Biðjum með orðum séra Ólafs Jónssonar frá Söndum í Dýrafirði:
Vors Herra Jesú verndin blíð/ veri með oss á hverri tíð./ Guð huggi þá, sem hryggðin slær,/ hvort þeir eru fjær eða nær,/ kristnina efli og auki við,/ yfirvöldunum sendi lið,/ hann gefi´oss öllum himnafrið.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Það haustar á Héraði. Og náttúran er söm við sig. Það tilheyrir þessum árstíma að fara í berjamó, og einnig að fylgjast með þeim breytingum sem verða á gróðrinum. Laufin eru tekin að gulna á trjánum. Haustlitirnir eru sannarlega fagrir á Fljótsdalshéraði. Brátt fella trén lauf sín og gróðurinn leggst í vetrardvala.
Þegar borgarbarnið sem stendur í predikunarstólnum í Kirkjubæjarkirkju í dag flutti til Egilsstaða fyrir rúmu ári síðan, var eitt af því sem vakti eftirtekt hér á svæðinu hinn fjölskrúðugi trjágróður þess. Það er leitun að annarri eins gróðursæld inni í miðju þéttbýli á Íslandi, eins og er á Egilsstöðum.
Það má læra margt af trjánum. Það vissu líka höfundar Biblíunnar, sem bjuggu við Miðjarðarhaf fyrir tveimur til þremur árþúsundum síðan, og fylgdust með og drógu lærdóm af enn meiri og margvíslegri trjágróðri en þeim sem fyrirfinnst á Héraði. Og rétt eins og við hér á Austurlandi spáum í ávexti jarðargróðurs og fylgjumst til dæmis með berjasprettunni í kringum okkur, þá voru ávextir trjánna í Palestínu mönnum þar hugleiknir: Fíkjur, ólífur og vínber eru meðal þess sem kemur við sögu í máttugum myndlíkingum Ritningarinnar. Kannski hefðu það verið kartöflur, rófur og hrútaber ef Biblían hefði nýlega verið skrifuð á Íslandi!
Það er þess vegna engin tilviljun að í Biblíunni er manneskjunni oftar en ekki líkt við tré. Sjálfir Davíðssálmar hefjast á orðunum: “Sæll er sá sem eigi fer að ráðum óguðlegra… heldur hefur yndi af leiðsögn Drottins… Hann er sem tré gróðursett hjá lindum, það ber ávöxt sinn á réttum tíma og blöð þess visna ekki” (Slm 1.1-3).
Þetta er fögur líking. Handleiðsla og kærleikur Drottins er sú rennandi lind, sem okkur mönnunum er ráðlagt að gróðursetja okkar lífstré við.
Tré, sem er gróðursett hjá rennandi lindarvatni og hlýtur næringu í æðar sínar af því, það ber góðan ávöxt og fögur laufblöð. Um það dylst engum hugur. – En hvað þá með manneskjuna, sem hlýtur sína andlegu næringu af því lifandi vatni, sem finna má í orði Guðs og í samfélaginu við lifandi Drottin? Hvaða ávöxt ber sá maður eða sú kona, piltur eða stúlka, sem sækir fyrirmynd sína í lífinu í orð og verk frelsarans Jesú Krists og biður um leiðsögn Heilags anda?
Jú, slík fyrirmynd og slík leiðsögn á að sjást með áþreifanlegum hætti í lífi kristinnar manneskju. Í Galatabréfinu í Nýja testamentinu útskýrir Páll postuli þetta með því að tala um ávöxt andans. Hann segir: “Ávöxtur andans er: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi” (Gal 5.22-23).
Þetta þýðir ekki að kristinn maður sé sjálfkrafa orðinn fullkominn. Því fer fjarri. Enginn er syndlaus annar en Drottinn.
En þetta þýðir að trúin eigi að hafa áhrif í lífi okkar. Það á að sjást í orðum okkar og athöfnum, að lífstréð okkar hafi þegið næringu af heilbrigðu og svalandi lindarvatni, þar sem er orð og fyrirmynd frelsarans. Við eigum ekki að skilja trúna á Drottin eftir í kirkjunni, þegar við göngum þaðan út, og því síður að spara hana fyrir hátíðleg tækifæri líkt og jól eða páska. En við eigum auðvitað heldur ekki að vera svo upptekin af trúmálunum að við höfum ekki tíma lengur til að sinna störfum okkar og lifa lífi okkar fyrir öllum andlegheitunum. Nei, trúin á Drottin og kærleiksboð Biblíunnar eiga einfaldlega að skína í gegnum athafnir okkar og orð á hverjum degi.
Jesús segir okkur í guðspjalli dagsins, að orð okkar og verk komi upp um það, hvað býr í hjarta okkar: “Annaðhvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð” (Mt 12.33). Og svona til að vera alveg viss um að allir skilji hvað hann á við, bætir Jesús við: “Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði. Af gnægð hjartans mælir munnurinn” (v. 35).
Öll eigum við okkur sjóð hjartans, það sem við höfum nærst af í andlegum skilningi í gegnum lífið. Ég held að við getum flest verið sammála um, að þau áhrif sem við verðum fyrir í uppvexti okkar, hafi mikið að segja um það, hvers kyns sá sjóður er, sem við berum út í lífið. Við ráðum vissulega miklu sjálf um hvaða veganesti við berum í sjóði hjartans. En foreldrar og aðrir uppalendur ráða þó enn meiru um það, hvers konar næringu börnin þeirra bera með sér í sínum sjóði. Og við vitum, að nóg framboð er af afþreyingu fyrir börn, unglinga og fullorðið fólk, sem er bæði snauð af næringu og full af hroða.
Ávextirnir, sem spretta á trénu, þeir sýna, hvers konar næringu tréð hefur hlotið.
Tökum dæmi: Unglingur, sem hefur þá afstöðu til lífsins að hann varði lítið sem ekkert um annað fólk og tilfinningar þess, barn sem hefur tamið sér ljótt og niðurdrepandi orðbragð, fullorðin manneskja sem ber út baktal og illt slúður; þetta fólk kemur upp um sjóð hjarta síns með hegðun sinni. Og það gerum við öll. Og barnið og unglingurinn koma ekki síst upp um það, hvers konar sjóð foreldrarnir hafa nestað þau með. “Af gnægð hjartans mælir munnurinn,” segir Jesús.
Ritningarlestrar dagsins minna okkur með sérstökum hætti á, að orð okkar skipta máli. Við getum notað tunguna okkar til bæði góðs og ills. Við getum notað hana til að hrósa, uppörva og hugga, til að biðja fyrir sjálfum okkur og öðrum mönnum, en við getum líka notað hana til að bera út óhróður um náunga okkar, til að brjóta niður og spúa eitri í kringum okkur. “Af sama munni gengur fram blessun og bölvun,” segir í pistli dagsins úr Jakobsbréfinu (3.10). Okkar er valið, og það skiptir máli hvernig við veljum. Það skiptir máli hvernig við högum orðum okkar.
Hafið þið tekið eftir því, að það er oft svo miklu auðveldara að finna eitthvað neikvætt til að segja um fólkið í kringum sig en eitthvað jákvætt? Og jafnvel þó að okkur hugkvæmist kannski margt fallegt um samferðamennina, erum við þá nógu dugleg við að segja þeim frá því; erum við nógu dugleg við að hrósa og hvetja með orðum okkar? Ég er hræddur um að ég verði að svara því neitandi fyrir mína parta.
Orð hafa áhrif, þrátt fyrir allt. Við lifum vissulega á tímum þar sem orð eru út um allt. Í sjónvarpi, útvarpi og á Netinu er malað og skrifað, stanslaust, allan sólarhringinn árið um kring. Nútímaleg samskiptatækni býður upp á, að hvert mannsbarn á Íslandi getur eignast sinn eigin, persónulega predikunarstól í tölvunni heima og komið hugðarefnum sínum og skoðunum þannig á framfæri við hvern sem heyra eða lesa vill.
Ég velti því stundum fyrir mér, hvort hér gildi lögmál hagfræðinnar, það er að orð hafi gengisfallið á einhvern hátt með stórauknu framboði á þeim. Eitt er víst, að mörgum þykir auðvelt að slengja fram því sem þeim sýnist, sér í lagi á Netinu, án þess að þeir telji nokkrar afleiðingar fylgja orðum sínum. En orðum fylgir alltaf ábyrgð. Orð hafa ekki gengisfallið að því leytinu til, að máttur þeirra hafi minnkað. Orð geta nú sem áður sært, meitt og lítillækkað, en líka byggt upp, hvatt og stutt.
Já, orðum fylgir ábyrgð. Jesús gerir áheyrendum sínum ljósa grein fyrir þessari ábyrgð í guðspjalli dagsins, þegar hann segir: “Á dómsdegi munu menn verða að svara fyrir hvert ónytjuorð sem þeir mæla. Því af orðum þínum muntu sýknaður og af orðum þínum muntu sakfelldur verða” (v. 36-37). Þetta eru orð sem við skulum staldra við og íhuga, næst þegar okkur kemur í hug að tala illa til eða um náunga okkar.
Samt boðar Jesús ekki fyrst og fremst dóm, heldur fyrirgefningu. Hann er sá, sem dó á krossi og úthellti blóði sínu til friðþægingar fyrir allar syndir. Þess vegna getur hann líka boðað fyrirgefningu öllum þeim, sem til hans leita, og segir í guðspjallinu: “Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin.” En á því virðist þó vera ein undantekning, því að Jesús segir: “Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin, en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið.”
“Þeim sem mælir gegn heilögum anda verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda.” Hvernig ber að skilja þessi harkalegu orð Jesú? Eru virkilega til þau mannlegu orð, sem útilokað sé að Guð muni fyrirgefa? Og hvað felst þá eiginlega í því að guðlasta eða mæla gegn heilögum anda?
Við þessum spurningum eru því miður ekki til nein, einföld svör. En mín tilgáta er sú, að hér eigi Jesús við tiltekið lífsviðhorf, sem lýsi sér í því, að mönnum þyki guðlast gegn heilögum anda ekkert tiltökumál. Þetta lífsviðhorf felur í sér að hafna með öllu leiðsögn heilags anda, sem er andi huggunar, kærleika og hvatningar, að hafna verkum hans, sem eru kirkja Krists og samfélag trúaðra, og að hafna náðargáfunum, sem hann gefur, og ávöxtunum góðu, sem hann vill að spretti í lífi okkar. Þetta er að mínum dómi lífsviðhorf þess, sem neitar að gróðursetja lífstré sitt við rennandi uppsprettulindir heilags anda og frelsarans Jesú Krists. Það er ekki víst, að þeim manni verði fyrirgefið, jafnvel þó að sérhver synd og guðlöstun verði annars mönnum fyrirgefin, sem um hana biðja.
Jesús Kristur býður mér og þér þann valkost, að tré lífs okkar fái skotið rótum við lífslindina hans góðu og tæru. Ef við þiggjum það góða boð, þá væntir hann þess að við berum góðan ávöxt með orðum okkar og verkum “því að af ávextinum þekkist tréð.”
Við skulum þiggja það boð svo að við getum sagt með höfundi Davíðssálma: “Ég er sem grænt olíutré í húsi Guðs, treysti á náð Guðs um aldur og ævi” (Slm 52.13).
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.