En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins sem Jesús hafði stefnt þeim til. Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa. Og Jesús kom til þeirra, talaði við þá og sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Matt 28.16-20)Náðugi Guð við komum saman fram fyrir þig í bæn því að það ert þú sem sameinar okkur. Þú sendir okkur um gjörvalla jörðina til að boða og þjóna í nafni Krists.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Fyrir um fjörtíu árum birtust fyrstu myndirnar af jörðinni teknar úr geimnum. Aldrei áður hafði maðurinn séð heimkynni sín utanfrá, jörðina úr þessari fjarlægð fljótandi um umvafða skýjum, en svo bara engu. Þessar myndir voru ótrúlegar, myndir af jörðinni rísa upp fyrir sjóndeildarhring tunglsins rétt eins og við sjáum sólina rísa hér á jörðinni. Frá þessu sjónarhorni er jörðin eins og hver önnur pláneta, lítill og varnarlaus hnöttur í myrkri víðáttu geimsins. Þetta var alveg ný sýn og sumir fylltust vonleysi og tilgangsleysi við þessa sýn. Hvaða tilgang hafði líf einnar agnarsmárrar mannveru á þessari litlu kúlu í víðáttu himingeimsins. Aðrir fylltust hinsvegar lotningu yfir fegurð bláa hnattarins.
Útsýnið frá fjallinu í Galíleu þar sem hinn upprisni Jesús hitti lærisveina sína hefur örugglega verið nokkuð magnað líka. Þeir hafa haft gott útsýni yfir Galíleu, þeir sjá landslagið og einhver af þeim svæðum sem þeir höfðu farið um, ef til vill sáu þeir Miðjarðarhafið eða Galíleuvatn. Margar þjóðir eru á þessu svæði og það er eins og yfirsýnin á fjallinu sé meiri í frásögninni en hún gat í raun verið. Það er eins og þeir líti yfir ólíkar þjóðir, gyðinga sem telja sig hólpna vegna lögmálsins og svo hinar þjóðirnar í kring, heiðingjana. Þessi frásögn myndar einskonar hápunkt guðspjallsins og er mikilvæg niðurstaða. Jesús upplýsir þá um vald sitt og umboð ,,allt vald er mér gefið á himni og á jörðu“. Hann er hinn upprisni Drottinn og í nafni hans eiga þeir að fara og gera allar þjóðir að lærisveinum, sem sagt boða þá trú sem hann hefur boðað þeim, feta í hans fótspor.
Þeir eiga að skíra í nafni föður, sonar og heilags anda og kenna þeim að halda allt sem hann hafði boðið þeim. Þessar setningar er hluti af hápunktinum og niðurstöðunni sem ég minntist á áðan. Ef við værum í kennslustund núna þá myndum við strika undir þetta. Gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið og kennið.
Með því að segja allar þjóðir er hann að opna það sem hann hefur boðað, trúnna á Guð föðurinn og hjálpræði hans fyrir öðrum en bara gyðingum. Hann býður lærisveinunum að boða trú og þar með að veita öllum þjóðum lykilinn að þessu hjálpræði. Hann er ekki að skipa þeim að boða trú með Biblíuna í annari og sverðið í hinni. Við þekkjum þannig sögur, en þær eru ekki af Jesú. Hann er ekki að segja þeim að berja hinar þjóðirnar til hlýðni svo við getu öll verið hluti af sama hagkerfinu, hagkerfi var ekki til í orðaforða Jesú. En hvað var hann þá að segja þeim að kenna? Hjá Mattheusi er fjallið mikilvægt. Fyrr í guðspjallinu kenndi hann þeim ásamt miklum mannfjölda einmitt á þessu fjalli. Það sem við köllum núna fjallræðuna. Þar kenndi hann þeim að biðja faðir vorið og þar eru líka sæluboðin sem segja meðal annars ,,sælir eru hógværir því þeir munu jörðina erfa, sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu því að þeir munu saddir verða, sælir eru friðflytjendur því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða“.
Síðan eru liðin um 2000 ár. Það mætti halda því fram að okkur hafi gengið ágætleg að boða kristna trú. Hún hefur nú náð til fjölda þjóða um allan heim og er fjölmennasta trúarhreyfing jarðarinnar. En við höfum ekki verið þeir þjónar Krists sem hann kallaði okkur til að vera. Við særum hvert annað með klofningi og stríðum. Stríðum sem eru sum í nafni réttlætis en eru aldrei réttlát gagnvart þeim sem lenda í þeim miðjum. Við höfum líka misnotað sköpunina, landið og hafið, jörðina okkar með yfirgangi og rányrkju. Við byggjum þar sem okkur þóknast, nýtum þær auðlindir sem við þurfum og losum svo ruslið frá okkur hvar sem er án þess að hugsa um afleiðingarnar fyrir komandi kynslóðir. Þetta er gengið svo langt að við þurfum að hafa áhyggjur af eigin áhrifum og valdi. Það er ekki langt síðan að mannkynið hefur gert sér grein fyrir því að þessar litlu mannverur sem svífa um á litlu bláu kúlunni gætu verið ábyrgar fyrir því að fjölbreytileiki lífríkis hennar sé í hættu eða að þær geti eyðilagt lofthjúpinn sem ver hana. Sem betur fer urðu myndirnar af jörðinni úr geimnum uppspretta og innblástur að stofnun hreyfinga um umhverfisvernd. Rétt eins og þegar Jesús horfði frá fjallinu og sendi lærisveina sína í trúboðsleiðangur varð sýnin yfir jörðina til þess að margir fóru líka í sendiför til þess að bjarga jörðinni.
Það tungutak sem Jesús notar í trúboðsskipuninni er allt umvefjandi, honum er allt vald gefið, þeir skulu boða trú öllum þjóðum, og kenna þeim allt sem hann hefur boðið þeim. Hin kristna hugsun um himin og jörð er líka heildræn. Efni og andi eru ekki tvær andstæður heldur bæði hluti af sömu heild. Sköpunarsagan segir okkur einmitt þetta. Sköpunin er ekki gerð úr hræi skrímslis sem Guð sigraði, hún er verk Guðs. Í fyrstu sköpunnarsögu Biblíunnar segir ,,Guð nefndi þurrlendið jörð og safn vatnanna nefndi hann haf. Og Guð sá að það var gott“. Þessi niðurstaða er endurtekin nokkrum sinnum, hún er mikilvæg. Sköpunin er góð og hefur tilgang í sjálfri sér.
Sú umhverfis krísa sem við stöndum frammi fyrir í dag kallar á samtal milli ólíkra þjóða og trúarbragða, það þurfa allir að vera með. Kristin trú hefur breiðst út um allan heim og er fjölmennasta trúarhreyfing heims. Við höfum því ótrúlegt vald og tækifæri. Jesús ætlaði henni að vera farvegur hjálpræðisins og brýndi okkur til hógværðar, réttlætis og að boða frið. Ég held að honum yrði ekki á móti skapi að kirkjan okkar verði farvegur þess að við komumst út úr hringrás rányrkju og eyðileggingar á sköpunarverki Guðs. Ég las eitt sinn ummæli frá saudi-arabískum geimfara sem hafði starfað í alþjóðlegu geimstöðinni. Hann sagði að fyrsta daginn sem nýr hópur tæki við byrjuðu þau öll að finna sín lönd, á þriðja degi reyndu þau að benda á það hvar þeirra heimsálfur byrjuðu og enduðu. En á fimmta degi gerðu þau sér grein fyrir því að það væri aðeins ein jörð og þau hluti af sama mannkyni. Páll postuli segir einmitt „Ekki er munur á gyðingi og grískum manni, því að hinn sami er Drottinn allra, fullríkur fyrir alla þá sem ákalla hann“ Þetta er líka mikilvægt, við þurfum að sjá jörðina sem heild eins geimfararnir og eins og Jesús þegar hann leit yfir landið. Hann sendir okkur um gjörvalla jörðina til að boða og þjóna í nafni Krists. Við þurfum að opna hjörtu okkar fyrir kærleikanum og fyrir því að við erum öll sköpuð í mynd Guðs. Við þurfum að láta okkur annt um sköpunina og taka opnum örmum fjölbreytileika lífsins. Kærleikurinn, elskan til hvers annars er það sem skiptir máli. Elskan er mikilvægust, stærst og lykillinn að þessu öllu. Trúboðsskipunin er enn í fullu gildi og aldrei mikilvægari en einmitt nú. Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen