Á nýafstöðnu Landsmóti ÆSKÞ í Reykjanesbæ lögðu þátttakendur lóð sín á vogarskálarnar í baráttunni gegn fátækt á Íslandi. Haldið var Karnival á Laugardeginum, þar sem mótið var opnað almenningi, og ungmennin seldu vörur og eigin framleiðslu til styrktar Framtíðarsjóði Hjálparstarfs kirkjunnar. Þessi hefð að safna fé til styrktar góðum málefnum hefur rækilega fest sig í sessi á Landsmóti ÆSKÞ en þetta er í fyrsta sinn sem litið er til og fræðst um innanlandsaðstoð Hjálparstarf kirkjunnar.
Fátækt bitnar á börnum og það eru mörg heimili í landi okkar, sem búa við slík kjör að það hafi afgerandi áhrif á barnæsku þeirra sem þar alast upp. Það barn sem elst upp við slíka fátækt að það getur ekki verið fullgildur þátttakandi í samfélagi jafningja sinna, tekið þátt í skipulögðu frístundastarfi, notið tannviðgerða og klæðst fötum sem prýða það, gengur inn í fullorðinsárin með brotna sjálfsmynd.
Þær aðstæður eru ekki einkamál þeirra sem við þær búa og það velur sér engin það hlutskipti að geta ekki veitt börnum sínum aðgöngumiða að samfélaginu. Fátækt er heldur ekki sérverkefni trúfélaga, hagsmunabandalaga eða velferðarráðuneytis, fátækt varðar okkur öll. Börn sem eru látin gjalda þess að búa ekki við velferð í uppvexti sínum, alast upp við þá heimsmynd að samfélagið sé því ekki hliðhollt og lenda því oft utangarðs.
Það er mikið í húfi og rannsóknir félagsvísinda(*) á afleiðingar fátæktar á börn í vestrænum samfélögum, sýna með afgerandi hætti að það að alast upp undirmáls hefur víðtækar félagslegar, heilsufarslegar og samfélagslegar afleiðingar. Fátæk börn samanborið við börn frá betur stæðum fjölskyldum standa sig verr í námi, glíma frekar við afleiðingar steitu, eru fleiri of þung sökum lélegs matarræðis, leiðast frekar út í áhættuhegðun og taka síður þátt í verðmætasköpun samfélagsins á fullorðinsárum.
Á Íslandi er áætlað að tæplega 14% fullorðinna séu undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun og 2% búi við verulegan skort á efnislegum gæðum.(**) Samkvæmt skýrslu UNICEF búa um 7.000 börn (0-18 ára) á Íslandi við fátækt, eða um 10% barna, og mælist barnafátækt meiri hér á landi meiri en heildarfátækt, sem gefur til kynna að barnafölskyldur með litlar tekjur eigi mjög undir högg að sækja í samfélagi okkar.(***) Til lengri tíma litið mun það reynast samfélaginu dýrara að takast á við afleiðingar fátæktar barna á fullorðinsárum en að búa að hag þeirra í barnæsku.
Tillögur um aðgerðir liggja fyrir í merkilegri vinnu sem sóknarprestur Laugarneskirkju, Bjarni Karlsson, kom að ásamt 23 fulltrúum frá hinum ýmsu stofnunum sem láta sig fátækt varða. Skýrsla þessa Samstarfshóps um enn betra samfélag ber heitið Farsæld: Baráttan gegn fátækt á Íslandi og inniheldur raunhæfar tillögur að breytingum, sem stjórnvöld geta gripið til og spornað gegn vanda þeirra hópa sem búa við fátækt. Það er mikilvægt að tillögur þessa hóps, sem stofnað var til að frumkvæði Hjálparstarfs kirkjunnar og Rauða krossinns í Reykjavík, nái eyrum ráðamanna.
Hjálparstarf kirkjunnar hefur valið að forgagnsraða sinni fjárhagsaðstoð innanlands í þágu þeirra sem hafa börn á framfæri og veita mestu fé til barnafjölskyldna. Framtíðarsjóðurinn, sem Landsmót ÆSKÞ safnaði fé til styrktar, aðstoðar sérstaklega ungmenni á aldrinum 16-20 ára sem hafa hætt í námi. Á þessum árum og sérstaklega á milli skólaskyldu og lögræðis taka börn út mikinn þroska og það getur haft alvarlegar afleiðingar að hætta þátttöku í samfélagi jafningja. Sú félagslega færni sem verður til á þessum árum, þegar ungt fólk stígur sín fyrstu skref í kynferðissamböndum og lærir að mæta áskorunum í vinnu og námi á framhaldsstigi, er grundvallandi fyrir lífið og verður ekki lærð í gegnum sýndarveruleika tölvuleikja og Facebook samskipta. Aðferð Hjálparstarfs kirkjunnar felst í leita þessi ungmenni uppi og rjúfa félagslega einangrun þeirra en á síðasta ári fengu 98 ungmenni fjárhagslega aðstoð við að snúa aftur til náms.
Kristin kirkja lætur sig varða kjör fólks og fátækt er eitt helsta umfjöllunarefni Biblíunnar. Yfir 300 vers í Biblíunni fjalla með beinum hætti um fátækt og í Nýja testamentinu er hlutfallið enn hærra en eitt af hverjum tíu versum guðspjallanna fjalla um fátækt. Sú róttæka samfélagssýn sem birtist í boðun Jesú fordæmir alla mismunun á fólki og leggur þá ábyrgð á herðar þeim sem búa við allsnægtir að deila með þeim sem minna mega sín. Guðspjall dagsins fjallar annarsvegar um það hvernig samfélag trúaðra tekst á við sundurlyndi og hinsvegar um það fyrirheiti að ef við störfum í takt við vilja Guðs, skilar það árangri.
Hvað sem þér bindið á jörðu mun bundið á himni og hvað sem þér leysið á jörðu mun leyst á himni. Enn segi ég yður: Ef tveir yðar verða einhuga hér á jörð í bæn sinni mun faðir minn á himnum veita þeim allt sem þeir biðja um. Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal þeirra. (Matteusarguðspjall 18.15-20)
Bæn í takt við vilja Guðs hefur áhrif á þann veruleika sem við búum í og ,,verði þinn vilji” er ekki passív bæn, heldur ákall til rótttækra breytinga í takt við vilja Guðs. Fagnaðarboðskapur kristinna manna er boðaður án tilllits til aðstæðna og stendur öllum til boða, en við verðum að gefa gaum að þeim sem höllum fæti standa. Framtíð Þjóðkirkjunnar og kirkjunnar í heiminum mun ráðast af því hvernig við mætum aðstæðum fólks og kirkja sem ekki deilir kjörum með þjóðinni hefur hvorki spámannlega rödd né trúverðugleika.
Á Landsmóti mátti skynja vel þann eldmóð og þá sterku réttlætiskennd, sem unga fólkið í kirkjunni býr yfir. Þann eld þurfum við sem eldri erum að glæða og ávöxturinn verður réttlátari heimur. Landsmót lyfti í ár upp þremur verkefnum, sem verið er að vinna á kirkjulegum vettvangi í baráttunni gegn fátækt og afleiðingum þess. Verkefni KFUM og KFUK, Stop Poverty, hefur sett sér það markmið að enginn búi við þau kjör að lifa á undir tveimur dollurum á dag fyrir árið 2030, en sem stendur býr þriðjungur mannkyns við þær aðstæður. Keflavíkurkirkja hefur verið öðrum fyrirmynd í því starfi sem þau hafa unnið í þágu atvinnulausra í Reykjanesbæ og yfirskrift Landsmóts sækir nafn sitt í verkefni þeirra, Energí og trú. Loks var safnað fé til styrktar Framtíðarsjóði Hjálparstarfs kirkjunnar, en fyrir ungmenni sem hafa flosnað úr námi vegna heimilisaðstæðna er ekkert verkefni brýnna en að komast aftur í nám.
Biskup Íslands hafði orð á því við setningu Landsmóts að eldmóður unglinganna væri smitandi. Eldmóður ungs fólks, sem brennur af réttlætiskennd og starfar í kærleika, er nákvæmlega það sem íslenskt samfélag þarfnast. Með krafti þeirra getum við skapað framtíð, þar sem engan þarf að skorta og allir geta búið við viðunandi velferð og reisn. Ég er fullur aðdáunar á æsku kirkjunnar eftir að hafa sótt Landsmót ÆSKÞ 2013.
(*) Upplýsingar fengnar af heimasíðu American Psychological Association (**) Farsæld: Baráttan við fátækt á Íslandi. Samstarfshópur um enn betra samfélag. (***) Skýrsla UNICEF: Staða barna á Íslandi 2011.