Hvað er að biðja? „Að ákalla Guð í neyð sinni“, svarar Meistari Lúther. Bæn hefur því tvo póla eins og rafmagnið. Orkan, sem knýr helstu menningarsamfélög nútímans, er ágætt dæmi. Bænin beinist í tvær áttir. Hún beinist að neyðinni annars vegar og hins vegar að Guði, það eru pólarnir tveir, frá jörðu til himins og frá himni til jarðar. Það er orkusviðið. Með því erum við í sambandi við Guð. Bænin er samtal eins og ég skrifaði á öðrum stað: Bæn er tal við bróður blessaðan Jesúm Krist. Og í samtali við Guð gildir það sama og manna á milli að tala og hlusta.
Neyðina hefur maður tilhneigingu til að nefna mínus hleðslu. Biðjandi maður horfir í kringum sig þó að hann sé stundum með lokuð augun og sér neyðina. Hann flýr hana ekki, heldur horfist í augu við neyðina í mörgum andlitum hennar. Neyðin snertir fólk, manneskjur, mig og þig. Þannig finnur biðjandi maður til raunveruleikans og er því allt annað en skýjaglópur eða hugsæismaður. Það má segja að með bæn kemst maður til sjálfs sín.
Játningar ýmissa andans manna sýna þetta ótvírætt eins og Játningar Ágústínusar eða Leo Tolstoys. Lúther skrifaði ekki slíkar játningar en í bréfi til Péturs bartskera síns lýsir hann því hvernig hann fer sjálfur að því að biðja og það er sjálfsskoðun, ærleg og ósérhlífin, dagleg iðkun. Einfaldar leiðbeiningar hans um bænina er útskýring á skilgreiningu hans, að biðja er að ákall Guð í neyð sinni. Pétur postuli átti þessa reynslu sem mikill bænarinnar maður og það í samskiptum sínum við Jesú. Atvikið gerðist á Galíleuvatninu þegar þeir drekkhlóðu bátana. Pétur kraup fyrir framan Jesú og sagði: „Far þú frá mér því að ég er syndugur maður“ (Lúk. 5).
Kristin trú leiðir til raunsæis, gerir kröfu um skilyrðislausan sannleika um sjálfan sig og heiminn, og það er heilsusamlegt að lifa í ljósi Guðs, þó að óneitanlega geti það verið óþægilegt. Ágústínus kemst að þeirri niðurstöðu í sínum játningum að hann lærði að þekkja sjálfan sig fyrst þegar hann kynntist Guði sínum, þá fer að vindast ofan af blekkingarvef mannsins.
Fyrirbæn er þegar við lítum á neyð náunga okkar og heimsins og áköllum Guð að koma til hjálpar. Þannig horfist biðjandi maður í augu við lífið eins og það er.
Guð hins vegar stendur fyrir allt það jákvæða og góða. Það er Guð sem við treystum á. Þess vegna ef við látum staðar nema við að horfa á neyðina verður bæn okkar ekki annað en sjálfsskoðun, eintal sálarinnar við sjálfa sig, gagnleg sem slík, en varla bæn. Þetta er guðlaus afstaða, sem er vanaleg í dag, og er ekki heldur ný hefur alltaf fylgt mannkyninu og rænt manninn traustinu og örygginu og leitt hann út á hengiflug örvæntingar, eins og Leo Tolstoy er dæmi um.
Trúaður maður trúir. Það ætti ekki að vera þörf á að segja þetta, trúaður maður trúir á Guð sem heyrir bænir. Páll postuli segir og vitnar í Gamla testamentið: „Hver sem ákallar nafn Drottins mun verða hólpinn“. Trú kristins manns beinist ekki aðeins upp á við heldur eins og Páll bendir á að trúin byggist á boðuninni og það sem heyrt er byggist á orði Krists. Það er hann sem stíginn er niður svo að við þurfum ekki að klifra upp til himins. (Rómverjabréfið 10. kafli).
Í þessari spennu milli neyðarinnar og Guðs vaknar bænin sem samtal milli Guðs og manns. Trúin er það traust sem hefur fest sig við fagnaðarerindið að Jesús hafi gengið inn í hverja neyð mína og heimsins með því að láta krossfesta sig, en með upprisu sinni og sigri á dauðanum segi hann: „Ég bænheyri þig, því að ég er með þér hér og nú.“ Ákalla því Guð í neyð þinni!