki þreyfað á Jesú á sama hátt og lærisveinarnir. Við þurfum að stíga inn í trúnna eins og þeir þurftu líka, því þrátt fyrir að þeir sæju og gætu þreyfað á, þá var það ekki nóg. Dagana eftir upprisu Jesú voru þeir bæði hræddir og glaðir. Skelfdir yfir því að hljóta kannski sjálfir sömu örlög og Jesús. Þeir rifjuðu upp orðin sem hann hafði sjálfur sagt þeim: „Já, sú stund kemur að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu. Þetta munu þeir gera af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig.“ (Jóh. 16.2,3)

En þeir voru líka glaðir, því þeir höfðu séð Drottin. Trú þeirra styrktist því þrátt fyrir dauða Jesú þá voru það ekki endalokin. Hann hafði líka sagt þeim að þau sem tryðu á hann myndu lifa að eilífu. Þetta voru þeir allt að melta. Óttinn hafði samt yfirhöndina, gleðitíðindin voru ekki gengin djúpt inn í vitundina.

Tveir lærisveinar á leið til Emmaus voru að ræða alla þessa atburði þegar Jesús slóst í för með þeim. Þeir vissu ekkert hver hann var en á meðan hann upplauk fyrir þeim ritningunum þá brann hjartað í þeim. Þeir skildu ekki að það var Jesús fyrr en hann gerði kunnuglegu athöfn. Hann braut brauðið og blessaði það. Þeir skynjuðu og skildu en þá var hann horfinn. Það er stundum líka svona í okkar lífi. Augu okkar eru blinduð eins og lærisveinanna. Þeir urðu hans ekki varir, samt brunnu hjörtun í brjóstum þeirra þegar hann útskýrði ummerki Krists í Biblíunni. Við upplifum okkur stundum ein í tilverunni, sjáum ekki ummerki Guðs í lífi okkar, skynjum ekki nærveru hans og þó er hann nærri. Eins og sálmurinn segir svo fallega: Nær en blærinn, blómið, barn á mínum armi, ást í eigin barmi, ertu hjá mér, Guð.  Sb Sigurbjörn Einarsson

Fyrir löngu heyrði ég íslenska konu vitna opinberlega um hvernig trúin á Krist hefði hjálpað henni. Þegar þau hjón fóru út að ganga hafði hann að vana að leggja hönd sína á öxl hennar og konan fékk af því öryggiskennd. Þau áttu mörg lítil börn á þessum tíma. Skömmu síðar sat maður hennar í fangelsi. Þegar hún gekk einhverju sinni ein í borginni full af vanlíðan fann hún hvernig hönd var lögð á öxl hennar. Það var enginn nærri en hún skynjaði öryggið, hún vissi að Kristur gekk með henni í einsemd sinni. Trú hennar óx og styrktist. Þarna gerði Kristur vart við sig í gegnum aðstæður sem hún þekkti. Hann snerti við trúarstrengnum og gaf henni öryggi og frið inn í erfiðar aðstæður.

Það sama má segja um Maríu Magdalenu í kirkjugarðinum. Hún þekkti ekki Jesú upprisinn í sjón. Það var fyrst þegar hann nefndi nafnið hennar eins og enginn annar gerði að hún vissi að hér færi Drottinn hennar.

Þannig er Guð líka nærri okkur. Eins og órafjarri en samt svo nærri. Við þurfum bara að opna sálargluggann og vera vakandi fyrir því hvernig Guð getur birst okkur. Það getur gerst eins og hjá íslensku konunni að við fáum djúpan frið inn í ómögulegar aðstæður. Það gæti verið bænasvar. Það gæti birst í öðru fólki sem veitir okkur gleði, uppörvun, umhyggju eða raunverulega vináttu. Guð getur birst okkur í mörgum myndum en við tökum ekki eftir því nema við leyfum innri nemanum í okkur að vera opinn og tilbúinn. 

En hver er þessi innri nemi? Í lexíu dagsins ávarpaði Guð sitt fólk og sagði: „Ég mun … setja helgidóm minn mitt á meðal þeirra …. Bústaður minn verður hjá þeim og ég verð Guð þeirra og þeir verða þjóð mín.“ (Esek.37.27) Jesús sagði helgidóm Guðs búa innra með okkur. Það sem Guð kemur með af sjálfum sér í bústað okkar er kærleikur, djúpur friður, gleði, hógværð, trúmennska og bindindi (Gal.5.22). Það eru gjafir heilags anda. Nú er góður tími til að opna helgidóm sinn og vænta þessara gjafa andans. Það sagði líka í pistlinum: „Sérhvert ykkar hefur fengið náðargáfu. Notið þær og þjónið hvert öðru eins og góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. (1. Pét. 4)

Keppikefli ellinnar

Mig langar að segja ykkur aðeins frá öldrunarnámi sem ég er í. Það hefur kennt mér að aldraðir geti haft nokkuð um það að segja hvernig þeim líður við minnkandi færni og varnarleysi gegn ógnunum sem steðja að. Það sama gildir um alla að við höfum oft á tíðum lítið um það að segja hvaða sjúkdóma við fáum, slys geta hent alla og efnahags–þrengingar og önnur óáran. Í ofanáalag búa aldraðir við það að þverrandi máttur ellinnar sem sækir á er eins og dropinn sem holar steininn. Ein af megin niðurstöðum í stórri rannsókn um samband heimilis og heilsu, sem gerð var í fimm Evrópuríkjum sýndi að fjöldi hindrana á heimilinu er ekki aðalvandinn til að fólk geti búið vel og haldið heilsu í sínu eigin rými, heldur er það magnið af aðgengileika fólks sé nóg til að geta nýtt heimili sitt til að eiga þar innihaldsríkar athafnir, að notkunarmöguleikar þeirra til að athafna sig séu fyrir hendi. Til að umorða niðurstöðuna á mannamáli tek ég dæmi. Kona sem alltaf hefur haft gaman af hannyrðum hún þarf að hafa stól að sitja í og gott ljós. Hún er veikburða á fótum en þetta veitir henni ánægju. Ef stóllinn er djúpur og erfitt að komast upp úr honum þarf hún að hafa við höndina styrkan staf sem getur hjálpað henni að komast upp úr stólnum þegar hún þarf. Stafurinn verður hjálpartækið til að gera aðgengi hennar gott og hana sjálfbjarga. Hún þarf einnig að hafa ákveðinn stað til að geta geymt hannyrða–dótið þar sem hún getur auðveldlega náð í það. Með því að búa til þennan litla stuðning þá er ýtt undir að manneskjan geti haft notagildi af heimili sínu og fundið innihaldsríka merkingu í daglegu dútli. Tökum sem dæmi einhleypan karlmann sem sér mjög illa og hefur mikið yndi af boltaíþróttum. Það þyrfti að passa upp á að allir hlutir væru alltaf settir á sama stað svo að hann gæti gengið að þeim vísum. Það myndi hjálpa að hafa stórar skýringamyndir eins og t.d. á símanum svo að það auðveldaði honum samskipti. Það þyrfti að fjarlægja þröskulda og hættulega fyrirstöðu á gólfinu. Hvað meira? Hann þyrfti að hafa stóran sjónvarpsskjá, fjarstýringu með stórri skýringamynd og góðan stól þar nærri svo að hann gæti notið þeirrar ánægju að horfa á íþróttir. Það myndi líklega líka auðvelda honum lífið að fá heimsendan mat eða geta gengið í matsalinn eins og hér. Rýmið sem þarf fyrir hvern og einn er ekki aðalmálið og ekki hindranirnar. Það er hægt að gera ýmsa smáhluti inn á ykkar herbergjum til að auka notagildi þess út frá ykkar þörfum og þannig auka velsæld ykkar sem um leið hefur góð áhrif á heilsuna. Ef aðgengið í sálinni eflist um leið og aðgengi til að yfirvinna hindranir er bætt þá vex notagildi rýmis ykkar og vellíðan í því. Af öllu sem ég hef lært er mjög mikilvægt fyrir heilsuna að hreyfa sig daglega og rannsóknir sýna að aldraðir geta bætt heilmikið getu sína í því, en það er líka fljótt að fara niður á við þegar æfingum er hætt.

Hvernig sem líkaminn lætur þá langar mig að uppörva ykkur með  orðum Páls postula er sagði: „Fyrir því læt ég ekki hugfallast. Jafnvel þótt minn ytri maður hrörni þá endurnýjast dag frá degi minn innri maður.“  (2. Kor. 4.16) Það er þessi helgidómur innra með okkur. Mín reynsla er sú að þar ryðgar ekkert né skemmist af elli. Þar er uppspretta hins góða sem kemur frá Guði. Við eigum að sækja í þessa uppsprettu með því að bjóða heilagan anda Guðs velkominn inn í líf okkar. Af þeirri uppsprettu vex löngun okkar til að gleðja aðra, vera vinur, vera stuðningur í því að gera notagildi lífsins og gleði meiri. Þess vegna væntum við með tilhlökkun heilags anda á hvítasunnudag.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.