Passíusálmarnir eru sú bók íslensk sem oftast hefur komið út. Á fyrri hluta ársins leit 92. útgáfa Passíusálmanna dagsins ljós og um leið sjöunda útgáfa þeirra á þessari öld. Úgáfu annaðist Mörður Árnason og bókina hannaði Birna Geirfinnsdóttir, útgefandi Crymogea, Reykjavík.
Mörður nefnir sig jafnframt leiðsögumann því að þessi útgáfa Passíusálmanna býður upp á ferðalag um sálmana þar sem leiðsögumaðurinn flytur skýrar og skilmerkilegar skýringar á innihaldi þeirra, málfari þeirra, ýsmum orðum og orðatiltækjum og loks um bragfræði sálmanna. Með hverjum sálmi er birtur sá texti píslarsögunnar sem Hallgrímur gengur út frá úr handbók presta Guðspjöll og pistlar útg. 1617 og er líka mikill fengur að því. Bókin er alls 652 tölusettar blaðsíður.
Hún er ákaflega vel úr garði gerð, fallega hönnuð og prentuð og textinn vel upp settur. Leiðsögn Marðar er mjög greinargóð og skýr. Þessi útgáfa er mikið þrekvirki og sómi fyrir alla þá sem að henni standa. Mestur er hluti Marðar Árnasonar. Hann veitir mjög góða leiðsögn um sálmana frá margs kyns sjónarhornum þar sem mætast bæði bókmenntafræði, málfræði, bragfræði, sagnfræði og guðfræði og hvarvetna er litið á Passíusálmana og höfund þeirra í samhengi við samtíma sinn.
Þarna er saman kominn mikill fróðleikur og framsetning öll er mjög greinargóð. Það er mikill fengur að þessari bók og ég leyfi mér að óska Merði og öðrum aðstandendum hennar innilega til hamingju. Það eru falleg orðin sem hann þakkar föður sínum í eftirmála bókarinnar með og segir hann bera þá „ábyrgð á útgáfunni að hann vakti forðum daga athygli þess sem hér skrifar á snilldinni í Passíusálmunum – og var það ekki lítið afrek í miðju ungdómsþverlyndinu.“