Útvarpsprédikun 27. október 2013 Matt.18.15-20 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen
Við lifum og hrærumst í samfélagi sem í daglegu tali kallast nær og fjær samfélag. Samfélög eru margvísleg hvað varðar menningu og viðhorf. Sameiginlegt í samfélagi manna og dýra er að undir sameiginlegum himni eru glitrandi stjörnur sem blikka okkur næturlangt eða hulið dansandi skýjum og mannfólkið dreymir í regnbogans litum í birtu sumars sem náttmyrkri vetrar um gott og innihaldsríkt líf. Allir eiga sér væntingar um samfélag. Væntingar um samfélag réttlætis, jafnaðar, samfélags upplýstrar umræðu og samtals, en það eru bara væntingar. Væntingar sem taka á sig ýmsar myndir og form. Einhverjum komið á og öðrum ekki. Í dag er siðbótardagurinn haldin hátíðlegur víða í söfnuðum landsins. Það má segja og færa haldbær rök fyrir því að margt breyttist með siðbót Lúthers á Íslandi. Þetta var í raun menningarbylting. Komið var á samfélagi þar sem áherslan á beint og milliliðalaust samband Guðs og manns skipti sköpum. Það var höfðað til einstaklingsins, frumkvæðis, ábyrgðar og siðferðis. Í raun er það svo enn í dag, þótt samfélag nútímans sé allt annað og breytt, en grunnstoðir nútímasamfélags eru þarna eins og áhersla siðbótarinnar á umfangsmikla vakningu í alþýðumenntun, að allir ættu að geta lesið og skrifað, sem fyrir siðbót var ekki sjálfsagt. Í guðspjalli dagsins er fjallað um samfélag-eða öllu heldur hugsjón um samfélag. Samfélag sem að mörgu leyti er, en um leið er ekki. Leiðin að samfélagi nútímans og kannski á öllum tímum er vegslóði sem forfeður og mæður, við og samferðafólk í núinu hafa varðað, eitthvað sem verður aldrei fullklárað, því ný viðmið og væntingar verða til á hverjum tíma sbr.siðbótin. Hugmyndir vakna sem gætu leitt til góðs eða slæms standa sem minnisvarðar um það sem átti að vera og ekki að vera, en er. Í samfélagi manna ætti að rúmast ólíkar skoðanir og væntingar um líf sem leiðir til góðs fyrir okkur sjálf og samfélagsins í heild, nær og fjær. Samfélags þar sem er borin virðing fyrir manneskjunni og málleysingjum. Grunnlífsmunstrið í samfélagi nútímans spannar frá barnauppeldi, vinnu, nám á ýmsum skólastigum, umönnum aldraðra foreldra, vinirnir og vinkonurnar, ræktin, tómstundir sem gefast og samböndin við náungann ræktuð. Samfélag nútímans er flókið og erfitt að ráða í svo vel fari. Við lesum helst um samfélag náungans í einkaviðtölum sem birtar eru reglulega í tímaritum milli þess að þvottur dagsins er brotin saman og morgunardagurinn undirbúin undir seinni fréttum sjónvarps. Einstaka „stolin“ stund dettur inn „vacumpökkuð“ rifin upp og nartað í og súrsætt samviskubit fyllir vitund. Dagar verða af vikum, vikur að mánuðum, mánuðir að árum. Um síðir horft um öxl. Eiga erfitt með að fyrirgefa sjálfum sér að hafa ekki nýtt tímann betur til þess sem hugurinn kannski lá til. Horfast í augu við sjálfa sig og viðurkenna það sem við sjáum og trúa því sem við sjáum ekki - er í raun inntak guðspjallsins. Í anda þess inntaks og í þeirri trú í sumar sem leið gafst mér tækifæri til að ganga inn í sjálfan mig, að mestu ótruflaður af hinu ytra, þ.e.a.s. daglegum skyldum mínum gagnvart nær samfélaginu hér heima. Það verður ekki sagt að ég hafi gengið úr samfélagi manna. Miklu frekar útvíkkaðist skilningur minn um hver er náungi minn og hver er ég í samfélagi ekki aðeins nær heldur fjærsamfélagi þjóða sem er nærri en maður heldur í hversdeginum. Kannski er þörf á siðbót nútímans að læra að lesa samfélagið, menningu þess í fortíð og nútíð. Ef það gerist ekki er voðin vís og það hefur sagan kennt okkur. Til þess að sagan endurtaki sig ekki í hinu neikvæða verður að opna frekar en að loka á möguleika einstaklingsins að nema menningu og sögu trúar sem er samofin sjálfsmynd þjóðar um aldir. Ekki loka á það heldur efla ef eitthvað er. Við erum ekki gömul þegar við förum að gangast upp í væntingum annarra um okkur. Sjálfsmynd okkar tekur á sig mynd vegna væntinga nærsamfélagsins. Flest sættum við okkur við þetta norm samfélagsins og tökum ekki eftir því og eða gefum okkur ekki tíma til að staldra við og spyrja. Á hvaða leið er ég? Á sama hátt sættum okkur við eða ekki við það sem við sjáum. Það sem við sjáum verður með tíð og tíma hulið sjónum okkar. Með öðrum orðum við verðum samdauna því umhverfi sem við stöndum og störfum í á degi hverjum. Í stað þess endrum og sinnum að draga frá leiktjöld lífsins og horfa inn á djúpt svið þess myrkvað um stund og síðan þegar birtu bregður á verður til eitthvað nýtt sem í sjálfu sér er ekki nýtt heldur hefur verið og mun vera þarna eftir okkar dag. Snemma á síðustu öld varð umbreyting þess sem við þekkjum í dag. Okkar daglega líf er marglaga. Önnur staðreynd er sú og löngum verið bent á að við lifum í marglaga umbúðasamfélagi í yfirfærði merkingu þess orðs. Bandaríski listamaðurinn Andy Warhol gerði meðal annarra verka sinna umbúðasamfélagsins góð skil í verkum sínum á sjöunda áratug síðustu aldar. Hann gerði gott betur en það. Hann opnaði augu samtímamanna sinna. Benti á það sýnilega sem var ekki lengur sýnilegt vegna þess að það var daglegur hluti af veruleikanum þannig að smátt og smátt missum við sjónar á því sem við höfum fyrir augum. Það þarf stöðugt að vera að minna okkur á og ögra. Í umbúðasamfélaginu eru umbúðirnar sem skipta máli. Kannski ómeðvitað til að fela það sem er í raun og veru. Allt gott um það að segja. Verra er þegar hið ytra er það sem skiptir máli svo mjög að við hættum að taka eftir umhverfi okkar, ekki aðeins því manngerða heldur og því sem okkur er allrajafna ekki sýnilegt, hið líkamlega sjálf er yfir andlegu sjálfi okkar. Það leiðir af sér tómhyggju. Eða er tómhyggjan afleiðing lífsvenja okkar? Í tómhyggjunni felst að það er engin rökbundin sönnun fyrir tilvist „æðri drottnara“ eða skapara, „sannur“ siðaboðskapur er með öllu óþekktur og einhver sönn siðferðisgildi sem ná eiga yfir alla veröldina eru ómöguleg; lífið hefur engan ósvikinn æðri „sannleika“ að geyma og engar gjörðir manna né dýra séu í raun „ákjósanlegri“ eða „betri“ en einhverjar aðrar.“ Er það þetta sem við óskum okkur helst? „Það er vandrað í þessari veröld“ sagði félagi minn á göngunni um Jakobsveginn síðastliðið sumar eftir að við höfðum tekið ranga beygju á göngu okkar, en um síðir rötuðum á réttan veg. Það er hægt að taka undir með honum að það sé vandratað í svo mörgu sem við mætum í okkar hversdagslífi. Lífið er miskunnarlaust, eða erum við ekki tilbúin vegna tímaleysis að sýna okkur sjálfum miskunnsemi og þá lífinu sem við lifum um leið? Í dag á síðari hluta októbermánaðar get ég sagt að það er hollt og það er gott þegar tækifæri gefst til að ganga út úr hversdeginum. Eins og áður segir í sumar sem leið á Norðurhluta Spánar þar sem ég stóð sárfættur og þreyttur með byrgði dagana í bakpoka og bakpokinn á bakinu ætlaði ég ekki að þora að stíga inn um þröskuld hins innra sjálfs þar sem ég stóð fjarri heimahögum, búin að leggja að baki rúmleg 300 km. á tíu dögum af 800 rúmlega km. Hvert skref um tíma var fyllt sársauka. Ekki aðeins míns eigin heldur og þeirra sem voru á sömu vegferð og ég. Skyldi ég beygja af eða standa keikur frammi fyrir því sem ég yrði áskynja um mig og ekki síst náungann. Það er svo miklu auðveldara að standa í fjarlægð en að mæta sjálfum sér í náunganum, skynja sársaukan og gleðina sem fylgir, en um leið vera þess fullviss að með því er ekki öll sagan sögð. Hvert og eitt okkar hefur sögu að segja sem oftar en ekki verður aldrei sögð. Stundum vegna þess að við höfum ekki tækifæri til þess eða við sækjumst ekki eftir því að kynnast og hlýða á sögu samferðafólks okkar, eða forferða og mæðra. Bak við allar gjörðir og verk okkar er einhver saga lítil sem stór. Ástæða sem við höfum ekki fyrir að kynnast og eða hlýða á. Almennt hátt menntunarstig þjóðarinnar í dag og sú staðreynd að við tölum og hugsum á íslensku kom til vegna hugsjónar siðbótarinnar, sem eins og áður segir lagði áherslu á alþýðumenntun í víðum skilngi þess orðs. Í sumar sem leið fór ég og skyldi eftir spor í fyllstu orðsins merkingu á Jakobsveginum svokölluðum. Gekk Jakobsveginn frá Jean De Port í Suður-Frakklandi þaðan sem ferðin hófst og endaði mánuði seinna 815 km. vestar í Santiago De Compostella. Á þessari ferð var margt sem vakti hugan minn af værum svefni vanans. Náttúran, umhverfið og ekki síst manneskjan. Já, fyrst og fremst manneskjan sem komin var allstaðar að úr heiminum með drauma sína og væntingar um lífið og tilveruna sem vakti forvitni mína og ferðafélaga minna. Þannig háttaði til um unga manninn sem varð á vegi okkar. Hann hafði vakið eftirtekt okkar. Maður á þrítugsaldri hélt sig til hlés, hljóður, hafði sig lítið frammi. Augnaráðið fjarrænt sem og hugur. Hann var einn á ferð. Upp í huga minn kom mynd krepptrar ásjónu þessa unga manns í allt annarri manneskju á allt öðrum stað og tíma. Þá vissi ég ekki hvar og hvenær. Ég er efins um að í raunheimi hins daglega lífs hafi gefist tækifæri að hlýða á og eða leitast eftir að heyra sögu þessa unga manns, en eftir nokkur samtöl varð ljós. Hann var hermaður í veikindaleyfi. Hann hafði þjónað sem hermaður í þýska hernum í Afganistann. Fjórir vinir hans á svipuðum aldri létu lífið í vegasprengju. Hann lifði af. Það var sem hann bæði afsökunar á tilveru sinni þar sem hann sat og sagði frá reynslu sinni. Á einhvern miskunnarlausan hátt var hann á göngu geng sjálfum sér, talaði gegn sjálfum sér. Gangan var vina hans en sársaukinn var hans. Væntingar og draumar um að geta fyrirgefið sjálfum sér, þeim sem voru valdandi þess að félagar hans og vinir féllu í blóma lífsins að geta leitað miskunnar þess að hafa lifað af. Leiðir skildu, hittumst dag og dag á veginum og sumum náttstöðum allt þar til að við mættumst á áfangastað fyrir utan Dómkirkjuna í Santiago De Compestella. Hann stóð þar á torginu. Fjöldi fólks bæði pílagrímar sem og almennir ferðamenn innan um heimafólk. Þar sem ég kem auga á hann sá ég að það var einhver heiðríkja yfir honum þar sem hann stóð. Hann kom auga á okkur - hrópaði yfir allt og alla: „Bon Camino“ og við féllumst í faðma. (pílagrímar heilsast með þessum orðum á Jakobsveginum) Þá rann upp ljós fyrir mér. Ég hafði hitt hann áður ekki þennan unga mann. Þeir hafa að vísu verið á svipuðum aldri um miðbik síðustu aldar. Á hverjum degi snemma morguns gekk hann þá orðin vel fullorðinn maður framhjá æskuheimili mínu. Glugginn sneri út að göngustíg eða sundi á milli tveggja gatna. Ég veit ekki afhverju upphaflega hann vakti athygli mína. Eldri maður, með snjáða tösku í grábrúnum rykfrakka og brúnan hatt. Alltaf eins klæddur. Sama hvort það var sumar eða vetur. Hann stakk eilítið í stúf við hina sem allrajafna gengu þarna um. Mér fannst vera ára einmannaleika yfir og allt um kringum hann. Í huga mínum var ég búin að búa honum líf. Það var gott líf og innihaldsríkt. Gott líf. Ég fann til með honum. Kannski átti hann enga fjölskyldu. Hann hefur eflaust lifað lífinu til til fulls í raunveru þegar þarna var komið við sögu í lífi hans. Sá morgunn rann upp að hann kom ekki um sundið. Árin liðu og alltaf átti hann sinn stað í huga mínum. Hvað varð um hann? Þá gerðist það fyrir ein jólin. Út kom minningarbók. Frásaga um þennan „aldraða mann“ æsku minnar sem gekk framhjá glugga heimilis míns ásamt öllum hinum á hverjum degi í mörg ár. Saga hans sem ungs manns í hnotskurn var að lifa af fangabúðir nasista. Saga svika og hörmunga manneskju, saga miskunnarleysis og miskunnsemdar í senn. Saga sem því miður á sér ekki endi. Saga og raunveruleiki svo margra í dag á þessari stundu í fjarlægum heimi en svo nærri að snertir viðkvæma strengi. Samfélag sem sviptir manneskju mannlegri reisn í algjöru miskunnarleysi er uppspretta þjáningar. Birtingamynd þeirrar þjáningar á mörg systkini. Spurningin er hvernig bregst maður við þeirri þjáningu? Maður finnur til vanmáttar. Vanmáttur leiðir oft til reiði sem leitar útrásar óæskilegrar hegðunar ekki til fyrirgefningar og eða miskunnsemi. Fyrirgefning og miskunnsemi er ekki alveg sami hluturinn. Miskunnsemi felur í raun í sér virkari framgöngu þar sem sá sem veitir hana er ekki einungis að fyrirgefa heldur veita gerandanum annað tækifæri. Það er akkúrat þetta sem guðspjallið snýst um. Miskunnsemi í garð náungans og síns eigins. Með öðrum orðum – það er verið að tala um mannúðarsamfélag. Samfélag sem byggir á orðum Krists. Þeir sem fylgja orðum hans eftir og leita til hans sem fyrirmyndar mega líka vita það að í því samfélagi þar sem þeir starfa á þeim forsendum er Kristur einnig nálægur. Samfélag réttlætis, jafnaðar, samfélag upplýstrar umræðu og samtals þarf ekki eins og sagði í uppafsorðum mínum vera væntingar um heldur miklu frekar er það skylda hvers kristins manns að sækja fram til þess að svo megi vera í nafni siðbótar. Það má og á að vera skylda hvers hugsandi manns að bæta nær og fjær samfélagið menningu þess og viðhorf á öllum tímum.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen
Takið postullegri blessun:
Náð Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen