Vetrarkostur

Vetrarkostur

Hvað tekur þú með þér inn í vetur lífsins? Hvað ætlar þú að taka með þér inn í haustið, veturinn, kuldann og myrkrið? Elskulegt sumar að baki, með hitabreiskju dag eftir dag, skyrtuveður í margar vikur. Þegar sólin spratt fram yljaði hún langt inn fyrir skinn og fór hita um vöðva og sinar. Allt verður dimmt, ljósið fer, allt blautt, kalt og hitinn hverfur. Haustið sækir að og inn í okkur. Veturinn er í leyni og vill umlykja okkur. Hvað tekur þú með þér inn í þann veruleika?
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
02. september 2004

Hvað tekur þú með þér inn í vetur lífsins? Hvað ætlar þú að taka með þér inn í haustið, veturinn, kuldann og myrkrið? Elskulegt sumar að baki, með hitabreiskju dag eftir dag, skyrtuveður í margar vikur. Þegar sólin spratt fram yljaði hún langt inn fyrir skinn og fór hita um vöðva og sinar. Allt verður dimmt, ljósið fer, allt blautt, kalt og hitinn hverfur. Haustið sækir að og inn í okkur. Veturinn er í leyni og vill umlykja okkur. Hvað tekur þú með þér inn í þann veruleika?

Safnað til vetrarins

Til er gjöful barnasaga sem má, eins og kennslusögurnar yfirleitt, verða okkur til lærdóms. Lítil músafjölskylda bjó í hlöðnum steinvegg. Pabbinn og mamman voru iðin við safna vetrarforða og þau kenndu litlu músabörnum sínum að draga björg í bú. Allir skoppuðu út í móa að morgni og náðu í grös, jarðarávexti alls konar og bisuðu við að koma í búrið í steinveggnum góða. Allir nema Jóhannes mús. Einn daginn sat hann út á steini þegar systkinin voru að vinnu. Þau kölluðu til hans: Hvað ertu að gera - ertu ekki að vinna? Og Jói svaraði: Jú, jú ég er að safna hljóðum til vetrarins. Litlu systkinin skildu ekki alveg þessa vinnu, en lét gott heita. Daginn eftir var Jói enn út á steini og systkinin kölluðu að nýju: En nú var Jói að safna orðum til vetrarins. Hvernig fór hann að því? Þriðja daginn voru músasystkinin þreytt og kölluðu pirruð í rigningunni: Hvað ertu nú að gera? Jú Jói var að safna lykt hrísmóa og engis fyrir langan og lyktarlítinn vetur. Svona hélt hann áfram alla daga, var sniðgenginn og litinn hornauga eins og hver annar ónytjungur. Safnaði litum himins og jarðar, sögum, söngvum, myndum og öllu því sem sumarið gaf skynjandi smáveru á steini.

Svo kom veturinn og fjölskyldan undi glöð við sitt, í öryggi, skjóli, og með mikla matarkistu. En svo kom þorri og góa, með kulda og vosbúð. Og að lokum var allt búið í búrinu og myrkrið læddist inn í sálina og hungrið svarf ógurlega að. Þá mundu þau allt í einu eftir söfnunarstarfinu sérstæða. Jói hvar er nú allt sem þú safnaðir? spurðu þau hæðnislega: Jói ræskti sig og sagði: "Lokið nú augunum" og svo sagði hann fjölskyldu sinni frá hinum undursamlegu litum sumarsins, hljómhviðum vindsins og seytli lækjarins, orðunum sem stráin hvísluðu, sögunum sem fuglarnir sögðu með flugi sínu. Og litlir heilar fylltust af birtu, belgurinn hlýnaði og öngin hvarf. Svo sagði hann frá þeim sem væri á himni og byggi allt þetta til, svo lífið yrði ekki bara gott, heldur stórkostlegt. Þetta varð þeim til bjargar. Jóasafnið varð til lífs.

Hver er auður þinn?

Hvað ætlar þú að taka með þér úr sumrinu inn í hraglanda haustsins og myrkur vetrar? Áttu þér búr með mat og örugga innistæðu fyrir brauði? En hefur þú safnað þér hljóðum, tónum, ljóðum, sögum, myndum fyrir veturinn. Það er svo mikilvægt að draga með sér heim í búið allt þetta, sem sumarið gefur, til að ylja sér við og nærast af yfir veturinn. Til þess eru sumarfrí, til þess er puð daganna, að við eigum nóg af öllu, ekki aðeins matnum til líkamans heldur mat fyrir sálina.

Hvað ætlar þú að taka með þér til vetrarins? Er sumar í lífi þínu? Vandaðu þig og safnaðu vel. Er farið að hausta í ævi þinni? Enn er nógur tími ef þú staldrar við. Hvað hefur þú í veganesti þegar krankleikar, byljirnir skella á þér, eða þorrinn og góan læsist um fjölskyldu þína? Ertu þá í steinvegg og allar bjargir bannaðar? Eða er ríkidæmi sumarlandsins enn nærri? Í því er viska daga og árstíða fólgin, að við heyjum vel, söfnum kunnáttusamlega og ekki aðeins einhæft til að veturinn verði bærilegri. Í því er viska lífsins fólgin að við söfnum ekki aðeins hinum magaræna og efnislega, heldur auð sem dugar þegar áföllin verða, þrekið hverfur, sorgin nístir og allt er tekið. Hvað er það þá, og kannski er það fremur - hver er það þá sem stendur þér nærri?

Ríkidæmið

Jóarnir í mannheimum fara þá leið. Til er afskaplega fallegt grískt orð sem kirkjufeðurnir gældu við, hugsuðu um og söfnuðu sér til lífs. Það er orðið pleroma, sem er vegna stafagerðar grískunnar ótrúlega fallegt á blaði. En það er þó enn fegurra efnislega, því það var tengd orðræðu og lofsöng hinna skarpt hugsandi kirkjufeðra um Guð. Þeir vissu að Guð skaparinn elskar fjölbreytnina og ríkidæmi á öllum sviðum, fjölda lita, ókjör hljóða, sagnafjöld og hljómhviðugnótt. Guð er guð ríkulegs lífs. Þess vegna kemur Guð sjálfur. Þess vegna hvíslar Guð í eyra þér. Þess vegna vill Guð að þú gerir þér grein fyrir að Guð er í þér, sjálft lífsaflið, titrandi hrifning þegar kyrra sumarkvöldsins bifar tilfinningastreng, þétt hönd og tryggur faðmur þegar reiðarslagið dynur yfir. Viltu eiga þennan að þegar rignir sem mest, þegar kælan sækir að þér og inn í þig?

Hvað tekur þú með þér inn í haustið? Jesús sagði: „Komið til mín.“