Okkur nútímamönnum er margt betur gefið en að kunna að bíða. Bið er ekki í tísku. Nú á allt að gerast fljótt og vel og vera skilvirkt.
Á aðventunni er samt upplagt að íhuga biðina.
Andlegur þroski næst aðeins þeim sem kunna að bíða.
Bið er traust. Hún er systir trúarinnar.
Sá sem bíður leggur á vissan hátt árar sínar í bát. Hann hættir að hamast á hafinu. Áratök hans hljóðna.
Sá sem kann að bíða reynir ekki að troða sér fram fyrir þann sem er á undan honum í biðröðinni. Sá sem bíður rétt treystir því því að röðin muni komi að sér. Hann treystir því að biðin beri árangur, hún sé ekki til einskis.
Sá sem bíður treystir framvindunni. Sá sem bíður og biður leggur tímann í hendur Guðs og treystir því að hann muni að lokum leiða allt farsællega til lykta.
Þegar okkur er sagt að bíða er stundum sagt: „Bíddu rólegur."
Sönn bið felur í sér ákveðna yfirvegun og ákveðinn kjark. Ég þori að bíða og sá sem ekki þorir að bíða er hræddur.
Óttinn er á margan hátt helsti drifkraftur neyslusamfélagsins. Við erum látin kaupa hluti með því að ala á ótta okkar. Okkur er talin trú um að sá sem ekki eigi þennan hlut, hann sé ekki maður með mönnum, hann sé að missa af einhverju, hann sé að láta gullið tækifæri ganga sér úr greipum. Lífið er stutt, er okkur sagt. Dægurflugan lifir ekki nema einn dag og við erum eins og hún. Um að gera að njóta sem mests á þessum stutta tíma sem okkur er úthlutað.
Í óttanum er enginn tími fyrir biðina. Biðin á sér aðeins rými í trúnni og traustinu.
Sá sem bíður, undirbýr sig fyrir það að þiggja. Hann setur sjálfan sig á bið, er óttalaus og móttækilegur fyrir blessandi áhrifum.
Mættum við öll njóta þess að bíða heilagra jóla.