"Hvar er draumurinn"?

"Hvar er draumurinn"?

Frelsi mannsins er nefnilega ekki fólgið í því að vera afskiptur, að geta gert nákvæmlega það sem honum sýnist þegar honum sýnist líkt og ég sjálf hélt á unglingsárum þegar ég taldi mig verða fyrir grófu mannréttindabroti er ég mátti ekki fara á sveitaball, fjórtán ára.
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
12. maí 2013
Flokkar

Í dag er mæðradagurinn. Mæðradagurinn á sér ekki langa sögu hér á landi en hún rekur sig þó aftur til ársins 1934. Á Vísindavefnum kemur fram að Mæðrastyrksnefnd hafi hvatt til þess að dagurinn yrði tekin upp hér og haldinn hátíðlegur. Hugmyndin að þessum degi kemur þó fyrst frá Bandaríkjunum þar sem dagurinn var lýstur opinber hátíðisdagur, árið 1914. Einhvern veginn hefur þessi dagur aldrei orðið mjög áberandi hér á landi, í raun hygg ég að fleirir veiti valentínusardeginum en mæðradeginum athygli þrátt fyrir að sá fyrrnefndi eigi sér aðeins nokkurra ára sögu meðal íslenskrar þjóðar. Um bónda eða konudag þarf náttúrulega ekki að fjölyrða enda mjög rótgrónir dagar í okkar menningu. En hvað skyldi þá valda því að þessi dagur, mæðradagurinn er jafn lítið áberandi og raun ber vitni, jafnvel þannig að hann nær ekki einu sinni að fanga augu viðskiptalífsins? Getur það verið vegna þess að mömmur hafa tilhneigingu til að vera hvort sem maður gefur þeim blóm eða ekki? Þær elska án skilyrða og eru til staðar hvað sem á dynur , a.m.k í flestum tilvikum og þar sem allt er með felldu. Ég á tvær mömmur, önnur bar mig undir belti og fæddi mig inn í þennan heim, hin beið átekta uns ég var borin upp að skírnarlauginni tveggja mánaða gömul og færð í fang frelsarans Jesú Krists. „Kirkjan er oss kristnum móðir“ var sungið hér rétt á undan prédikun „ Móðir sú til frelsis fæðir , frjálsra þegna rétti gæðir.“ Já það merkilega er að þrátt fyrir að eðli mæðra sé að vernda börn sín og varna því að þau fari sér að voða þá er það einmitt vernd þeirra, umhyggja og kærleiksríkt háttalag sem verður til þess að auka á frelsi barnanna. Frelsi mannsins er nefnilega ekki fólgið í því að vera afskiptur, að geta gert nákvæmlega það sem honum sýnist þegar honum sýnist líkt og ég sjálf hélt á unglingsárum þegar ég taldi mig verða fyrir grófu mannréttindabroti er ég mátti ekki fara á sveitaball, fjórtán ára. Eins þegar ég mátti loks fara á sveitaball en pabbi heimtaði að sækja mig sjálfur um nóttina og ég lét hann leggja niður við Kaupfélagið í Varmahlíð svo strákurinn sem ég var skotin í myndi ekki sjá gráa hausinn hans og jólasveinaskeggið, fyrir framan félagsheimilið í Miðgarði. Þá taldi ég mig ekki að fullu frjálsa, nú veit ég að þarna var einmitt lagður grunnurinn að frelsi mínu í dag, sem er fólgið í því að vera örugg og hafa tilefni til að treysta fólki. Á öllum þessum árum frá því Sálin söng „ Hvar er draumurinn“ á sveitaballinu í Miðgarði hef ég smátt og smátt komist að því að hann liggur í tilvistarréttinum sem rekur upphaf sitt til þess að vera elskaður skilyrðislaust af móður og föður sem er slétt sama þó maður skelli hurðum og öskri „ þið eruð ömurleg.“ Ég hef oft hugsað um hvað það sé sem veiti manneskjum í raun mesta frelsið, í lífinu er margt sem heftir augljóslega frelsi okkar, allt frá fóbíum fyrir hversdagslegum hlutum sem valda kvíða og vanlíðan til þess veruleika að vera bundinn hjólastól, vera blindur eða heyrnaskertur eða glíma við annars konar fötlun. Samt held ég að mesta frelsisskerðingin sé fólgin í því að hafa aldrei átt neinn að sem er ekki sama um þig og þitt líf. Að hafa ekki átt einhvern að sem gerir kröfur til þín en elskar þig samt jafn heitt þó þú standir ekki undir þeim, einhvern sem elskar þig það mikið að hann getur stundum pirrað þig með umhyggjuseminni allri. Einhvern sem þú getur þagað með, sagt montsögur af sjálfum þér kinnroðalaust af því að viðkomandi er jafn montinn af þér og þú sjálfur, einhvern sem hefur vakað eftir þér af áhyggjum, einhvern sem hefur sungið þig í svefn alveg vita laglaus eða samþykkt að spila við þig Blikkmann án þess að geta yfirhöfuð blikkað með öðru auga í senn. Frelsið er fólgið í því að vita sig eiga traust bakland og það stendur jafnvel þó manneskjurnar sem byggðu það kveðji. Ég hef oft hugsað það þegar ég ber saman mæður mínar tvær, þessa sem fæddi mig og svo kirkjuna að samskipti mín við þær báðar hafa verið nokkuð svipuð í gegnum árin. Sem barni fannst mér bara gott að hvíla í örmum þeirra beggja og vera nærð af mat og ást í jöfnum hlutföllum, mér þótti þær báðar mjúkar og góðar, eins og ljósgeislamyndin úr sunnudagaskólanum. Sem unglingi fannst mér þær svolítið hallærislegar en heimurinn hefði engu að síður hrunið ef eitthvað slæmt hefði hent aðra eða báðar. Tilfinningin að vera þrettán ára í miðbæ Akureyrar og ganga tíu metrum fyrir aftan móður mína af því að hún var með svo hallærislega loðhúfu á hausnum var svipuð því og þegar ég á sama aldri lét eins og fífl í fermingarfræðslu, bara til þess að undirstrika að ég væri töff. Í dag geng ég sjálf með þessa loðhúfu og kenni fermingarfræðslu eins og enginn sé morgundagurinn. Af því að hvorug þeirra hopaði undan mótþróa mínum. Mæður halda áfram að vera mæður þó að börnin eldist og vaxi úr grasi, hlutverk þeirra er margbreytilegt en samt sístætt, þess vegna heldur kirkjan sínu hlutverki þó að þjóðin vaxi og dafni og þarfir hennar breytist í takti við tímann. Hún heldur utan um börnin sín og barnabörn, hokin af reynslu og sjálfsmynd sem grundvallast á Jesú Kristi. Já hann er baklandið hennar. Þess vegna hættir kirkjan aldrei að vera til, starfshættir hennar geta breyst og gera það vonandi alltaf í takti við tímann, um hana geta blásið naprir vindar og hún getur jafnvel bognað en ekki brotnað, því lífæð hennar er þetta foreldri Jesús, sem er ekki sama. Foreldrið sem hættir aldrei að elska okkur þó við skellum hurðum og öskrum „ þú ert ömurleg.“ Foreldrið sem hættir ekki að sækja okkur á sveitaböllin þó því sé skipað að leggja bílnum langt frá vettvangi, foreldrið sem vill heyra montsögurnar og finnst gott að við höfum sjálfstraust, foreldrið sem stuðlar leynt og ljóst að því að við finnum frelsi í öryggi okkar sem er byggt upp af kærleiksríkri afskiptasemi. Já foreldrið „sem til frelsis fæðir og frjálsra þegna rétti gæðir.“ Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.