Allir í vondum málum?

Allir í vondum málum?

Í okkur öllum er einhver andlegur sullur af líku tagi og sá sem nú virðist hrjá volduga menn í háum sætum og sölum. Við erum syndugar manneskjur og þegar við dæmum aðra, dæmum við okkur sjálf.

Þegar hann var að leggja af stað, kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: Góði meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?

Jesús sagði við hann: Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.

Hinn svaraði honum: Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.

Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: Eins er þér vant. Far þú, sel allt, sem þú átt, og gef fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan, og fylg mér. En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur, enda átti hann miklar eignir.

Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: Hve torvelt verður þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki.

Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú, en hann sagði aftur við þá: Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.

En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: Hver getur þá orðið hólpinn?

Jesús horfði á þá og sagði: Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en fyrir Guði. Guð megnar allt. Mk. 10. 17-27

I.

Miklar og alvarlegar eru þær fréttir sem við heyrum í dag:

Ríkir menn eiga erfitt með að komast inn í himnaríki.

Og við, þessi ríkasta þjóð veraldar sé miðað við höfðatölu og almenna velsæld, virðumst engar áhyggjur hafa af því. Líkingin um úlfaldann og nálaraugað er líklega í eyrum margra eins og skemmtileg gáta, líking, skáldleg flétta, sem gaman er að skoða og dást að. Sé það rétt sem Jesús segir þá er þessi frétt eins og fregn um yfirvofandi fellibyl yfir ríkustu þjóð veraldar.

Og nú dynur mikið á annarri ríkri þjóð, þeirri voldugustu í veröld hér og við finnum til með ráðvilltu fólki sem verður að flýja heimili sín undan ægivaldi náttúrunnar. Sjaldan hefur það verið heimsbyggðinni ljósara en einmitt nú hversu smár maðurinn er andspænis náttúruöflunum. En hvað þá með hinar hinstu hamfarir, fellibylinn sem ganga mun yfir alla synduga menn, sem eru dæmdir til að farast? Við erum öll dæmd til að farast vegna þess að við eru breysk og brotleg og höfum ekki lifað eftir orði Guðs. Í okkur öllum er einhver andlegur sullur af líku tagi og sá sem nú virðist hrjá volduga menn í háum sætum og sölum. Við erum syndugar manneskjur og þegar við dæmum aðra, dæmum við okkur sjálf.

Hvenær getum við lifað eftir boðum Drottins?

Aldrei!

Hvers vegna erum við þá að streða við það alla daga að reyna að vera góðar manneskjur?

Vegna þess að við erum knúin til þess að stefna að hinu ónáanlega markmiði, hinum ómögulega möguleika.

Ísrael er áminntur um einfalda hluti í lexíunni: að óttast Guð og elska hann því honum heyrir allt til, bæði himinn og jörð. Hann er hinn hæsti og sá eini sem er þess verður að óttast og elska.

Postulinn slær á sömu strengi og minnir á elskan hvílir á grunni hans sem er ljós heimsins. Elskan verður að koma fram í elskusamri breytni. Elskan, kærleikurinn, að kristnum skilningi, er ekki huglægt ástand heldur verknaður, gjörð. Að elska er að sýna elskuna í verki. Elskan er ákvörðun.

II.

Svo kemur hann hlaupandi til Jesú, blessaður maðurinn, þessi frómi og guðhræddi maður, sem er búinn að gera allt rétt, fara eftir bókstafnum - og veit ekki sitt rjúkandi ráð! Hvað á ég að gera? spyr hann. Hann hefur ekki drepið mann eða haldið fram hjá konu sinni. Og ekki hefur hann sætt lögreglurannsókn fyrir þjófnað eða lagfæringar á bókhaldi sínu eða logið upp á náungann Hann hefur ekki svikið fé af nokkrum manni, þaðan af síður skammtað sér ríflegan skerf á kostnað þjóðfélagsins og aldrei sent vafasaman tölvupóst. Hann hefur reynst góður sonur, hugsað vel um pabba og mömmu, sem eru orðin öldruð. Samt er hann í öngum sínum. Hvað er hægt að segja við slíkan mann? Hvað mundir þú segja við mann sem kæmi til að leita ráð hjá þér, mann sem væri með allt á hreinu, en samt í flækju með líf sitt? Mundir þú segja honum að selja allt?

Svar Jesú getur virkað hrokafullt og fjarstæðukennt: Losaðu þig bara við allt draslið og þá áttu fjársjóð á himnum. Seldu íbúðina, bílinn, sumarbústaðinn, skemmtibátinn, málverkasafnið og hlutabréfin og gefðu það til Hjálparstarfs kirkjunnar eða sóknarnefndarinnar í hverfinu þínu og þá verður allt í besta lagi hjá þér.

Er hægt að tala svona?

Og fyrst þessi orð eru eignuð Jesú, hvað á ég þá að segja? Á ég að verja þessi furðulegu orð frammi fyrir söfnuðinum í messunni hér í dag? Eða á ég kannski bara að vísa málinu frá eins og dómararnir gerðu í Baugsmálinu vegna þess að mig vantar meiri upplýsingar og fæ ekki frekari skýringar hjá Jesú.

Er nema von að maðurinn hafir orðið hryggur? Hann átti miklar eignir. Kannski var hann útrásarmaður og fjárfestir sem fann engan frið í lífi sínu þrátt fyrir allan auðinn. Kannski leið honum eins og útgerðarmanninum og fiskverkandanum, sem svaf ekki af áhyggjum yfir fyrirtækinu. Svo þegar kvótinn kom þá notaði hann tækifærið og seldi allt. Nú átti hann nóg af peningum. Gat hann sofið rólegur? Nú hafði hann ekki lengur áhyggjur af bátnum úti í vondum veðrum eða fiskverkafólkinu í landi heldur snerust hugsanir hans um það hvort peningarnir gætu verið á betri ávöxtun annars staðar. Nei, hann gat ekki sofið rólegur. Af hverju er Jesús að skensa auðmenn? Eru þeir ekki burðarásar þjóðfélagsins og allra framfara? Hvers konar meinlæti er þetta? Jaðrar þetta ekki við einelti? Eða er hann alls ekki að skensa auðmenn? Er hann kannski bara að benda á forgangsröðun?

III.

Meistaranámsnemar í viðskiptafræði sækja tíma í Neskirkju um þessar mundir, ekki hjá okkur prestunum heldur prófessorum í sinni grein, sem kenna við HÍ. Sumum þessara nemenda þykir án efa dálítið skrítið að vera að stúdera mammonsfræði í húsi Drottins og hafa reyndar sumir haft orð á því við mig. Einn prófessorinn gantaðist við mig um þetta á dögunum og spurði hvort ég ætlaði ekki að reka fólkið út og hrinda um borðum þeirra. Ég svaraði að ég hefði ekkert við það að athuga að hann kenndi þessi fræði innan veggja kirkjunnar, viðskiptafræði og viðskipti væru nauðsynleg og allt það. Hins vegar væri okkur jafnan hollt að muna að mammón væri ágætur þjónn en afleitur húsbóndi. Og þar liggur hundurinn grafinn. Þegar mammón verður húsbóndi, hjáguð, þá eru menn lentir í andlegum fellibyl sem engu eirir.

En blessað fólkið sem er að læra í háskólum að auka hagvöxtinn og hagnast í lífinu er það um leið að búa sér til fótakefli á leiðinni til himins? Verður þeim torveldara að komast þangað en hinum sem minna hafa á milli handanna? Torvelt, sagði Jesús, en ekki ómögulegt. Möguleikinn er þá ekki ómögulegur möguleiki heldur mögulegur möguleiki. Úff! Gott að vita það, mundi einhver segja!

Og svo er það líkingin um úlfaldann og nálaraugað. Hún er auðvitað fjarstæðukennd, hyporbólísk hyperbóla, ofur-yfirdrifin líking, svo ekki sé nú dýpra í árinni tekið. Eða er þetta saga um litla hliðið á borgarmúrum Jerúsalem þar sem úlfaldi gat með naumindum skriðið í gegnum, klifjalaus og auðmjúkur? Við vitum það ekki. Mig minnir að til sé önnur líking um að úlfaldi og kaðall séu skyld orð á hebresku eða grísku eða arameísku (ég man ekki hvaða máli) og að líkingin eigi við um þann sem reynir að þræða nál með kaðli. Ríkir maður og guðsríki – „you can’t fit a round peg in a square hole“ – minnir á barnaleikfang sem við þekkjum öll.

Ég var í heita pottinum í Vesturbæjarlauginni s.l. fimmtudagsmorgunn, rétt áður en við prestar hittumst hér í Neskirkju til að ræða prédikunartexta þessa sunnudags. Ég sagði pottverjum að nú væri erfiður texti í vinnslu, textinn um úlfandann og nálaraugað. Og þá gall við í einum: Er ekki bara auðveldast að stækka nálaraugað? Orð sögð í gríni en kannski eru þau dæmigerð fyrir samtíðina sem vill helst færa til mörkin ef henni sýnist svo.

En orð Jesú standa og skyldi nokkurn undra að áheyrendur Jesú hafi orðið furðu lostnir að heyra um þessar gríðarlegu hindranir í vegi ríkra manna?

Mér er sagt að stórefnuðu fólki fjölgi mjög í landinu. Á dögunum fyllti íslenskur banki þrjár flugvélar af íslenskum efnamönnum, körlum og konum, til að dekra við þá í erlendri borg. Já, það er hart barist um kúnnana. Eigum við að amast við því. Nei, en við getum minnt fólk á forgangsröðun í lífinu. Mér er líka sagt að margt af þessu ríka fólki berist ekki á í einkalífi og gefi til góðgerðamála, til guðsþakka án þess að láta berja í bumbur fyrir sér. Það er gott ef svo er.

IV.

En hvað á ég að segja við ykkur hér í dag, kæri söfnuður? Tala gegn hagvextinum? Gegn auðsöfnun? Gegn Baugi? Gegn Burðarási? Gegn sjálfteknum, ríflegum eftirlaunum og tvöföldu kaupi?

Nei, en ég ætla að tala um elskuna til Guðs og náungans, um að óttast Guð og láta gott af sér leiða, um að lifa í sátt við sjálfan sig. Hvernig líður þeim annars sem eru frekir til fjárins, sem klifra upp eftir bakinu á öðrum, sem skammta sér meir en þeim ber? Hvernig líður sjálftökumönnum samtímans? Er hægt að láta sér líða vel í miklum auði, sínkur á fé, eða yfir illa fengnum hlut, nema í heimsku, siðblindu eða geðvillu?

Hvað er það sem bindur sálu mína? Er það auður, hús, bílar, frami, vinsældir,eftirsókn eftir athygli? Hvað þarf ég að „selja“ og „gefa“ til þess að öðlast frið og jafnvægi í lífinu, finna shalom eins og hann Þórir heitinn Kr. talaði svo gjarnan um og af svo miklum innblæstri í guðfræðideildinni forðum? (Dr. Þórir Kr. Þórðarson 1924-1995). Hvað á ég að gera? Og hvað eigum við að gera,sem erum hér kirkju á sunnudegi, aldraðir og ungabörn, fermingarbörn og foreldr og aðrar leitandi sálir á öllum aldri? Svarið er þetta: Gefa og elska, elska og gefa. Elskan er ákvörðun.

Þannig virkar hagfræði himinsins. Þannig verðum við rík, miklu ríkari, hvort sem við eigum mikla peninga eða ekki. Þannig komumst við heim, ekki með gjaldi góðverkanna, því við getum ekki frelsast fyrir eigin tilverknað, en með hjálp Guðs er það hægt, eða eins og segir í kollektunni: „Drottinn, vér biðjum þig: Lát verk miskunnar þinnar stjórna hjörtum vorum, því að án þín megnum vér ekki að þóknast þér.“

Við getum ekkert án hans!

„Í honum lifum, hrærumst og erum vér.“ (Post 17.28)

Ekki satt?

Hann frelsar undan hamförum, fellibyljum og hinsta dómi þegar við fáum það sem enginn maður verðskuldar en engum manni bregst: náð og miskunn hins upprisna Krists!

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi,er og verður um aldir alda. Amen.