Með stjórnarskránni 1874 var trúfrelsi innleitt hér á landi. Var þá hverjum og einum heimilað að tilbiðja guð á þann hátt sem samræmdist best sannfæringu hvers og eins og stofna félög um átrúnað sinn. 1915 var trúfrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar breytt þannig að ljóst varð að einnig var heimilt að standa utan allra trúfélaga. Má þar með segja að fullu trúfrelsi hafi verið náð. 80 árum síðar var trúfrelsi tryggt enn betur með endurskoðun á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Þá var lagt bann við mismunun fólks m.a. á grundvelli trúarskoðana. Þar er fyrst og fremst átt við neikvæða mismunun. Ýmislegt hefur hins vegar þótt réttlæta jákvæða mismunun. Til dæmis hafa mannréttindadómstólar komist að þeirri niðurstöðu að þjóðkirkjuskipan í líkingu við þá sem hér tíðkast brjóti ekki gegn jafnræðisreglu sé fyrir því söguleg hefð, sem og að mikill meirihluti landsmanna tilheyri þjóðkirkjunni og skipanin skerði ekki frelsi annarra trúfélaga.
Allt frá því trúfrelsi var komið á í landinu hefur verið byggt á svokallaðri jákvæðri útfærslu þess. Með því er átt við að öll trúariðkun er leyfð sem ekki brýtur í bága við gott siðferði og allsherjarreglu. Hugmyndin sem að baki býr er að hið opinbera eigi að hafa sem minnst afskipti af trúarlífi fólks sem líta beri á sem einkamál hvers og eins, sem og að hinar ólíkustu birtingarmyndir trúar en einnig trúleysis eigi að fá þrifist hlið við hlið.
Upp á síðkastið hefur hins vegar borið nokkuð á þrýstingi í þá veru að réttur trúarlegra minnihlutahópa skuli tryggður með breyttri túlkun á trúfrelsinu og farið inn á braut þess sem nefnt hefur verið neikvætt trúfrelsi. Þá er ekki gengið út frá því að trúariðkun sé almennt heimil heldur þrengt að henni á ýmsa lund með boðum og bönnum. Slíkt kallar augljóslega á að yfirvöld setji skarpari leikreglur í trúmálum en tíðkast hafa.
Af þessum sökum er full ástæða til að staldra við og spyrja hverjum gagnist neikvætt trúfrelsi best. Af nýlegum dæmum víða að úr Evrópu er ljóst að það eru ekki trúarlegir minnihlutahópar til að mynda meðal innflytjenda. Þvert á móti hafa þeir orðið hvað harðast úti þar sem neikvætt trúfrelsi hefur verið tíðkað einfaldlega vegna þess að trú þeirra er oftast sýnilegri en okkar hinna og kallar því frekar á bönn. Hér á landi virðist neikvætt trúfrelsi raunar ekki standa vörð um frelsi neinna nema þess örsmáa minnihluta sem vill hafna trú og trúariðkun í hvaða mynd sem er.
Í ljósi umræðu síðustu vikna um samstarf kirkju og skóla og ýmis mál sem því tengjast má spyrja hvort aðstæður séu raunverulega slíkar í íslensku samfélagi að ástæða sé til að hverfa frá hefð hins jákvæða trúfrelsis. Það virðist alls ekki augljóst. Það skal þó játað að trúfrelsi kallar þá sem þess njóta til ábyrgðar og leggur þeim þær skyldur á herðar að neyta þess ekki til að hefta frelsi annarra eða gera lítið úr skoðunum þeirra. Þetta er vert að hafa í huga þar sem samfélög eru mjög einsleit trúarlega líkt og gerist hér á landi þar sem allur þorri þjóðarinnar tilheyrir evangelísk-lútherskum kirkjum. Þar verður að gæta þess að þrengja ekki um of að trúarlegum eða trúlausum minnihlutahópum. Þá skiptir stærð þeirra raunar ekki máli nema hugsanlega í þá veru að því minni sem minnihlutinn er því mikilvægara sé að réttindi hans séu tryggð. Það má gera með ýmsu móti en mest ríður þar á almennri tillitsemi og gagnkvæmri virðingu. Neikvætt trúfrelsi þarf hins vegar ekki að vera nærtækasta lausnin þótt hún virðist skilvirk.