Sá mikli mannfjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, frétti degi síðar, að Jesús væri að koma til Jerúsalem. Þeir tóku þá pálmagreinar, fóru út á móti honum og hrópuðu: Hósanna! Blessaður sé sá, sem kemur, í nafni Drottins, konungur Ísraels! Jesús fann ungan asna og settist á bak honum, eins og skrifað er: Óttast ekki, dóttir Síon. Sjá, konungur þinn kemur, ríðandi á ösnufola. Lærisveinar hans skildu þetta ekki í fyrstu, en þegar Jesús var dýrlegur orðinn, minntust þeir þess, að þetta var ritað um hann og að þeir höfðu gjört þetta fyrir hann. Nú vitnaði fólkið, sem með honum var, þegar hann kallaði Lasarus út úr gröfinni og vakti hann frá dauðum. Vegna þess fór einnig mannfjöldinn á móti honum, því menn höfðu heyrt, að hann hefði gjört þetta tákn. Því sögðu farísear sín á milli: Þér sjáið, að þér ráðið ekki við neitt. Allur heimurinn eltir hann. Jóhannesarguðspjall 12:12-24
Bernskuleikir Flest okkar eigum skemmtilegar minningar um eltingaleiki bernskunnar. Það var gaman niður á Tómasarhaga, þegar krakkahópar komu úr öllum húsum og fjöldi tók þátt kappinu. Við lærðum í þessum leikjum, að vera hópur, vinna saman, reyna að snúa á andstæðingana og auðvitað vinna sigur. Við lærðum líka að fylgja foringjunum. Svo höfum við upphafið leikinn og lagað að viðfangsefnum hinna fullorðnu - lært að fylgja okkar fólki í pólitík, vinna með metnaði í störfum okkar og að afla okkur virðingar fyrir framlag okkar. Við puðum í vinnunni og erum lengur að en flestar vestrænar þjóðir. Hvað höfum við uppskorið? Jú alveg örugglega er ríkidæmið laun erfiðisins. Á það hefur verið bent, að mikilvægar ástæður fyrir þenslu á Íslandi séu einmitt vinnusemin og eltingaleikurinn við efnaleg gæði og fjármuni. Við erum ríkari en við höfum nokkurn tíma verið. En veitir ríkidæmi hamingju?
Því hefur líka verið haldið fram, að hamingja íbúa á Vesturlöndum hafi ekki aukist síðustu fimmtíu árin - hægt sé beinlínis að mæla hamingju fólks og fram hafi komið að ekki sé samband á milli hamingjutilfinningar og fjárhagslegrar velsældar.[i] Hvernig getur staðið á því og getur verið að hamingjan sé meira heimafengin en ofin úr seðlum og verðbréfum, sem sé fjármunum? Hvað veitir þér hamingju og hver er hamingjulindin? Hvað eltum við í lífinu?
Allur heimurinn eltir Jesú Guðspjallstexti pálmasunnudags er úr 12. kafla Jóhannesarguðspjalls – auðvitað er pálmagreinunum þar veifað. Þar er fagnandi mannfjöldinn, hósannahrópin og væntingar um, að Jesús léti loks til skarar skríða í þjóðmálunum. En svo ruglar hann ruglar alla í ríminu með því að koma ríðandi á asna en ekki á stríðsfáki. Mikill mannfjöldi tekur á móti Jesú helstu andstæðingum hans til sárrar gremju. Farísearnir eru fúlir og segja sín á milli: “Allur heimurinn eltir hann.” Þeir, sem sé réðu ekki við spámanninn á asnanum og niðurstaðan var að heimurinn, já allur heimurinn, elti þennan Jesú! Vikan, sem nú byrjar, er kölluð dymbilviku eða kyrraviku, en ekki páskavika - það er vikan eftir páska. Flest þekkjum við framvindu kyrruviku, sem sögð er í guðspjöllunum. Þrátt fyrir hósannahróp, hyllingu Jesú sem konungs og miklar væntingar til hans vörðu íbúar Jerúsalem hann þó ekki nokkrum dögum síðar, þegar að honum var sótt, reyndu ekki að frelsa hann, kröfðust ekki lausnar hans, ekki heldur þegar velja skyldi milli Jesú og glæpamannsins Barrabasar. Sjálfsagt er óvarlegt að lesa í þessa frásögn, að allir eða flestir íbúar Jerúsalem hafi fagnað Jesú við innreið hans, en hafi síðan með óskilgreindum hætti snúið við honum baki nokkrum dögum síðar. Þannig ganga ekki kaupin á eyrinni. Það hefur líkast til verið hópur sem hreifst, en annar var á móti. Í Jerúsalem voru flokkaátök eins og í samtímanum og líka í okkar eigin borg. Það, sem við getum lesið úr textunum er, að hið gyðinglega samfélag var í eltingaleik – á hlaupum eftir frelsi, gæðum, lausn, réttlátum friði. Í því kapphlaupi var Jesús um tíma eftirsóttur, en svo skömmu síðar var honum hafnað. Því leið hann og var að lokum deyddur. Að heimurinn elti hann leiddi til dauða hans. En var eltingaleikur heimsins á röngum forsendum?
Hamingjuleitin Hvað eltum við? Í viðskiptablaði Morgunblaðsins á fimmtudaginn var (6. apríl 2006) segir ung kona frá því, að hún hafi hætt að kaupa sér mánaðarlega skó og farið í staðinn að fjárfesta í hlutabréfum. En þessi breyting á fjárnotkun hafi ekki gert annað en auka ama hennar og hækkað blóðþrýstinginn! Í bankastreitu liðinna vikna og 10% hrapi á hlutafjármarkaði hafa margir verið áhyggjufullir í milljarðasunki og óttast tap. Fjármunir eru mikilvægir, öryggi í peningamálum brýnt í lífi fólks. Það er mikilvægt að hafa reglu í þeim efnum. En veita fjármunir hamingju?
Layard Ég las í fyrra athyglisverða grein um breska hagfræðingnum Richard Layard[ii] sem hefur haft áhrif á breska stjórnmálaumræðu. Layard hefur sýnt fram á, að hamingjan sé heimafengin. Það sem stuðli, að hamingju fólks sé það sem það upplifir í einkalífi sínu, í samskiptum við sína nánustu og innan ramma heimilisins. Hamingja fólk verði sem sé ekki til í neyslu og auðsöfnun. Layard viðurkennir, eins og flestir sem fjalla um líðan fólks og tengsl hennar við fjármuni, að uppylla verði grunnþarfir fólks til að það geti verið hamingjusamt. Enginn hungraður maður er t.d. hamingjusamður. Allir verða að hafa nóg til framfærslu. Í ljós hefur komið að mikil fjáreign tryggir ekki hamingju eða gerir fólk hamingjusamara. Layard bendir líka á, að fjársóknin geti beinlínis dregið úr hamingju fólks því eltingaleikurinn við Mammon tekur frá fólki orku, tíma og athygli í stað þess að byggja upp hamingju sína og sinna. Hann telur, að stjórnmálamenn eigi að taka mið af hamingjuleit fólks og byggja pólitík sína á öðrum forsendum en boðorðum hagfræðinnar og vísunum í trúarkenningum fjármálanna. Þetta er athyglisvert og ekki allir sammála. Auðvitað benda frjálshyggjumenn snarlega á, að það sé ekki skylda ríkisins að beita sér fyrir hamingju fólks. Ríkið eigi aðeins að tryggja frelsi og öryggi, en það sé einstaklingsins að elta eigin hamingju og sækja hana. Þessu hafnar Layard og segir, að vegna þess að meginuppspretta hamingjunnar sé í faðmi fjölskyldunnar ættum við með pólitískum ákvörðunum og samfélagslegum meðölum að styðja fjölskyldur og hag þeirra.
Hamingja og hagkerfið Íslendingum hefur farnast betur í hamingjukönnunum en mörgum nágrannaþjóðum, en við ættum að íhuga þróun í Evrópu og N-Ameríku því það er meginstraumurinn sem vökvar okkar menningu. Ef það er rétt, að íbúar á Vesturlöndum hafi ekki orðið hamingjusamari síðustu 50 ár á sama tíma og efnahagsleg velmegun er almenn er ástæða til að staldra við og íhuga stefnuna. Getur verið að þessi samfélög séu á villugötum og elti mýrarljós? Við ættum líka að spyrja meginspurninga, hvort samfélagsviðmiðin, pólitísku stefnurnar, fjársókn samfélagsins sé ekki öndverð grunnþörfum fólks? Því hefur oft verið haldið fram, að það sé beinlínis hættulegt fyrir hagvöxtinn ef of margir í samfélaginu verða hamingjusamir. Hagsældin getur ekki dafnað í of hamingjusömu þjóðfélagi. Þenslan getur ekki haldið áfram ef of margir halla sér aftur, glaðir, með bros á vör, fullnægðir og ánægðir. Hamingjusamt fólk er slæmir neytendur, reynir ekki að kaupa sér gleði, hefur uppgötvað, að hlutirnir eru ekki forsenda hamingjunnar, heldur aðeins tæki. Hamingjusamir menn eru gjarnan góðir starfsmenn og oft frábærir vinnukraftar. En þeir hætta að kaupa til að njóta, hafa oft lítinn eða engan áhuga á að auka tekjurnar með því að fórna starfsorku og tíma fjölskyldunnar fyrir það sem mölur og ryð granda. Neyslan lýtur að kaupum á ytri gæðum og kannski líka táknmyndum stöðu og efnahags - nærist á samanburði og samfélagslegum tröppugangi, sem hamingjusamur maður segir gjarnan skilið við.
Hamingja heimafengin Við byrjuðum að ferma unglingana hér í Nessöfnuði í gær. Fimmtíu ungmenni gengu að altarinu og guldu Jesú Kristi jáyrði sitt. Eftir hádegið á þessum pálmasunnudegi verður svo stór hópur fermdur og haldið verður áfram um og eftir páska. Við gerðum sl. haust könnun á lífsafstöðu og draumum fermingarbarnanna. Í ljós kom, að þau voru algerlega sammála Richard Layard í afstöðu. Hamingjan í þeirra huga er ekki fólgin í hlutum fyrst og fremst. Jú, vissulega geta þau hugsað sér að eignast ýmislegt, en meirihluti þeirra leitar hinna djúptæku gilda og gæða og þá í faðmi fjölskyldunnar. Hamingjan er heimafengin, hamingjan er fólgin í því, sem er á dýptina. Þetta skulum við muna því það er þvert á einfeldningslegt álit þeirra, sem halda að fermingarbörnin gangi upp að altarinu vegna gjafanna. Þau eru skynsamari og óbrenglaðri en fjárplógarnir, sem líta ferminguna með augum Mammons og þá kannski fjölskyldur sínar líka.
Þjófar erfa ekki Guðsríki! Hvað eltum við? Í bernsku heyrði ég oft móður mína tala um vinkonu sína, Guðnýju Gilsdóttur. Hún var merkileg kona. Guðný átti sér mörg baráttumál í lífinu. Hún barðist m.a. fyrir því að orðið dýrðlegt væri skrifað með ð-i. Ef ekki væri í því ð þá væri það of dýrslegt fyrir hennar smekk. Hún sagði að Jesús Kristur væri dýrðlegur en dýrlegur! Guðný var áhugakona um byggingu kirkju á Skólavörðuhæð, sem nú er risin. Hún var alveg á móti byggingu núverandi Hallgrímskirkju, sem henni fannst of lítil. Ástæðan var einföld, hún gæti ekki rúmað nema hluta safnaðarins! Guðný vildi miklu stærri kirkju. En því minnist ég á Guðnýju í dag, að hún átti sér athvarf vestur á Núpi þar sem hún dvaldist á sumrum. Þar lokaði hún ekki bæ sínum og óttaðist ekki um eigur sínar. En svona til að minna menn á heiðarleikann stóð yfir dyrum hennar þessi spaka og mikilvæga setning: “Þjófar og ræningjar munu ekki erfa Guðsríki.” Þar höfum við það! Það var auðvitað aldrei stolið frá Guðnýju og hún náði að prédika svolítið með þessari himnesku Securitasaðvörun sinni.
Hringsólið Hefurðu horft á hvolpa og kettlinga elta skottið á sér? Það er skemmtilegt að sjá þá hringsnúast eins og bestu skopparakringlur, fara hvern hringinn á fætur öðrum í hlaupunum á eftir eigin líkamshluta. En þessi skotthlaup gegna auðvitað mikilvægu þroskahlutverki, þjálfa líkama þessara stæltu dýra. Svo láta þau af að elta skottið, þegar þau eldast og gera sér grein fyrir að það er ýmislegt skemmtilegra en að elta afturendann á sjálfum sér! Ég man eftir einni barnabók, sem ég las fyrir mína krakka, þar sem tígrisdýrið hringsólaði svo hratt að það bráðnaði og varð að smjöri. Svo illa geta hlaupin endað!
Kannski stelum við ekki peningum og eltum ekki eigið skott, en stundum hringsnúumst við þó kringum sjálf okkur, vanda okkar, heilsuleysi og eignir. Eitthvað tekur hug okkar og líf og skilgreinir hvað við erum, hvernig við erum og hvert við rásum í lífinu. Við eigum gjarnan einhverja gulrót í verkum og vinnu. Stundum fegrum við eltingaleik okkar og tölum um að hafa heilbrigðan metnað. Öllu skiptir að gera sér grein fyrir í hvaða eltingaleik við tökum þátt. Mörgum okkar sést yfir, að sönn hamingja kostar afar lítið, en svo er fólk tilbúið að greiða hátt verð fyrir eftirlíkingar. Við þurfum æfa okkur í þeirri einföldu afstöðu, að hamingjan er lán en ekki eign og það lán er aðeins veitt í nánum samskiptum við fólk. Þegar eltingaleikur lífsins er gerður upp kemur í ljós, að engin efnisgæði megna að gera okkur hamingjusöm, ef hamingjan hefur ekki numið land innan í okkur. Hvað er til að efla með okkur innri ró? Innri gæði geta menn eflt óháð trú. En trúin veitir hins vegar mjög ákveðið samhengi varðandi gildi og röðun þeirra.
Guð eltir okkur Hvert er þá lífsgæðakapphlaup hins trúaða? Jú það er að elta Jesú. Á pálmasunnudegi erum við minnt á að farísearnir nöldruðu yfir, að allur heimurinn elti hann. Við vitum svo, að nokkrum dögum síðar var stór hluti af heiminum á móti þessum asnaknapa, sem þeir höfðu fylgt og hyllt. Eltingaleikurinn verður fyrr en varir falskur og rangur. Við hættum að elta Jesú og förum að elta eitthvað annað og ef ekki vill betur – eigið skott, okkur sjálf, skugga okkar og falsgildi. Í því hringsóli er mikilvægt að sperra eyrun og heyra boðskapinn um, að við erum ekki týnd í hringsólinu, heldur er Guð líka í eltingaleik. Guð leitar að okkur, Guð hefur ekki yfirgefið okkur heldur kemur sjálfur, tekur okkur í fangið og blessar okkur. Bernskuleikurinn gengur upp í leik himinsins. Við finnum ekki Guð heldur finnur Guð okkur. Amen ________________________________________ [i] Polly Toynbee í grein í breska blaðinu the Guardian. Þar ræðir hún um Richard Layard. http://www.guardian.co.uk/comment/story/0,3604,909025,00.html. Ef leitarvélarnar eru látnar fletta upp Richard Layard kemur mikið efni og m.a. http://cep.lse.ac.uk/layard/ [ii] Greinin var eftir Jón Orm Halldórsson og birtist í Fréttablaðinu.