Guðspjall Barnadagsins er ritað hjá guðspjallamanninum Matteusi:
Þegar þeir voru farnir, þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera, uns ég segi þér, að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því.Hann vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands.Þar dvaldist hann þangað til Heródes var allur. Það sem Drottinn sagði fyrir munn spámannsins, skyldi rætast: Frá Egyptalandi kallaði ég son minn.
Þá sá Heródes, að vitringarnir höfðu gabbað hann, og varð afar reiður, sendi menn og lét myrða öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni hennar, tvævetur og yngri, en það svaraði þeim tíma, er hann hafði komist að hjá vitringunum.
Nú rættist það, sem sagt var fyrir munn Jeremía spámanns:
Rödd heyrðist í Rama, grátur og kveinstafir miklir, Rakel grætur börnin sín og vill ekki huggast láta, því að þau eru ekki framar lífs. Mt.2.13-18
Þjáningin og sorgin taka sér ekki frí yfir jólin. Slys, hamfarir og ofbeldisverk halda áfram að leggja líf í rúst. Sprengjuvargar halda sig við iðju sína og reisn og réttindi manneskjunnar eru áfram fótum troðin í fangabúðum og fangelsum heimsins.
Harmagráturinn og þjáningin vegna barnsmorðanna í Betlehem eru umhugsunarefni þessa dags í miðri jólavikunni. Í næstu andrá við hátíð ljóss og friðar, þar sem himinn og jörð mætast og manneskjurnar fá að líta dýrð himinsins í barninu litla, dynja yfir ósköp af sláandi stærðargráðu. Öll sveinbörn undir tveggja ára aldri eru leituð uppi og deydd. Hrifin úr fangi örvæntingarfullra og máttvana foreldra sem þurfa að sjá á bak lífinu litla begna brjálaðs og vænissjúks einræðisherra.
Við getum litið á þetta vonskuverk Heródesar sem skref í hinu kosmíska stríði góðs og ills – þar sem hið illa tekur krampakennt áhlaup í kjölfar komu Guðs í heiminn. Svartur á leik – og hann svífst einskis – reiðir hátt til höggs og hittir fyrir þar sem sárast svíður.
Andspænis illsku og voðaverkum vakna spurningar um réttlæti Guðs. Hvers vegna leyfir Guð illsku og þjáningu á borð við þessa? Hvers vegna var ekki hægt að bjarga litlu drengjunum í Betlehem – alveg eins og Jesúbarnið bjargast af forsjón Guðs sem leiðir fjölskylduna í öruggt skjól? Hvaða tilgangi þjónaði þessi fórn og þjáning saklausra barnanna? Hvar var Guð þegar hermenn Heródesar æddu á milli húsa með blóði storkin vopn við skerandi harmagrát og örvinglan íbúa Betlehem? Hvar var Guð í Auswitch? Hvar er Guð í Quantanamo fangelsinu?
Og af hverju bjargast sumir en ekki aðrir? Hvernig kemur það heim og saman að Guð sem elskar alla og hefur skapað allar manneskjur í sinni mynd, láti á svona áberandi hátt suma komast óskaddaða og ósnortna frá umbrotum á meðan þjáningin virðist fá frítt spil í líf annarra?
Þessar spurningar eru ekki bara guðfræðilegar vangaveltur heldur spretta upp úr okkar eigin lífi og eigin reynslu – sem og lífi systra og bræðra um víða veröld. Og við erum kannski engu nær um hvert svarið er, eftir allan þennan tíma? Nema því svari sem okkar eigin reynsla og okkar eigið líf leiðir okkur til – og það er að Guð ER þar sem þjáningin ríkir. Hann ER svangur og einmana í fangelsinu, sleginn og heimilislaus eftir jarðskjálftann og flóðbylgjuna, þrotinn von og kröftum á krabbameinsdeildinni. Hann er þar af því að manneskjan er þar. Þar mætir hann þér og þar býður hann eftir að þú mætir honum.
Þjáningin og missirinn er – og verður hlutskipti mannanna – sem elska, missa, gráta og sakna, eins og skáldið komst að orði forðum. Það er inn í nákvæmlega þessar aðstæður sem sonur Guðs fæðist, það er nákvæmlega þetta hlutskipti sem Guð tekur á sig. Og það er þetta sem Matteus vill benda á í frásögn sinni um barnamorðin í Betlehem, sjálfur Guð er ekki ósnortinn af illsku og ofbeldi heimsins. Búsetu hans, öryggi og lífi er ógnað frá fyrstu stundu.
Barnadagurinn beinir huga okkar og hjörtum að þeim saklausu lífum sem týndust – og eru að týnast enn þann dag í dag. Hann minnir okkur líka á óendanlegt dýrmæti allra barna og óendanlega ábyrgð okkar gagnvart þeim. Í hverju barni mætir okkur hann sem sagði: allt sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það gjörðuð þér mér. Og gegn því á Svartur engan mótleik.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.