Ég vakna til að lifa

Ég vakna til að lifa

Þar sem ég sit þarna við tölvuna þetta kvöld, verður mér litið inn á blogg hjá æskuvinkonu minni sem er jafngömul og ég. Við höfum ekki haft samband lengi en ég hef fylgst með henni af og til þar sem hún bloggar mikið og er á fésbókinni. Hún hafði verið að takast á við brjóstakrabbamein og sigrað og verið hraust í rúmt ár. Færslan sem hún skrifaði bar yfirskriftina „Ekki bíða eftir að lífið byrji“.

Mér finnst það svo merkilegt að hugsa til þess að við sem erum hér saman komin í kirkjunni í dag eigum öll okkar lífssögur. Sögur okkar eru án efa ólíkar en þær hafa allar á sinn hátt haft áhrif á það hver við erum í dag, hvaða ákvarðanir við höfum tekið, bæði góðar og vondar. Lífið markar okkur öll á einhvern hátt og sögurnar sem við höfum að geyma skipta máli.

Það er vinsælt í dag að segja lífsreynslusögur, dægurblöð og lífsstílsþættir í sjónvarpi þreytast ekki á því að miðla til okkar reynslu fólks, oftar en ekki sögum af fólki sem hefur gengið í gegnum erfiða hluti og hlotið einhvern lærdóm af, sigrast á sjúkdómum eða fundið í gegnum einhvers konar leit, sálarfrið.

Lífsagan okkar er mikilvæg og hún er kaflaskipt og markast oftar en ekki af tímamótum. Við erum börn, verðum unglingar, upplifum tímabil skólaáranna. Þessu fylgir síðan leit að hinu rétta fjölskylduformi fyrir þig, hjónaband eða önnur sambúðarform. Þú getur hafa valið það að vera ein/einn, giftast, eignast börn og eða eignast ekki börn. Þú hefur kannski gifst og skilið, börnin koma og fara síðan út í lífð. Þú lifir aftur það að vera ein/einn eða með makanum eftir að börnin hafa flogið úr hreiðrinu. Ellin kemur síðan með sín gráu hár og ævikvöldið skilgreinist af því hvernig þér hefur tekist til.

Ertu uppgerður einstaklingur eða áttu eitthvað óuppgert. Áttu fjölskyldu sem er samheldin eða sem hefur ekki talað saman í mörg ár. Ertu í tengslum við börnin þín eða ekki. Sérðu eftir einhverju eða nýttirðu hverja stund til hins ítrasta af því að lífið skipti þig svo miklu máli að þú vildir ekki missa af neinu. Beiðstu kannski alltaf rétta augnablikinu, rétta tímabilinu, réttu tímamótunum til að hefja lífið. Tókstu alltaf ábyrgð á eigin lífshamingju eða beiðstu eftir að einhver kæmi og færði þér lífhamingjuna á silfurfati. Varstu fórnarlamb eða stóðstu upp fyrir sjálfum þér vegna þess þú fannst það hugrekki innra með þér að byrja að lifa þannig að lífið snerti þig, kom við þig og þú vildir finna á eigin skinni að þú værir lifandi.

Ég hef upplifað þetta sjálf. Upplifað það að lifa í ákveðnu mynstri og telja mér trú um það að hverju tímabili í lífinu fylgi ákveðinn rammi og þegar ég er á því tímabili er ekki rými fyrir neitt annað, ekki neitt óhefðbundið, ekkert óvænt. Finnast það að það að vera að ala upp börn, koma undir sig fótunum í vinnu og sinna heimili, eigi bara að vera svolítið streð og þess vegna sé best að byrja lifa þegar þetta umhverfi er komið í ákveðnar fastar skorður, svona á milli fertugs og fimmtugs. Já, þá eigi allt að gerast. Verandi alltaf að bíða eftir að lífið hefjist á meðan ákveðnum hlutum er sinnt eða þeir kláraðir til að næsti kafli geti byrjað. Aðeins þá hafa skapast rétt skilyrði fyrir því að byrja að lifa, ekki fyrr. Veistu, að svona hugsa þau sem líta á lífið sem gefinn hlut, sem sjálfsagðan hlut. Það er ósköp eðlilegt að hugsa þannig, af því að enginn vill hugsa þá hugsun til enda að eiga ekki morgundaginn vísan. Að vera allt í einu kominn í þá aðstöðu að geta ekki hugsað lengra en vikur eða mánuði fram í tímann, af því að þú ert að takast á við illvígan sjúkdóm, hefur jafnvel slasast þannig að lífsgæði þín hafa verið skert eða þú hefur misst einhvern svo nákominn að þú eygir enga von. Og þau plön sem þú gerðir, meðan þú beiðst eftir að lífið gæti byrjað, meðan þú beiðst eftir rétta tímanum, rétta tímabilinu, rétta aldrinum, hefur verið kollvarpað og þú þarft að hugsa hlutina upp á nýtt, frá byrjun.

Slíkt getur verið erfitt að takast á við fyrir nútímamanneskjuna sem lifir í samfélagi sem er byggt upp á fyrirframgefnum hugmyndnum um hvað er rétt og rangt, hvað er eðlilegt og hvað ekki, hvað það er sem gerir þig gilda og hvað ekki. Samfélag sem segir þér reglulega á síðum blaðanna, hvernig þú átt að vera sem þægilegust fyrir umhverfi þitt, þannig að þú stuðir engann og setjir ekki fyrirframgefið jafnvægi úr skorðum. Segir þér hvernig þú átt að fleyta kerlingar í gegnum lífið, án þess að öðlast nokkurn tímann einhverja dýpt.

Mig langar til að deila með ykkur lífsreynslu sem ég varð fyrir í vetur sem á þátt í þeirri ákvörðun minni að stíga það skref að verða prestur og sækjast eftir því að láta þann draum verða að veruleika.

Ég hef fram að þessu og geri enn, sinnt æskulýðsstarfi hér í kirkjunni. Starf sem er skemmtilegt og sem ég fæ mikla gleði og lífsánægju út úr því að sinna. En eins og gerist stundum þá koma tímar þar sem maður þreytist, koma slæmir dagar þar sem maður sér ekki alveg árangur, finnst maður svolítið vera í bakkgír og langar til að gefast upp. Allt er einhvern veginn ómöglegt. Það er mannlegt. Að velta fyrir sér hvort að þær ákvarðanir sem maður hefur tekið séu réttar, hvort að starfið henti manni eða hvort að framundan sé tími til að stokka upp og halda áfram að þroska sig og endurbæta.

Svona hugsanir hafa ekkert að gera með starfsleiða eða nokkuð slíkt, bara eðlilegt hugsanaferli okkar allra af því að við erum manneskjur sem finnum til og höfum þörf fyrir að endurhugsa okkur sjálf endrum og eins. Það eru ákveðin tímamót fólgin í því ef að ég má orða það svo. En ég kom heim í vetur, í febrúar eftir langan dag og var þreytt, búin að fara einum of oft í ávaxtakörfuna sem er skemmtilegur leikur en getur alveg ofgert hlutum ef hann er tekinn inn í ofstórum skammti. Ég settist niður við tölvuna, eins og ég geri oft þegar ég er þreytt og þarf að láta hugsa fyrir mig. Ég fann fyrir örlítilli sjálfsvorkunn og fannst ég vera stöðnuð og sá einhvern ekki fyrir mér miklar breytingar framundan nema þær breytingar sem mér fannst fullkomlega eðlilegt að aðrir ættu að vinna að fyrir mig, mér til hjálpar. Það er að segja ég varpaði ábyrgðinnni á eigin vellíðan og lífshamingju frá mér, fór í fórnarlambshlutverk og fannst það bara nokkuð fín tilhugsun, það getur nefnilega stundum verið örlítið þægilegt að vera fórnarlamb, af því að á meðan þú ert þar staddur, þarftu ekki að axla ábyrgð, þarftu ekki sýna hugrekki, þú þarft ekki að stíga út fyrir rammann. Allt sem miður fer er öðrum að kenna. Það er nefnilega átak að taka skrefið frá þessu hlutverki, það er erfitt að fara út á svæði sem þú þekkir ekki og veist ekki hverju þú átt von á. Þú gætir fengið höfnun, gætir litið kjánalega út eða þurft að standa fyrir máli þínu, með þínum skoðunum og það krefst hugrekkis. Það krefst þess að þú takir ákvörðun um að lifa.

Þar sem ég sit þarna við tölvuna þetta kvöld, verður mér litið inn á blogg hjá æskuvinkonu minni sem er jafngömul og ég. Við höfum ekki haft samband lengi en ég hef fylgst með henni af og til þar sem hún bloggar mikið og er á fésbókinni. Hún hafði verið að takast á við brjóstakrabbamein og sigrað og verið hraust í rúmt ár. Færslan sem hún skrifaði bar yfirskriftina „Ekki bíða eftir að lífið byrji“. Ég fór að lesa og sá að þessi vinkona mín hafði fengið greiningu á nýjan leik og nú var sem sagt krabbinn kominn aftur og mun illvígari og ekki útséð um batahorfur,

Hún skrifar: „Ég hef átt undanfarið góðar samræður við vinkonur mínar um lífið, það er einhvernvegin komið að því að maður er orðinn fullorðinn án þess að gera sér almennilega grein fyrir því.

Verkur í baki leiðir af sér að manni er hent í beinaskanna sem leiðir af sér að hann sýnir einhverjar niðurstöður sem læknarnir skilja ekki og fyrr en varir á maður tíma í sneiðmyndatöku haldandi að það sé önnur krabbameinsbarátta framundan.

Ég geri ráð fyrir að margir kannist við að ætla að gera hitt og þetta í lífinu og núið byggist upp á því að bíða eftir því sem gerist í komandi framtíð.

Við hlökkum til að gera hitt og þetta og sjáum fyrir okkur fullkomna formúlu þar sem allar breytur eru til staðar og ekkert getur hindrað sýnina sem maður er með, við liggjum upp í sófa og látum okkur dreyma....

Kannastu við þetta?

Staldraðu aðeins við... láttu þig dreyma.... Lokaðu augunum og gríptu hugsunina sem kom upp þegar ég fór að tala um framtíðina og drauma.

Ég get lofað þér því að það sem þú ert að hugsa um núna mun ekki rætast eins og þú hugsar þér það. Það er alltaf eitthvað sem mun vera öðruvísi en þú ímyndar þér og þegar framtíðin kemur og þú heldur að þú munir framkvæma allt sem þig hefur langað til að gera, þá muntu ekki gera rassgat þar sem draumurinn er ekki eins og þú hugsaðir þér hann.

Ef ég gef mér það bessaleyfi að ákveða að ég hafi rétt fyrir mér, hvaða rök hefur þú fyrir því að byrja ekki núna á að láta drauma þína rætast ?

Pældu í hvað lífið verður skemmtilegt, innihaldsríkt og líflegt ef maður lifir í átt að draumum sínum á hverjum degi í staðinn fyrir að bíða eftir lífinu og réttum aðstæðum.

Gerðu það sem þig langar til að gera, mátaðu þig í allskonar aðstæðum, vertu besta vinkona þín, gríptu tækifærið og án þess að ég vilji hræða þig en þá áttu bara eitt líf og þú ert að lifa því núna. Þannig að:

LIFÐU LÍFINU NÚNA!“

Í stuttu máli sagt hef ég sjaldan í lífinu fengið eins mikla vakningu og þarna á þessari stundu. Þar sem ég sat við tölvuna að fárast yfir litlu hlutunum, vorkenna mér yfir einhverju sem ég gat sjálf stýrt eða breytt en hafði ekki kjark til að breyta eða taka ábyrgð á, þá í einu táraflóði tók ég þá ákvörðun að byrja að lifa þannig og fylgja draumum mínum eftir.

Ég hafði aldrei þorað að hugsa þá hugsun til enda að verða prestur. Ég á mér mikla trú og hef séð svo margt jakvætt og gott gerast í kirkjunni enda starfað þar um nokkurra ára skeið. En það er líka ábyrgð að vera prestur, það er ábyrgð að vinna með fólki í öllum aðstæðum, gleði og sorg. Það er einfaldasta mál í heimi að finna fyrir vanmætti og finnast maður ekki reiðubúinn að axla þá ábyrgð sem manni er á hendur falinn í þessu starfi. Hvað á ég að segja þegar ég kem að dánarbeði, hvernig á ég að bera mig að við brúðkaup, hvað með skírnarathafnir sem eru með dýrmætustu stundum nýbakaðra foreldra. Hvað með messurnar og tónið, ætli ég geti tónað almennilega eða verður söfnuðurinn vandræðalegur þegar ég byrja og segir eitthvað fallegt við mig í meðvirkniskasti eftir messuna svo ég verði ekki niðurbrotin og miður mín. En vitiði hverju ég áttaði mig svo á, allt þetta snýr að mér og minni sjálfsmynd. Hvort að fólki muni líka við mig eða ekki, hvort ég verði nógu vinsæl eða ekki, er ekki stóra málið. Í preststarfinu er það ekki ég sem á að stækka, vinsældir mínar að aukast. Í þessu samhengi er það ekki aðal málið hvernig ég lít út eða hvað ég geri. Þó að sjálfsögðu sé það alltaf mikilvægt að vanda sig og gera vel við fólk og ganga fram af virðingu og elsku til náungans.

En það sem ég var að fást við var það mín eigin sjálfsmyndarkrísa, um hvernig ég á að vera sem voru að trufla mig. Þetta er að vera með fyrirfram viðurkennt útlit, finnast ég þurfa að vera fyndin, þó að húmor sé lífsnauðsynlegur og þá sérstaklega húmor fyrir sjálfum sér. Þá er ekkert vandræðalegra en manneskja sem er að reyna að vera fyndin en er það ekki. Þetta snérist um löngun mína til að vera samþykkt út á við í nýju hlutverki. Flækjustigið var orðið ansi hátt þarna og enginn í raun og veru sem var að flækjast fyrir mér nema ég sjálf.

Á vígsludaginn minn á leið til messu fór ég að nefna þessar áhyggjur við eiginmanninn í bílnum þar sem ég sat með fiðrildi í maganum, hugsandi um hvað ég væri búin að koma mér út í.

Hann horfði á mig og sagði rólega: Sunna, ef þú hefur alltaf í huga á hvers vegum þú gengur þá þarftu ekki að hafa áhyggjur.

Og það rann upp fyrir mér ljós, Ég var með áhyggjur af hlutum sem skipta ekki máli. Þetta er nefnilega alltaf spurning um að vera sannur í þvi sem maður tekur sér fyrir hendur. Að leika ekki tveimur skjöldum. Að koma til dyranna eins og maður er klæddur, að taka áhættuna á því að vera einlægur og treysta annarri manneskju fyrir sjálfum sér. Að þora að trúa og treysta Guði, erindinu og leyfa trúnni að ná inn að innsta kjarna sálarinnar. Þannig skapast friður við sjálfið og friður við umhverfið. Að hvíla í sjálfum sér, í því hlutverki sem manni er falið, í trausti til hans sem öllu ræður.

Þessa áhættu tók vinkona mín sem bloggar um baráttu sína við ólæknandi krabbamein og gaf mér og svo ótalmörgum dýrmæta gjöf. Þá áhættu tók ég þegar ég fann þörfina hjá sjálfri mér að verða prestur og skrifaði framkvæmdanefnd kirkjunnar bréf og bað um þeirra stuðning við að vígjast sem æskulýðsprestur hér í kirkjunni, rétt eftir að ég las þetta áðurnefnda blogg vinkonu minnar. Ég trúi því í dag að þarna hafi Guð verið að verki í mínu lífi og opnað fyrir mér dyr og gefið mér kjark til að hugsa út fyrir rammann. Ég hlustaði og tók mark á þeim skilaboðum.

Þá áhættu tekur þú þegar þú kemur hingað til kirkjunnar í dag af því að þú hefur þörf, trúarþörf. Þín trú skiptir máli, hún er gild jafnvel þó þú skiljir ekki allar hefðir og orðalag kirkjunnar, þá er hún þín og enginn tekur hana frá þér. Þín lífsaga skiptir máli. Í samhengi kirkjunnar mætumst við á jafningjagrundvelli, með okkar ólíku lifssögur, með okkar vonir og þrár, með okkar sigra og ósigra, hvort sem við erum leikmenn eða prestar. Við eigum öll þessa sömu, mannlegu tilfinninnu að hafa þörf fyrir að vera samþykkt, vera með og vera hluti af lífinu. Í kirkjunni verður þetta að veruleika. Hér falla múrar yfirborðsmennskunnar niður, hér þarftu ekki að vera númer, vera fyndinn eða setja upp grímu. Hér máttu vera þú. Ef þú hefur það í huga fer ekki fyrir þér eins og manninum í guðspjalli dagsins sem var hent út úr veislunni fyrir að vera ekki í réttum klæðum. Guð sér það þegar þú ert ekki sannur, hann sér það þegar heilindin ná ekki til hjartans, þegar þú kemur til hans af öðrum ástæðum en þeim að þú hreinlega vilt vera í samvistum við hann af því að þú þarfnast hans.

Hann elskar þig að fyrra bragði og þekkir þig innan sem utan. Þú felur ekki yfirborðsmennskuna fyrir Guði og ekki fyrir fólki sem þú tengist. Það að reyna að vera eitthvað annað en þú ert dylst engum og þannig glatar þú tengslum og einangrast og ef þú gætir ekki að þér þá getur þú fundið þig á þeim stað þar sem ríkir grátur og gnístran tanna. Það er ekki góður staður að vera á.

Hugrekkið felst í einlægninni, í sannleikanum. Hugrekkið felst í því að trúa því að með manni gangi Kristur, alltaf. Ég stend hér í dag af því að ég trúi því statt og stöðulega að ég er ekki ein á ferð. Það er nóg, trúin byrjar þar og þegar við höfum þá sannfæringu, getum við byrjað að lifa, lifa þannig að við séum í snertingu við hvort annað, að við finnum áþreifanlega fyrir hvort öðru. Þannig erum við raunverulega samferða. Jesús bíður þér það í dag, hér og nú, ekki þegar þú ert búin að klára þetta eða hitt eða vinna svona og svona marga sigra. Heldur hér og nú, í dag. Þitt er að þiggja tilboðið. Það krefst hugrekkis en launin eru margföld.

Amen.