Engin orð ná að lýsa tilfinningum manns gagnvart fréttunum af hinum skelfilegu atburðum í Beslan. Að hugsa sér börn í gíslingu morðóðra og siðblindra hermdarverkamanna sem einskis svífast! Við erum harmi lostin yfir því og því hryllilega blóðbaði sem eftir fylgdi. Við hugsum í hluttekningu til barnanna og fjölskyldna þeirra og rússnesku þjóðarinnar sem verður fyrir þessari grimmúðlegu árás. Við erum orðvana, hljóð og harmþrungin. En líka reið. Okkur er fyrirmunað að skilja þá ólýsanlegu grimmd og mannvonsku að taka saklaus skólabörn í gíslingu. Svona á ekki að geta gerst! Allir siðaðir menn hljóta að fordæma slíkt og þvílíkt!
Þessar fregnir og allt of margar fregnir ársins af voðaverkum, sjálfsmorðsárásum og grimmd og hatri, hafa fært heim sanninn um vanda okkar daga, hve óskiljanlegur og óskýranlegur og óleysanlegur sá vandi er sem við er að etja. Þó er alveg dagljóst að það sem máli skiptir er ekki skarpskyggni skilningsins né yfirburðir vopna og tækni, heldur siðferðisgrunnurinn og siðgæðisviðmiðin. Okkar kristna trú á sér forsendu í því að Guð, hinn æðsti máttur, hið æðsta vald tilverunnar, varð barn á jörðu, drengurinn hennar Maríu í Nasaret. Þar er fólgin viðmiðun trúar sem hvetur okkur til að horfa ekki reið og hefnigjörn um öxl, heldur opna fyrir náunganum faðm fyrirgefningar og umhyggju. Það útrekur óttann, kærleikurinn yfirvinnur óttann. Og sú trú hvetur okkur að einblína ekki á stundarhag og skammvinnan gróða, heldur gera okkur grein fyrir því hverjar afleiðingarnar eru fyrir komandi kynslóð, fyrir börnin og þau varnalausu. Kristur hvetur okkur að hafa ætíð fyrir augum mynd barnsins. „Slíkra er himnaríki,“segir hann, þeirra vegna er lífið og framtíðin. Og enga ávítar hann eins hart og þá sem koma illa fram við börnin. Í því siðgæði og trú sem Kristur kennir, felst von um lausn úr vítahring hatursins og ofstopans og óttans.
Börnin í Beslan eru enn ein áminningin um að í átökum 21. aldar bera börnin kostnaðinn af stríði og átökum hinna stóru. Börnin eru réttlítil í heimi þar sem fjármunirnir ráða för og vopnin eru látin tala og hatrið veður uppi. Börnin líða vegna ákvarðana hinna voldugu þar sem stóru reikningarnir eru gerðir upp. En við skulum líka horfa okkur nær. Líka í hinum smáa hversdagsheimi okkar líða börnin fyrir ákvarðanir sem setja þarfir barnanna til hliðar, leggja þeim byrðar á herðar og taka þau í gíslingu stundarhagsmuna hinna fullorðnu. Börnin líða einatt fyrir ákvarðanir okkar og mistök og bera fórnarkostnaðinn af okkar stríði og striti neyslu og lífsþæginda og lífsflótta. Hann sem fæddist í Betlehem og lauk lífsdegi sínum á krossi, kennir okkur að mikilvægara en að skilja og skilgreina vandamálin og gera upp sakir fortíðar er hæfileikinn að heyra grát barnsins, og bregðast við honum og láta umhyggju og kærleika ráða för. Í hverju barni sjáum við hans mynd.
„Guð blessi börnin bæði ung og smá, vís er þeim vörnin voðanum frá.....“
Sameinumst í bæn fyrir þeim sem líða vegna þessara voðaverka, í samstöðu með rússnesku þjóðinni sem verður fyrir þessari grimmúðlegu árás.
Karl Sigurbjörnsson er biskup Íslands.