Skiljið þér ekki, að allt sem inn kemur í munninn, fer í magann og lendir síðan í safnþrónni? En það sem út fer af munni, kemur frá hjartanu. Og slíkt saurgar manninn. Því að frá hjartanu koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni, lastmælgi. Þetta er það, sem saurgar manninn. En að eta með óþvegnum höndum saurgar engan mann. Matt 10.17-20
Kæri söfnuður.
Matteusi guðspjallamanni er þessi dagur helgaður. Í dag er postulamessa hans. Morgunlesturinn stendur skrifaður í fimmtánda kafla guðspjalls Matteusar en guðspjallstexti dagsins er fenginn úr þeim níunda. Í báðum lestrum er sleginn svipaður tónn. Í morgunlestrinum stendur skrifað:
„Að eta með óþvegnum höndum saurgar engan mann.“ Mt 10.20
Guðspjallslesturinn á postulamessu Mattheusar kallast á við þetta vers, þar segir: „Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir“ (Mt 9.13) Og hér kallast hann reyndar á við Gamla testamentið, t.d. spámanninn Hósea sem segir á einum stað:
„Því að á miskunnsemi hefi ég þóknun, en ekki á sláturfórn, og á guðsþekking fremur en á brennifórnum.“ Hós 6.6
Óþvegnar hendur saurga ekki manninn. Miskunnsemi er þóknanlegri en sláturfórnir. Guðsþekking er betri en brennifórnir.
* * *
Þótt það kunni að vera auðveldara að beina kastljósinu að hinu ytra, bæði hvað varðar okkur sjálf og aðra, þá erum við ekki kölluð til þess. Það skiptir ekki höfuðmáli þegar við nálgumst Guð hvort hendurnar eru hreinar, fötin fín, bíllinn réttur - eða jafnvel hvort nákvæmleg er farið með ákveðin ritúöl.
Hitt skiptir meira máli hvert hugarfarið er, innræti hjartans, viðhorfið til náungans. Miskunnsemi, náungakærleikur sem brýst út í þjónustu við náungann. Það er hið rétta viðhorf og hin sanna guðsþekking er að vita þetta:
Hendur mega vera óþvegnar, en ekki hjörtu. Þau skal lauga, dag hvern. Hvernig fer þá slíkur þvottur fram? Með reglulegu bænalífi og ræktun sambandsins við Guð, en einkum þó með því að þjóna Guði í í þjónustunni við náungann. Það er lexía dagsins.
„Að eta með óþvegnum höndum saurgar engan mann.“ - „Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir“
Guð gefi okkur slíka þekkingu og þessa miskunnsemi.