Víngarðseigandi og verkamenn

Víngarðseigandi og verkamenn

Þegar við yfirgefum kirkjuna þá förum við út á torg lífsins. Þar heldur guðsþjónustan áfram. Þjónusta við Guð og sköpun hans. Þjónusta við samferðamenn okkar. Þjónusta í kærleika. Allt líf er þannig þjónusta. Allt líf er bæn. Allt líf er lofgjörð. Við erum verkamenn Guðs. Biðum fyrir betri heimi! Lofum það sem við höfum og vonum að allt verði gott og Guð muni gjalda okkur laun sín í fyllingu tímans. Náð Guðs er mikil.


Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

Biðröðin gengur hægt því aðeins einn kassi er opinn. Þegar einhver loksins kemur og opnar annan kassa fer sá sem síðastur er í langri röð yfir á lausa kassann og segir með bros á vör: "Þeir síðustu verða fyrstir og þeir fyrstu síðastir.” Allir skilja við hvað er átt og enginn móðgast því þarna er sannleikur úr sjálfri Biblíunni. Eða er þetta kannski ekki svona? Enginn er glaður þegar annar kemst framar í röð. Mörg orð og orðtök Biblíunnar notum við í daglegu tali, jafnvel án þess að vita það sjálf. Siða- og trúarboðskapur Biblíunnar er líka allt í kringum okkur og mótar allt okkar líf án þess þó að við veitum því sérstaka athygli. Orð Jesú eru að sönnu áhrifarík.

Guðspjall dagsins hefur þetta mjög þekkta orðatilæki um hina síðustu sem verða fyrstir. En þetta eru ekki bara einhverjir er bíða sem verða fyrstir. Hér er tiltekinn hópur fólks. Verkamenn sem voru ráðnir til að vinna verk. Og þeir sem voru ráðnir síðast fengu fyrst laun sín greidd. Jesús sagði þessa sögu. Eins og svo margar sögur hans þá er þetta dæmisaga. Herra víngarðsins er Guð. Víngarðurinn er veröldin og við mannfólkið erum líkt og verkamennirnir ráðin til verka á ólíkum tímum til að starfa í veröldinni.

Guðspjall dagsins, dæmisagan um verkamennina og víngarðinn, kemur ekki bara upp úr þurru í Biblíunni. Dæmisagan stendur í ákveðnu samhengi. Áður lásum við að Pétur og lærisveinarnir urðu vitni að því að ríkur ungur maður kom til Jesú og spurði hvað hann ætti að gera til að öðlast eilíft líf. Hann hafði haldið öll boðorð og lifað góðu lífi. Jesús krafðist meira af honum og bað hann um að láta frá sér allt sem hann á og koma og fylgja sér. Ungi maðurinn hvarf sorgmæddur á braut. Honum var ómögulegt að yfirgefa eigur sínar. Eftir þetta ræddi Jesús um hættuna sem felst í auðæfunum. Að við elskum auðæfi meira en allt og þar segir hann hina dásamlegu líkingu um að jafn erfitt sé fyrir hina ríku að komast í Guðsríki eins og fyrir úlfalda að fara í gegnum nálarauga. Fyrir mönnum er slíkt ómögulegt en Guði er þó ekkert um megn verður niðurstaða Jesú.

Pétur bar sig og lærisveinana saman við unga ríka manninn og sagði eitthvað á þá leið. „Við höfum yfirgefið allt og fylgt þér. Hvað eigum við þá að fá? Ríki ungi maðurinn lét ekki allt frá sér til að fylgja Jesú. En Pétur og lærisveinarnir gerðu það. Svar Jesú er: Og hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá allt hundraðfalt aftur og öðlast eilíft líf. En margir hinir fyrstu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir.“ Þannig endar nítjándi kafli Mattheusar á samskonar nótum og guðspjall dagsins í kafla 20. Hinir fyrstu koma síðastir. Segja má því með sanni að kafli 19 sé í miklu samhengi við dæmisöguna um verkamenn víngarðsins.

Sagan um verkamennina er að mörgu leyti einföld. Maður ræður fólk í vinnu og semur um kaup og kjör. Hann greiðir eftir því sem samið er um. Grundvöllur samningsréttar segir líka að orð skuli standa og því heldur víngarðseigandinn fram þegar að uppgjöri kemur. En á sama tíma er sagan sérkennileg því víngarðseigandinn ætlar að borga öllum það sama. Það eru fáir ef nokkrir vinnuveitendur sem greiða full dags laun til þeirra sem gætu hafa aðeins unnið klukkutíma. Þeir sem hafa unnið eina klukkustund ættu ekki að vinna sér inn eins mikið og þeir sem hafa unnið í heilan dag! Erum við ekki annars sammála því? Réttlætiskennd okkar er þannig gerð að hún mælir allt í mælieiningum. En sagan er ekki um venjuleg viðskipti á vinnumarkaði það segir Jesús berlega. Jesús hóf dæmisöguna með því að segja að „himnaríki er eins og landeigandi sem fór snemma einn morgun til að ráða fólk til starfa í víngarði sínum.“ Þarna kemur strax fram að sagan er ekki venjuleg. Markmið dæmisögunnar er að segja eitthvað um himnaríki, eða Guðs ríki. Og að þetta ríki sé frábrugðið heiminum sem við búum í.

Víngarðseigandinn birtir okkur mynd af Guði og hvernig Guð kemur fram við fólk. Dómgreind Guðs er önnur en okkar. Réttlætiskennd Guðs er önnur. Gæska Guðs á sér ekki takmörk  fremur en nokkuð í hans veru. Við ættum ekki að kvarta yfir því að Guð gefi einhverjum eitthvað sem þarfnast þess jafnmikið eða meira en við.  Guð setur ekki lífið okkar upp í exelskjal og reiknar í einhverjum töflureikni hvað hver og einn ætti mögulega skilið. Dómur Guðs er ætíð bundinn náðarvilja hans.

Á dögum Jesú voru daglaunamenn algengir. Þeir hittust á torginu um morguninn og buðu fram krafta sína. Þetta hlýtur að hafa verið erfið staða að vera í. Bíða í óvissu hvort einhverja vinnu væri að fá. Lifa þannig í óvissu um hvort laun fengjust þann daginn til að fæða fjölskylduna.

Fyrir okkur sem lesum dæmisöguna kunna ýmsar spurningar að vakna. Hvers vegna fer víngarðseigandinn svo oft út að ráða nýja menn? Hver er ástæðan fyrir því að sumir starfsmenn dvelja allan daginn án þess að vera ráðnir? Gat ekki víngarðseigandinn skipulagt sig betur? Hvers vegna svo að borga öllum jafnt? Þar skiljum við líklega best öfundina og gremjuna.

Þessar spurningar vakna út frá okkar veruleika. Við vitum að meðal okkar er fólk sem hefur ekki vinnu. Það er fólk sem hefur fá hlutverk í samfélaginu en þráir samt sem áður að fá að starfa og get séð fyrir sér og sínum. Við hugleiðum hér rétt allra til mannsæmandi lífs. Rétturinn til að vinna er þar á meðal. Að allir geti haft starf og hlutverk til að afla sér fæðu og þeirra hluta sem þeir þarfnast í lífinu. Að hafa hlutverk tengist líka mannlegri reisn. Það er erfitt að vera í þeirri stöðu að engin not séu fyrir mann í nokkru verkefni. Það er erfitt að upplifa höfnun. Að vera valinn síðastur í “liðið” er sárt og niðurlægjandi. Gera má ráð fyrir að víngarðseigandinn hafi fyrst fundið duglegustu og sterkustu verkamennina og þeir síðustu hafi verið þeir sem voru gamlir og lasburða. Þeim ætlar Guð samt í náð sinni mest laun og að verða fyrstir til útborgunar. Þetta vitnar mest um hina miklu náð Guðs.

Gríska orðið sem notað er um starf verkamanna er λειτουργία (leitourgia). Það orð finnum við aftur í orðinu litúrgía sem merkir „helgisiðir“. Það er ekki tilviljun. Helgisiðirnir, guðsþjónustan, minnir okkur á hvað lífið er og ætti að vera: - þjónusta við Guð og náungann

Við erum öll stödd í víngarði Guðs. Við erum verkamenn sem erum kölluð til margvíslegra verka. Þessi verk eru þegar allt kemur til alls þjónusta við náungann. Hún verður þegar við framleiðum matvæli, byggjum hús, kennum, hjúkrum, sköpum list og menningu. Já, nánast allt sem við gerum er þjónusta við annað fólk. Sú þjónusta er líka þjónusta við Guð, þar sem markmiðið er að allt beri eins mikinn ávöxt og mögulegt er. Við þjónum Guði með því að sýna kærleika í verki gagnvart öðru fólki. Í öllum skilningi erum við þá “verkamenn í víngarði” Guðs.

Oft förum við að hugsa um það hver kom fyrst, hver gerði mest, hver hefur verið kristinn í lengstan tíma og hefur getað lagt mest af mörkum í Guðs ríki. En þessi dæmisaga Jesú gerir okkur ljóst að Guð hugsar öðruvísi en við.

Starfsmennirnir í dæmisögunni fengu einn denar, einn hringlaga pening. Þegar við í messunni komum að borði Drottins fáum við greidd laun okkar. Allir fá það sama. Vínsopa sem er blóð Krists sem var úthelt á krossinum og svo myntlaga brauð sem lítur út eins og stór tíkall. Á brauðinu er ekki tala aðeins mynd. Það er merkt því verði sem frelsun okkar hefur kostað. Kristur á krossinum er lausnargjald okkar. Sami frelsari fyrir alla og hann er nóg fyrir alla.

Þegar við yfirgefum kirkjuna nú á eftir þá förum við út á torg lífsins. Þar heldur guðsþjónustan áfram. Þjónusta við Guð og sköpun hans. Þjónusta við samferðamenn okkar. Þjónusta í kærleika. Allt líf er þannig þjónusta. Allt líf er bæn. Allt líf er lofgjörð. Við erum verkamenn Guðs. Biðjandi fyrir betri heimi. Lofum það sem við höfum og vonum að allt verði gott og Guð muni gjalda okkur laun sín í fyllingu tímans. Náð Guðs er mikil.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun í Stokkseyrarkirkju 9. febrúar 2020