Frumregla breytninnar sem Jesús setur fram í fjallræðunni, Matt. 7.12-13 hefur verið nefnd „gullna reglan.“ Gullna reglan þekkist reyndar um víða veröld. Segja má að hún birti sammannlegt siðgæðisviðmið sem mannkyn þekkir og samþykkir, enda ritað á hjarta mannsins frá öndverðu.
Hugmyndir um meðfæddan hæfileika mannsins að greina milli góðs og ills og að sú meðvitund, samviska, sé studd skynsamlegum rökum, og eigi auk þess guðlegan bakhjarl, hafa verið lítilsvirtar í samtímanum. Að mínu mati verðum við að endurheimta vitundina fyrir algildum forsendum siðferðisins. Það er lífsnauðsyn fyrir framtíð lífs og heims. Hér hafa helstu trúarbrögð heims mikilvægu hlutverki að gegna. Við lifum ekki í aðskildum heimum. Heimurinn er einn, mannkynið er eitt, á sömu jörð, undir sama himni. Og Guð er einn, máttur hins góða, fagra og fullkomna. Í samtíðinni er rík hneigð til þess að skipta siðgæðinu upp í aðskilin svið. En læknavísindin, viðskiptin, lögin, stjórnmálin, heimilislífið, eru ekki aðskildir heimar sem lúta sérstökum siðaforsendum. Lúther talaði um reglu sköpunarinnar, fjölskyldu, ríkisvald, vinnu, sem „larvae Dei,“ grímur Guðs, hins hulda, lifanda Guðs. Ekkert líf er frjálst undan þeim kröfum sem Guð leggur á okkur, kröfum sem rísa innan úr djúpum hjartans og minna á sig í návist annars fólks og atvikum og örlögum lífsins. Allt siðgæði byggir á og á rætur að rekja til sömu reglu skaparans, eins og gullna reglan sýnir.
Regla skaparans er það sem fyrirfram er gefið og við getum þekkt aftur og reynt af mannlegri skynsemi óháð trú og guðfræði. Lúther sagði:„Það er ekki nauðsynlegt að stjórnandinn sé helgur maður, hann þarf ekki að vera kristinn maður til að geta stjórnað, það nægir að hann sé skynsamur.“Allir eiga með einhverjum hætti hlutdeild í stjórnmálum, fjölskyldu og efnahagslífi samfélagsins og er ætlað að leggja eitthvað til þess með því að þjóna öðrum. Og öllum mætir sama krafa umhyggju og kærleika. Skaparinn sem setur lögmálið er að verki í heiminum þar sem kristið fólk og guðleysingjar, múslimar og hindúar, allir menn eiga sér sameiginlegan grundvöll. Það merkir að stjórn Guðs í þessum heimi er ekki aðeins í höndum trúaðra og það er ekki aðeins trúaðir sem skilja og greina vilja hans, heldur eitthvað sem er öllum gefið sem hafa skynsemi og samvisku. Enginn heimur er til þar sem Guð er dauður, enginn veröld þar sem Guð er ekki að verki.
Sköpunarmáttur Guðs er að verki í heiminum, og með lögmáli sínu sem skipar málum manna hamlar hann gegn hinu illa og greiðir veg því góða. Lögmálið er verkfæri guðlegs verks og mætir öllum mönnum þar sem þeir eru á vettvangi lífsins. Ekkert svið lífsins er til þar sem Guð er ekki virkur í lögmálinu sem höfðar til samvisku manna. Guð er alstaðar nálægur sem aflið sem knýr fólk, jafnvel óheiðarlegt fólk, til að gera rétt og standa gegn órétti, að vinna fyrir fjölskyldu sinni þrátt fyrir eðlislæga leti, að aðstoða náungann og sýna umhyggju þótt það séu sjálfselskt og sjálflægt. Lífið gæti ekki haldið áfram eitt andartak ef Guð væri ekki að áminna, leiðbeina, laða og hafa áhrif á skynsemi og samvisku sérhvers manns. Af því að lögmálið er ritað á hjörtu mannanna. Mælikvarðinn sem lagður er á hvaða kröfur lífsins eru réttmætar og hverjar ekki og hefur Guð sem hulinn höfund sinn, er hverjum manni aðgengilegur í hugmyndum um réttlæti. Hvað er réttlæti? Kjarni réttlætis á ávallt og alls staðar er umhyggjan um náungann. Það vald sem þarf til að greiða réttlætinu veg gegnum lögmálið er verk kærleikans í opinberu lífi. Allt lögmálið er samandregið í boðorðið: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Matt.19.19) Lög eru réttlát þegar þau eru í þágu umhyggju um fólk, vernda hinn veika, standa gegn illverkum og umbuna því góða.