Að reyna okkar besta

Að reyna okkar besta

Henni líður best þegar það fullt af fólki í kringum hana og nóg að gera. Þegar hún þarf ekki að vera ein með hugsunum sínum. Þegar allt er orðið hljótt í húsinu líður henni ekki vel. Þá fer hún að hugsa. Þá fer hún að finna til .Stundum skoðar hún heimasíðuna hjá Stígamótum en hana brestur alltaf kjarkinn til að hafa samband. Afleiðingarnar geta orðið svo skelfilegar
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
12. febrúar 2012
Flokkar

1. Það sem féll hjá götunni eru þau sem heyra orðið en djöfullinn kemur og tekur það svo að þau verði ekki hólpin.

Hann var 14 ára þegar hann byrjaði að drekka. Hann hafði alltaf staðið sig vel í skóla, fengið háar einkunnir og lítið þurft að hafa fyrir náminu. En þegar hann nálgaðist unglingsárin varð honum ljóst að það þótti ekki flott að fá góðar einkunnir. Svölustu krakkarnir voru þau sem féllu eða rétt skriðu, þessi sem létu sig einkunnir og skóla engu varða.

Hann langaði að verða eins og þau!

Hann hætti að læra og fór að hitta krakkana á kvöldin fyrir utan félagsmiðstöðina. Þar drukku þau brennivín í kók eða Toppdjús því það var ódýrara. Mestu töffararnir voru þeir sem urðu drukknastir en líka þeir sem þoldu mest. Svo það var bara að byggja upp þolið.

Það var enginn sem sagði honum að þetta væri ekki í lagi. Hann fékk að vera úti eins lengi og hann vildi á kvöldin. Pabbi og mamma voru sofnuð þegar hann kom heim. Ef hann kom heim. Hann lifði bara fyrir stundina. Fékk sér smók og brennivín sem smá saman breyttist í önnur efni. Sterkari.

Auðvitað hafði fjölskyldan áhyggjur af honum. En hann var komin svo langt á neyslubrautinni þegar þau áttuðu sig á að þetta var vandamál.

Hann kláraði aldrei 10 bekkinn. Fór á unglingaheimilið í smá tíma. Fór að vinna.

Hann var vinsæll hjá stelpunum lengi vel. Var orðinn pabbi 18 ára. Hann bjó aldrei með barnsmóður sinni. Sem betur fer. Það var ekki hægt að búa með honum. Hann var stundum í sambúð en þær enduðu alltaf illa. Konan komin í kvennaathvarfið en sjaldnast var hann þó kærður fyrir ofbeldið sem hann beitti þær.

Þegar hann var tæplega fimmtugur varð andlát náins vinar og neyslubróður til þess að hann rankaði við sér. Meðferðirnar voru svo sem orðnar margar en hann hafði aldrei tekið þær alvarlega. Hann bjó hjá aldraðri móður sinni, var ekki í sambandi við börnin sín. Lífið hafði einhvern veginn farið framhjá honum á meðan hann var að passa upp á að vera alltaf í vímu.

Ég bið og vona að meðferðin hafi áhrif í þetta skiptið, að hann sjái meiri tilgang með lífinu en hann hefur gert hingað til. Að hann fari að taka þátt og finni að hann er elskaður. Að hann finni, heyri og sjái að Guð er!

2. Það sem féll á klöppina eru þau sem taka orðinu fagnandi en hafa enga rótfestu. Þau sem trúa um stund en falla frá á reynslutíma.

Hún er ósköp venjuleg stelpa. Kona. Alin upp í sjávarþorpi fyrir vestan. Átti þokkalega hamingjusama æsku…eða það er það sem hún segir við sjálfa sig og aðra. Hún er ekkert að minnast á það sem ekki má tala um. Það sem gerðist svo oft þegar hún var unglingur. Hún vill ekki vera að eyðileggja fyrir honum. Henni þykir líka svo vænt um hann. Hann er jú pabbi hennar.

Hún giftist æskuástinni heima en það entist ekki lengi. Hann var samt alltaf góður við hana og hún við hann. Það vantaði bara alltaf eitthvað og eftir 5 ára hjónaband og þrjú börn safnaði hún í sig kjarki og þau skildu. Það var erfitt en hún var bara eitthvað svo dofin.

Hún hafði alltaf verið kristin. Fór í sunnudagaskólann þegar hún var lítil. Var í KFUK á tímabili. Ferðalögin með þeim voru svo skemmtileg.

Hún trúði á Guð og leið vel í kirkju. Það var bara einhvern veginn aldrei tími til að fara og kannski ekki það fyrsta sem henni datt í hug að gera á sunnudagsmorgnum, þegar hún loksins fékk að sofa út.

Eftir skilnaðinn flutti hún suður. Tók loksins stúdentinn og byrjaði í sálfræði. Hún hætti þó fljótlega því það gekk bara ekki upp að sjá fyrir sér og þremur börnum í Reykjavík á námslánum.

Nú er hún í vinnu sem hún er sátt við. Henni gengur vel og veit að fólkið á vinnustaðnum ber virðingu fyrir henni.

Hún á bara svo erfitt með að vera ein.En hún á líka svo erfitt með að hleypa einhverjum nálægt sér. Sérstaklega karlmönnum. Hún treystir þeim ekki alveg.

Henni líður best þegar það fullt af fólki í kringum hana og nóg að gera. Þegar hún þarf ekki að vera ein með hugsunum sínum. Þegar allt er orðið hljótt í húsinu líður henni ekki vel.

Þá fer hún að hugsa. Þá fer hún að finna til.

Stundum skoðar hún heimasíðuna hjá Stígamótum en hana brestur alltaf kjarkinn til að hafa samband. Afleiðingarnar geta orðið svo skelfilegar.

Hún finnur einhvernveginn ekki leiðsögn Guðs í þessu öllu saman en hún hefur ekki heldur alveg ró í sínum beinum til þess að biðja um hana.

3. Það er féll meðal þyrna eru þau sem heyra en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt.

Já, hann tók þátt í góðærinu. Það sem þótti flott fyrir nokkrum árum er allt í einu orðið skammarlegt. Hann vildi bara eignast nóg og lifa lífinu. Það var ekkert verra að geta sýnt félögunum hvað hann var klár að græða og fær um að veita vel. Konan hans naut þess nú líka með honum. Henni þótti ekkert leiðinlegt í öllum utanlandsferðunum og hún fékk smekk fyrir dýrum merkjum. Nú er þetta allt í einu orðið merki um lélegt siðferði.

Hann var alinn upp við mikla sparsemi og lítil efni. Hann skammaðist sín alltaf svolítið fyrir að vera sá eini í bekknum í heimasaumuðum fötum. Meira að segja gallabuxurnar hans voru heimasaumaðar á meðan hinir voru komnir í ”stretch”. Hann skorti svo sem aldrei neitt. Hann fékk nóg að borða, gat verið í íþróttum og gert það sama og allir hinir. Það var bara aldrei til neitt ”extra”. Hann fór í útilegur um landið á meðan þau heppnustu fóru til Kanarí. Hann var síðastur í bekknum til að fá litasjónvarp heima og hvað þá myndbandstæki. Það kom nú ekki fyrr en hann var fluttur að heiman.

Og svona langaði hann alls ekki að lifa þegar hann yrði fullorðinn!

Hann fór í viðskiptafræði og gekk vel. Fékk fljótlega vinnu í banka. Fór út og tók Master á einu ári. Giftist sætustu stelpunni í bekknum og skildi ekkert í því hvers vegna hún valdi hann. Kannski sá hún að hann yrði eitthvað.

Þegar uppgangurinn byrjaði á Íslandi var hann á réttum stað í bankanum. Hann var fljótur að vinna sig upp. Þeir sögðu að hann hefði hæfileika til þess að lesa í markaðinn og hann fór að nýta sér það.

Það var eins og ekkert gæti farið illa.Hann safnaði peningum eins og aðrir safna frímerkjum. Hann fjárfesti. Hann sá til þess að fjölskyldunni skorti ekkert. Það var gaman að vera til. Hann fann til sín. Hann skipti máli.

Við vitum öll hvernig þetta fór. Þetta var víst ekki allt siðlegt þó það væri löglegt. Og sumt var kannski á mörkunum að vera löglegt.

Allt hrundi.

Konan hans stóð þó við bakið á honum. Börnin líka. Þetta var nú samt erfiðast fyrir börnin. Jú, og konuna. Já, og foreldra hans og tengdaforeldra. Allt í einu leið öllum illa hans vegna. Hann sem hafði bara gert sitt besta til þess að þau hefðu það gott.

Nú býr hann ekki á Íslandi. Það gekk bara ekki. Hann á svo sem lítið eða það er alla vega ekkert sem hægt er að ná út. Hann á reyndar nóg til að lifa góðu lífi. Betra en flestir venjulegir Íslendingar. Ef hann nú fær að halda því. Það er enn verið að rannsaka hans mál.

Hann gæti alveg hugsað sér að flytja til Íslands seinna. Þegar allt er orðið gleymt.

Hann er í fínu starfi þar sem menntun hans og hæfileikar í fjármálum nýtast vel. Hann ætlar að koma sér á toppinn aftur. Bara að fólk hætti að tala svona illa um fjármálaheiminn og um hann.

Hann hafði allt. Hann hafði trú. Hann hefur hana reyndar enn. Hann biður enn til Guðs um að þetta fari allt vel.

4. Það sem féll í góða jörð er þau er heyra orðið, geyma það í göfugu og góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi.

Hún er svo sem engin fyrirmynd trúaðra. Hún er ekkert heilög. Hún drekkur vín í góðra vina hópi þegar svo ber undir. Hún á ekki flekklausa æsku. Það kom fyrir að hún stal aur úr buddu móður sinnar og sagði ósatt þegar það kom sér vel fyrir hana sjálfa, vini hennar eða fjölskyldumeðlimi.

Hún trúir því samt að hún sé elskuð fyrir það eitt að hún er hún. Henni hefur skilist að trúin fjallar ekki um að vera fullkomin og að aldrei syndga. Því það er ekki hægt.

En þegar hún gerir eitthvað rangt fær hún nagandi samviskubit og verður að gera eitthvað í því. Hún verður að biðjast fyrirgefningar.

Hún er með sterka réttlætiskennd þó stundum geri hún öðrum rangt til.

Þegar hún var barn tók hún þátt í barnastarfi í söfnuðinum í hverfinu. Hún var svo lánsöm að æskulýðsfulltrúinn tók eftir henni og bauð henni að verða leiðtogi. Þannig komst hún inn í heim æskulýðsstarfs kirkjunnar.

Þegar hún eltist hætti hún reyndar alveg að sækja kirkju í nokkur ár. Hún var of upptekin. Hún var heldur ekkert viss um að hún tryði lengur. Hún efaðist reyndar aldrei um Guð. Hún efaðist ekki um að eitthvað æðra og sterkara afl fyndist í heiminum. Eitthvað sem væri uppruni alls en þetta með Jesú og upprisuna, kraftaverkin og allt það var einhvern veginn of ótrúlegt.

Eftir því sem hún lærði meira og varð meðvitaðri um lífið og tilveruna fór henni að þykja trúin sem henni var kennd sem barn og unglingur vera of karllæg. Guð var FAÐIR, Guð var SONUR og ekki einu sinni heilagur andi var kvenkyns. Hvar var þetta kvenlega? Jú, það var María meyjan og Eva tæfan í Biblíunni en þær voru ekki Guð. Þær voru ekki í aðalhlutverkum.

Henni fannst ekki trúverðugt að Guð sem hún elskaði, trúði á og var alin upp við að væri gott afl, væri eins og karlmaður.

Nú er hún að nálgast þrítugt. Hún er búin að eignast sitt fyrsta barn og hefur borið það til skírnar. Upp úr því að dóttir hennar var skírð fór hún að sækja kirkjuna á ný, í hænuskrefum þó. Hún fer á foreldramorgna og það er búið að bjóða henni að vera messuþjónn. Hún fer stundum í guðsþjónustur og henni líður ágætlega þar. Hún er að byrja að sjá að þetta er líklega ekki eins einfalt allt saman og henni var kennt þegar hún var barn.

En hún er ekki barn lengur og hana langar til að dýpka trú sína, læra meira og boða öðrum það sem hún er að læra, uppgötva og finna. Kannski mun hún finna aðferð til þess að láta trú sína bera ávöxt. Ég bið Guð að gefa að svo verði.

----------------------------------------------------------------------

Þessar fjórar persónur eru áræðanlega til. Brot úr þeim eru í mér og kannski í þér.

Þessar fjórar persónur eru dæmi um jarðveginn er tekur við orði Guðs, kærleikanum. Það er síðan mismunandi hvernig við förum með það. Forsendur okkar eru ólíkar. Sum okkar fá aldrei tækifæri til þess að bera ávöxt, önnur fá þau en nýta þau ekki. Sum okkar vilja svo gjarnan bera ávöxt en það er bara alltaf eitthvað annað sem kemur upp á. Einhverjum okkar tekst það, með hjálp Guðs. Svo eru þau sem aldrei heyra orðið eða finna kærleikann og þau sem ekki hafa áhuga, afþakka.

Við erum ólík og höfum höfum mismunandi forsendur til þess að taka við orði Guðs og leyfa því að bera ávöxt í okkur.

Heimurinn, lífið og trúin er ekki svo einföld og alls ekki svört eða hvít eins og þessar persónur sýna okkur.

Við erum öll að reyna okkar besta.

Þó get ég sagt af einlægri trú og af fullum krafti að Guð dreifir orði sínu og kærleika út um allt. Það er þarna og þú ræður hvort þú vilt taka við því, eða ekki.

Tilboðið stendur alltaf!