Í huga okkar flestra er aðventan tími gleði og eftirvæntingar. Tími góðra minninga frá umliðnum aðventum og flest viljum við hafa undirbúning jólanna eins og árin á undan.
Snemma í desember eitt árið ákvað fjölskyldufaðir í einum af úthverfum Reykjavíkur að þau jól yrði ekki keypt jólatré.
Hann hafði ákveðið upp á sitt einsdæmi að það árið yrði jólatréð sótt í sveitina, beint frá skógræktar bónda. Hann hafði orð um að tími væri til kominn á að börnin vissu eitthvað um lífið og hvaðan jólatréð kæmi eins og á árum fyrr þegar fólk var almennt tengdara náttúrunni.
Yngsti fjölskyldumeðlimurinn, stúlka á að giska átta ára upplýsti föður sinn um að hún hefði verið með skólanum sínum á Árbæjarsafni fyrr um daginn þar sem voru til sýnis jólatré, sem notuð voru í gamla daga og það voru alls ekki jólatré heldur kústskaft eða eitthvað með mosa og lifandi alvöru kertaljós.
„Já, það var í eldgamla daga“ sagði pabbinn. „Í dag er fullt af trjám úti um allar sveitir.“ Unglingurinn á heimilinu maldaði í móinn og spurði hvort þessi jól yrði ekki farið í bæinn og fengið sér súkkulaðibolla og piparkökur eins og þau voru vön að gera eftir að hafa sótt jólatré hangandi í bandspotta?
Dagurinn rann upp. Svalur og dimmur laugardagsmorgunn. Nett jólastemming í loftinu. Eitthvað hafði snjóað um nóttina. Færðin var ágæt. Pabbinn hafði orð á að vonandi væru ekki útlendingar á vanbúnum bílaleigubílum að þvælast fyrir þeim sem þekkja íslenska veðráttu og það sem meira er kunna að keyra í snjó. Það var sameiginleg ákvörðun þeirra hjóna að hafa skóflu í bílnum. Þegar komið var með skófluna, heyrðist unglingurinn muldra fyrir munni sér hvort ætlunin væri að moka upp jólatréð.
Eftir dágóðan akstur um uppsveitir Árnessýslu rambaði fjölskyldan á staðinn. Stuttu áður en þau komu hafði rafmagnið slegið út af svæðinu. Skyggnið var slæmt fyrir og ef eitthvað fór versnandi. Bensínknúnu vélsagirnar virkuðu ekki vel vegna kulda og eitthvað af þeim ónothæfar. Þau fengu líka að vita að úrvalið af trjám var takmarkað vegna allra þeirra sem höfðu komið dagana á undan.
Fjölskyldufaðirinn staðráðinn af fá tré á þann hátt sem gæti orðið ný aðventuhefð fyrir fjölskylduna, greip öxi sem lá við afgreiðsluskúrinn og strunsaði inn í skóginn með þær upplýsingar á bakinu að einungis mætti höggva tré merkt rauðu. Eftir að hafa öslað snjóinn sem sífellt bætti í stóð fjölskyldan frammi fyrir trénu sem skyldi prýða heimili þeirra þessi jól. Eftir að fjölskyldu-faðirinn hafði gætt að fyllsta öryggi. Það, að eiginkonan og börnin stæðu í hæfilegri fjarlægð frá trénu þegar það félli, sveiflaði hann öxina fagmannlega og söng í þegar hert stálið kyssti gaddfreðinn trjástofninn. Í minningu fjölskyldunnar kom þessu næst þungt og lamandi hljóð, PUFH!!! Snjókófið byrgði þeim sýn um stund. Þegar rofaði til sáu þau fjölskylduföðurinn eða það sem sást í hann – höfuðið standa upp úr snjóhrúgu. „Nú skil ég afhverju við tókum skófluna með okkur“ heyrðist í unglingnum.
Ekki varð fjölskylduföðurnum meint af nema stoltið beið smá hnekki. Um síðir tókst fjölskyldunni með sameiginlegu átaki að fella tréð, sem reyndar var svolítið stærra en þau ætluðu þarna inni í miðjum skóginum. Má með vissu segja að enginn bandspotti hefði haldið trénu uppi heima í stofu. Með miklum erfiðismunum var trénu komið fyrir á toppi bílsins. Ekki var viðlit að koma því inn í bílinn og ekið var af stað heimleiðis. Höfðu krakkaormarnir með unglinginn i farabroddi, orð á að þetta væri eins og hjá Griswold fjölskyldunni amerísku í Christmas Vacation jólamyndinni þar sem bíllinn silaðist áfram með stórt og þungt tréð út á þjóðveg 1. Toppur þess slúttaði niður fram undir framrúðu bílsins og stofninn stóð afturúr.
Segir ekki af ferð fjölskyldunnar fyrr en til móts við Litlu Kaffistofuna. Óhætt er að segja að þau hafi vakið athygli vegfarenda sem annaðhvort lágu á bílflautunni og eða blikkuðu bílljósin hvort heldur verið væri að taka fram úr þeim eða koma á móti. Fjölskylduföðurnum fannst það krúttlegt og sætt og blikkaði ljósum og lá á flautunni svo úr varð einn allsherjar flautukonsert rétt austan við og til móts við Litlu kaffistofuna.
Krúttleg heitin snerust fljótlega upp í andhverfu sína þegar dóttirinn átta ára spurði pabba sinn hvort hann ætlaði ekki að hleypa trénu fyrir aftan bílinn fram úr þeim. Fjölskylduföðurnum verður þá litið í baksýnisspegilinn. Stóð heima. Fjölskyldutréð í bókstaflegri merkingu stóð teinrétt fyrir aftan bílinn á 80 km. hraða. Svo mjög varð fjölskylduföðurnum um að hann missti sjónar á veginum og á einu augnabliki með skruðningi og látum sat fjölskyldan í fjölskyldubílnum utan vegar í snjóruðningi og jóltréð ofan á eins og umfaðmandi móðir og gætti þess að allir í bílnum væru heilir á húfi. Líka útlendingarnir ættaðir frá Kóreu sem komu fyrstir á vettvang og spurðu hvort þeir gætu aðstoðað. „Því það er ekki auðvelt að aka í snjónum á Íslandi, sérstaklega fyrir óvana ökumenn“ sögðu þeir og brostu sínu breiðasta.
Hún er í hávegum höfð aðventuhefðin hjá fjölskyldunni í einum af úthverfum Reykjavíkur að sækja jólatré sem hangir í bandspotta og síðan fá sér heitt súkkulaði í yfirflullum veitingastað með öllum hinum túristunum í miðborg Reykjavíkur.
Allt annað er ekki til umræðu á því heimilinu eða eins og fjölskyldufaðirinn segir: Aðventan á að vera dagar hátíðar og eftirvæntingar.“ Já og hefðar sem gengur upp áfallalaust.
Aðventu og jólakveðja,